Bjart yfir Grímsey í skammdeginu

Grímseyjarkirkja. Mynd Sigurður Henningsson
Grímseyjarkirkja. Mynd Sigurður Henningsson

Veðrið er búið að vera einstaklega gott norður við heimskautsbaug undanfarnar vikur, sól og stilla dag eftir dag, þótt dálítill veðurhvellur gangi yfir eyjuna einmitt núna.

Tíminn hefur verið nýttur vel og mikið verið um framkvæmdir, m.a. við nýju kirkjuna en þar hefur verið unnið að frágangi utandyra, jarðvegsvinnu og hellulögn við kirkjuna og skrúðhúsið, auk þess sem búið er að innrétta skrúðhúsið sem m.a. mun hýsa almenningssalerni.

Íbúar hafa unnið í sjálfboðavinnu að frágangi á þaki kirkjunnar undir handleiðslu Kristjáns E. Hjartarsonar, byggingarstjóra, og standa vonir til að hægt verði að klára þakið í vetur og jafnvel byrja á framkvæmdum innanhúss í kirkjunni sjálfri. Þeim sem vilja styrkja verkefnið er bent á heimasíðu verkefnisins hér.

Framkvæmdum við nýjan stíg frá þorpinu og norður með vesturströnd eyjunnar hófust einnig fyrir skemmstu. Verkefnið er styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og mun bæta öryggi, upplifun og útivistarmöguleika fyrir íbúa og gesti eyjarinnar.

Við höfnina standa yfir endurbætur á raflögnum. Síðustu daga hefur ferjan Sæfari verið í slipp en er nú orðin sjófær og hefur áætlunarsiglingar aftur um leið og veður lægir.

Íbúum hefur fjölgað ofurlítið en nú er búið í tveimur húsum sem hafa fram að þessu verið nýtt sem orlofshús. Þar er um að ræða brottflutta Grímseyinga sem búsettir voru í Grindavík en hafa snúið aftur í heimahagana, a.m.k. meðan á jarðhræringum stendur á suðvesturhorninu. Líklega mun íbúum Grímseyjar fjölga enn meira um áramótin og hefur fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkt fyrir sitt leyti að endurvekja skólahald í Grímsey á vorönn 2024, að því gefnu að þrír nemendur hefji þar skólagöngu. Það er því bjart yfir grönnum okkar í norðri.

Myndir: Sigurður Henningsson, Anna María Sigvaldadóttir, Ragnhildur Hjaltadóttir og Halla Ingólfsdóttir.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan