Akureyrarvaka býður heim

Lystigardurinn -Akureyrarvaka 2015
Lystigardurinn -Akureyrarvaka 2015

Akureyrarvaka var sett í Lystigarðinum í gær og áfram halda herlegheitin í dag. Í Vísindasetrinu er Ævar vísindamaður búinn að koma sér fyrir með ryksuguhanska og slím, þarna verða sprengjusérfræðingar, brjálað vísindafólk, vitneskjan um hvernig íshellir er gerður, Vísindaskóli unga fólksins, hlýnun jarðar sýnd á grafískan hátt og fleira. Í Listagilinu stendur yfir málun veggverks eftir þemanu dóttir-mamma-amma, og frá klukkan tvö rekur hver opnunin aðra í sýningarsölum og galleríum. Tweed Ride hjólakeppnin hefst klukkan 14 við Akureyrarkirkju og endar við Akureyrar backpackers en þar er einmitt líka viðburðurinn Sendibréf eða "Post a letter" þar sem sest er niður og bréf skrifuð og send upp á gamla mátann. Á Torfunefsbryggju málar listamaðurinn Guido á ferjuna Sæfara og hægt verður að hlýða á frásögn Rósu Húnadóttur um konur í sjómannalögum. Á Kaffi Ilm lesa akureyrskar konur af erlendu bergi brotnar sín uppáhaldsljóð á móðurmálinu og á Götubarnum koma Vandræðaskáldin sér fyrir með tvær sýningar. Í Davíðshúsi ætlar Valgerður H. Bjarnadóttir að fjalla um móðurina í verkum skáldsins og í gluggum Eymundsson má sjá ljósmyndasýninguna "Í heimsókn hjá Helgu" með ljósmyndum Dagbjartar Brynju Harðardóttur.  Þetta og fjölmargt fleira yfir daginn.  

Akureyrarvaka nær svo hámarki í kvöld, annarsvegar með stórtónleikum stórsveitar Akureyrar undir stjórn Alberto Porro Carmona og gestastjórnandans Samúels J. Samúelssonar ásamt góðum gestum og hinsvegar er það Friðarvakan sem hefst strax að tónleikum loknum eða klukkan 23.  Í kvöld hefst dagskrá á Ráðhústorgi kl. 20 og nær til kl. 21 þegar stórtónleikarnir neðst í Listagilinu hefjast en eir standa til kl. 23.  Þar er Stórsveit Akureyrar undir stjórn Alberto Porro Carmona gestgjafi á sviði. Sveitin tekur á móti gestastjórnandanum Samúel J. Samúelssyni, Jónasi Sig, stúlknakór og eldri barnakór Akureyrarkirkju undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, Hafdísi Þorbjörnsdóttur, Brynju Elínu Birkisdóttur og einnig stíga á svið söngkonan Lay Low og hljómsveit. Hamingjan verður í aðalhlutverki á tónleikunum.

Að tónleikum loknum er komið að Friðarvökunni en með henni er kastljósinu beint að þeim vanda sem kynferðislegt ofbeldi er í þjóðfélaginu. Byltingin hefst hjá okkur sjálfum! Kertum verður raðað upp kirkjutröppurnar undir stjórn Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri og munu sjálfboðaliðar m.a. frá Soroptimistaklúbbi Akureyrar og Zontaklúbbi Akureyrar sjá um að raða kertunum í samvinnu við gesti Akureyrarvöku en þau verða seld víða um miðbæinn, kosta 500 kr. og eru til styrktar Aflinu, samtökum gegn heimilis- og kynferðisofbeldi. Fylgist með dagskrá Akureyrarvöku á www.visitakureyri.is og á Facebook.com/akureyrarvaka.

Helstu máttarstólpar Akureyrarvöku eru Samskip, Exton, Landsbankinn, Menningarráð Eyþings, Flugfélag íslands, Tónlistarskólinn á Akureyri, Norðurorka, verkfræðistofan Efla, Háskólinn á Akureyri, Gula villan, Apotek Guesthouse, Húsasmiðjan, Íslandsbanki, RUB23, Hótel Kea, Bautinn, Strikið, T-bone Steakhouse og Kung Fu Express, IceWear og fl.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan