Oppenheimer - kvikmynd ársins 2023?

Kæru kvikmyndaelskandi safngestir! Síðasti staðurinn í bænum til að fá lánaða mynddiska er Amtsbókasafnið og ein nýleg snilldin sem hefur bæst í safnkostinn okkar er Óskarsverðlaunamyndin Oppenheimer!

Hún er reglulega í útláni en það er um að gera að panta myndina því það kostar ekkert! Ekki heldur að fá hana lánaða!

Í mars sl. voru Óskarsverðlaunin veitt fyrir kvikmyndir sem gefnar voru út á árinu 2023. Það kom skemmtilega á óvart hvernig tvær myndir virtust taka heiminn með trompi. Barbie sem var aðsóknarmesta mynd síðasta árs í heiminum öllum og svo Oppenheimer sem sló líka ákveðin aðsóknarmet fyrir mynd af þessu tagi.

Þessar myndir urðu svo vinsælar og umtalaðar, að talað var um Barbenheimer-fyrirbæri og það teygði sig alveg yfir í verðlaunahátíðir líka. Nú er þeim öllum lokið fyrir síðasta ár og ljóst að mest verðlaunaða myndin er Oppenheimer. Fallega gert af þessum tveimur myndum að skipta „heiðrinum“ svona á milli sín :-)

Kvikmyndaunnendur þekkja vel leikstjórann sem er á bak við Oppenheimer en hann heitir Christopher Nolan. Eftir hann liggja myndir eins og Dunkirk, Memento, InceptionInterstellar, hin ótrúlega flotta trílógía um Leðurblökumanninn (Batman Begins, The Dark Knight og The Dark Knight Rises) og Tenet. Myndirnar hans hafa verið duglegar að hljóta tilnefningar til Óskarsverðlauna en það var ekki fyrr en núna fyrir Oppenheimer sem Christopher Nolan hlaut verðlaun sem besti leikstjórinn! Sei sei!

Verðlaunatónskáldið Hans Zimmer hefur samið tónlistina við flestar myndirnar hans Christophers en nú síðast hefur Svíinn Ludwig Göransson gengið til liðs við hann og hvað gerist? Jú, hann fær helling af verðlaunum fyrir tónlist sína í Oppenheimer.

Aðalleikari myndarinnar, Cillian Murphy, hefur leikið í flestum myndum Christophers og þykir mjög fjölhæfur leikari. En hann fékk einmitt Óskarinn fyrir að leika þessa sögufrægu persónu, sem og hinn frægi Robert Downey Jr. Oft hefur heyrst að fólk vilji taka sér hlé frá kvikmyndaleik, nema ef Christopher Nolan myndi biðja það um að vera í mynd eftir sig. Maðurinn náði að gera Harry Styles, poppgoðið unga, að fínum leikara í Dunkirk!

Þannig að við bíðum spennt eftir næstu snilld Christophers Nolans, en þangað til getið þið fengið lánaðar flestar af hans myndum hér á Amtsbókasafninu!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan