Beint í efni

Aðalfundur hverfisráðs Hríseyjar og vel sóttur íbúafundur

Aðalfundur hverfisráðs Hríseyjar var haldinn mánudaginn 2. júní í húsnæði sveitarfélagsins í Hlein.

Aðalfundur hverfisráðs Hríseyjar var haldinn mánudaginn 2. júní í húsnæði sveitarfélagsins í Hlein.

Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum þar sem allir fulltrúar í ráðinu voru endurkjörnir, var haldinn afar vel sóttur almennur íbúafundur þar sem Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar, fjallaði um skipulagsmál í Hrísey og kynnti vinnu við gerð nýs deiliskipulags fyrir eyjuna.

Því næst voru almennar umræður um málefni Hríseyjar og þau mál sem brenna á íbúum. Góð þátttaka var í líflegum umræðunum og leyndi sér ekki að það er mikill hugur í Hríseyingum sem eru bjartsýnir á framtíðaruppbyggingu í eyjunni.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, tók þátt í fundinum ásamt nokkrum öðrum fulltrúum sveitarfélagsins.

Eftir íbúafundinn var gestum boðið að skoða nýja fjarvinnuaðstöðu í Hlein sem hefur verið gerð upp með glæsilegum hætti. Þar eru nú fjórar vinnustöðvar, fundarherbergi, næðisrými og eldhúskrókur. Allar aðstæður eins og best verður á kosið. Hægt er að fá afnot af aðstöðunni gegn gjaldi til styttri og lengri tíma.

Myndirnar að neðan tók María Tryggvadóttir þegar fulltrúar Akureyrarbæjar komu til Hríseyjar, á íbúafundinum og loks þegar gestir og gangandi skoðuðu fjarvinnuaðstöðuna í Hlein. Notið örvatakkann neðst til hægri til að fletta á milli þeirra.