Akureyrarvaka er um næstu helgi

Frá Akureyrarvöku 2015. Mynd: Ragnar Hólm.
Frá Akureyrarvöku 2015. Mynd: Ragnar Hólm.

Akureyrarvaka fer fram á föstudag og laugardag. Hátíðin verður sett í Lystigarðinum á föstudagskvöld þar sem koma meðal annars fram hljómsveitin Herðubreið, kammerkórinn Hymnodía og Karlakór Akureyrar-Geysir. Að því loknu hefst Draugaslóð í Innbænum. Þá eru öll götuljós slökkt í elsta hluta bæjarins og púkar og forynjur fara á stjá til að skjóta fólki skelk í bringu.

Hápunktur Akureyrarvöku er á laugardagskvöld þegar skemmtidagskráin „Gestir út um allt“ verður send út beint í Sjónvarpinu, N4 og Rás 2. Þar taka Margrét Blöndal og Felix Bergsson á móti góðum gestum sem taka lagið og sprella með áhorfendum. Meðal gesta eru Jakob Frímann Magnússon, Hera Björk Þórhallsdóttir og Jónas Sigurðsson. Hátt í þúsund kertaljós verða tendruð í kirkjutröppunum á Friðarvöku og Ingó veðurguð slær botninn í kvölddagskrána með samsöng í Listagilinu.

Allan laugardaginn verður þéttofin dagskrá vítt og breitt um bæinn. Um hádegisbil standa hverfisnefndir bæjarins fyrir grill og samveru í hverfunum og í Menningarhúsinu Hofi verður spurningaleikur með veglegum verðlaunum. Ævar vísindamaður verður einn af þeim sem halda uppi fjörinu á Vísindasetri í Rósenborg en dagskráin þar hefur mælst afar vel fyrir hjá unga fólkinu. Klukkan tvö býður AkureyrarAkademían til „samtals um hamingjuna“ í Hlöðunni við Litla-Garð nærri flugvellinum. Þar ræða Edda Björgvinsdóttir og Gunnar Hersveinn um margar og ólíkar hliðar hamingjunnar sem allir þrá að höndla.

Prúðbúið fólk hjólar saman um bæinn í svokallaðri Tweed Ride og leggur upp í ferðina frá Akureyrarkirkju. Tónleikar, markaðsstemning og alls kyns uppákomur verða síðan um allan miðbæinn, í Listagilinu og á Ráðhústorginu fram undir kvöld þegar dagskráin hefst í Listagilinu, fyrst með útsendingu þáttarins „Með grátt í vöngum“ þar sem Gestur Einar ræður ríkjum og síðan með skemmtidagskránni „Gestir út um allt“ eins og áður er getið.

Dagskrá Akureyrarvöku í heild verður borin út á hvert heimili í Eyjafirði og er einnig að finna á www.visitakureyri.is.

Þema Akureyrarvöku er að þessu sinni „leika, skoða, skapa“ og er fólk hvatt til að gera einkennisstafi hátíðarinnar að forsíðumynd sinni á Facebook. Hægt er að velja um marga skrautlega bókstafi sem hver um sig lýsir sköpun af einhverju tagi. Bókstafina er að finna á Facebooksíðu Akureyrarvöku.

Fylgstu með Akureyrarvöku á Visitakureyri.isFacebooksíðunni "Akureyrarvaka" og á Instragram #akureyrarvaka.

Máttarstólpar og samstarfsaðilar Akureyrarvöku eru:
Samskip, Landsbankinn, Exton, Flugfélag Íslands, Verkfræðistofan Efla, Norðurorka, RÚV, N4, IceWear, Bautinn, Icelandair Hotel, AmmaGuesthouse, Háskólinn á Akureyri, Slippfélagið, Plastiðjan-Bjarg, Matur og mörk, Ölgerðin, Vodafone, Útgerðarfélag Akureyringa, 
Toys r us, MS og fjöldi annarra sem leggja hönd á plóg.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan