Akureyri á iði í maí

Íþróttaráð Akureyrarbæjar hefur skipulagt með íþróttafélögum, einstaklingum og fyrirtækjum dagskrá þar sem boðið verður upp á fjölbreytta hreyfingu og heilsueflandi viðburði í maí undir heitinu „Akureyri á iði“. Öll hreyfing og íþróttaiðkun í nafni átaksins er án endurgjalds með það að markmiði að stuðla að heilsurækt og aukinni hreyfingu bæjarbúa.

Fyrsti hápunktur átaksins verður um næstu helgi, laugardaginn 9. maí, þegar íþróttafélög innan ÍBA kynna starfsemi sína fyrir bæjarbúum. Mun sú kynning fara fram í Íþróttahöllinni og næsta nágrenni utandyra og í Sundlaug Akureyrar. Verður bæjarbúum boðið að prófa hinar ýmsu forvitnilegu íþróttagreinar og er viðbúið að ýmislegt komi þar á óvart. Öllu verður til tjaldað í tilefni þess að í ár er fagnað 70 ára afmæli ÍBA.

Átakið „Hjólaðu í vinnuna“ hefst í þessari viku, nánar tiltekið miðvikudaginn 6. maí, og stendur til 26. maí. Í framhaldinu verða viðburðir við allra hæfi í boði: Flot í Sundlaug Akureyrar, jógatímar, karate, golf, fullorðinsfimleikar, sjósund og sjálfsnudd. Sérstaka athygli vekur einnig að föstudaginn 15. maí verður hinum ýmsu starfsstéttum att saman í skriðsundskeppni sundfélagsins Óðins. Þá verður meðal annars spurt: Eru prestar sneggri en bæjarfulltrúar? Una íþróttakennarar sér betur í vatni en tónlistarmenn? Eru fastagestir laugarinnar hraðari en starfsmenn hennar?

Akureyringar eru hvattir til að skoða dagskrána á www.visitakureyri.is og taka þátt í átakinu „Akureyri á iði“.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan