Akureyri með besta vefinn

Í dag voru kynntar niðurstöður á úttekt á opinberum vefjum ríkis og sveitarfélaga og hlaut Akureyri viðurkenningu fyrir að eiga besta sveitarfélagavefinn, www.akureyri.is. Vefur Tryggingastofnunar ríkisins var kjörinn besti ríkisvefurinn.

Í umsögn dómnefndar um vef Akureyrarbæjar segir að aðgengi upplýsinga sé til fyrirmyndar. Forsíða gefi gott yfirlit um innihald hans og uppsetning sé skýr og skilmerkileg. Leitarniðurstöður séu sérlega skipulega framsettar. Vefurinn sé vel tengdur við aðra starfsemi í bænum sem auki gildi hans verulega. Þá segir að útlitshönnun vefsins sé nýstárleg, stílhrein, skipulögð og einstaklega falleg. Samspil mynda og efnisflokks sé mjög vel unnið. Viðmót vefsins sé hlýlegt og þægilegt.

Vefstjóri Akureyrarbæjar, Ragnar Hólm Ragnarsson, var veðurtepptur á Akureyri en Kristján Ævarsson frá Stefnu hugbúnaðarhúsi tók við viðurkenningunni fyrir hönd Akureyrarbæjar og flutti þakkarorð vefstjórans sem voru á þessa leið:

“Það er mikill heiður fyrir Akureyrarkaupstað – og sérstakt ánægjuefni á 150 ára afmælisári bæjarins – að taka við þessari góðu viðurkenningu. Akureyrarstofa hefur á undanförnum árum unnið að breytingum á vefnum og samdi síðasta vor við Stefnu hugbúnaðarhús um vefumsjón – starfsmenn á þeim bænum eiga miklar þakkir skilið fyrir frábæra vinnu og mjög notendavænt vefumsjónarkerfi sem hefur nýst okkur vel við endurbætur.

Heimasíður eiga að vera eins og kvikur lax sem gaman er að eiga við – sprelllifandi og sprettharðar. Heimasíður eiga að vera í sífelldri þróun og það er markmið okkar á Akureyrarstofu, ritnefndar síðunnar og þeirra hjá Stefnu, að gera góðan vef betri og síðan ennþá betri.

Enn og aftur þökkum við þennan mikla heiður sem okkur er sýndur hér í dag og flytjum ykkur bestu kveðjur að norðan.”

Í ritnefnd heimasíðu Akureyrarbæjar sitja Anna Marit Níelsdóttir, Dóróthea Jónsdóttir, Hólmkell Hreinsson og Ragnar Hólm.

Heimasíða Stefnu hugbúnaðarhúss.

Það var Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sem afhenti verðlaunin.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan