Símenntun og starfsþróun starfsmanna - styrkir og sjóðir

Nú er fræðsla að fara á fullt á hinum ýmsu stöðum.
Starfsmennt býður til að mynda upp á ýmis vefnámskeið á næstunni og hægt er að kynna sér þau inn á smennt.is. Félagsmenn í Kili og Sameyki geta sótt námskeið hjá Starfsmennt sér að kostnaðarlausu.

Símey býður einnig upp á ýmis námskeið sem hægt er að skoða á síðunni þeirra. Einnig er hér frétt um námskeið sem eru félagsmönnum í Einingu-Iðju, Kili og Sameyki að kostnaðarlausu.

Símenntun Háskólans á Akureyri bjóða einnig upp á fjölbreytt námskeið.

Mörg stéttarfélög bjóða upp á styrki er kemur að símenntun og starfsþróun starfsmanna. Sum stéttarfélög eru aðilar að fræðslustofnunum og gefst þá félagsmönnum tækifæri á að sækja sum námskeið frítt. Á meðan önnur stéttarfélög bjóða upp á fræðsludagskrá fyrir félagsmenn.

Dæmi um þjónustu fyrir félagsmenn stéttarfélaga:
Kjölur mannauðssjóður - Félagsmenn Kjalar geta sótt um styrki í Mannauðssjóð Kjalar, þar er hægt að fá styrki fyrir náms- og kynnisferðum og fyrir fræðsluverkefnum.

Nám og þjónusta Starfsmenntar - fræðsluseturs er félagsmönnum aðildarfélaga að kostnaðarlausu og eru Kjölur og Sameyki, stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu með aðild að Starfsmennt.

Sveitamennt veitir félagsmönnum Einingar-Iðju og öðrum aðildarfélögum sínum styrki til þess að þeir eigi kost á að sækja nám/námskeið með vinnu án verulegs kostnaðar. Mörg námskeið hjá Símey eru félagsmönnum Einingar-Iðju að kostnaðarlausu.

Starfsþróunarsetur háskólamanna veitir félagsmönnum aðildarfélaga BHM styrki til náms og má þar nefna styrki vegna skólagjalda, námskeiðsgjalda og ráðstefnugjalda.

Félagsmenn Kennarasambands Íslands sem eru virkir og greidd eru félagsgjöld fyrir geta sótt um styrki í endurmenntunarsjóði. Það á við um kennara á leikskólum, grunnskólum og í tónlistarskólum. Einnig er fræðslu- og kynningarsjóður og starfsþróunarsjóður fyrir annað háskólamenntað fólk sem eru í sambandinu. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu sambandsins hér.

Hér hefur aðeins verið stiklað á því helsta en fleiri fræðslusjóðir eru til og hvetjum við starfsmenn til að kynna sér styrki hjá sínu stéttarfélagi. Stéttarfélög bjóða einnig upp á ýmsa aðra styrki sem hægt er að kynna sér á heimasíðum félaganna.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan