Hvað er að frétta af Listasafninu?

Verk eftir Erró frá árinu 1980.
Verk eftir Erró frá árinu 1980.

Að þessu sinni fengum við að skyggnast inn í starfsemi Listasafnsins. Hlynur Hallsson safnstjóri sagði okkur frá starfseminni og daglegu lífi á Listasafninu þessa dagana.

Mynd af Hlyni Hallssyni

Listasafnið tekur þátt í Barnamenningarhátíð af krafti, í ár eins og síðastliðin ár. Á safninu er boðið upp á fjölmargar listsmiðjur og auk þess eru verk eftir nemendur í Lundarskóla og Naustaskóla til sýnis í safnkennslurýminu. Hin árlega sýning Sköpun bernskunnar er í gangi og stendur til 2. maí svo þau sem ekki eru búin að sjá hana ættu að drífa sig. Gróður jarðar er þema sýningarinnar og þar sýna listamenn og börn úr grunn- og leikskólum á Akureyri verk sín. Það eru fjórar aðrar sýningar í gangi í safninu; Lilý Erla Adamsdóttir, Kristín K. Þ. Thoroddsen, Úrval II og Frá Kaupfélagsgili til Listagils. Nánar má lesa um sýningar safnsins á http://www.listak.is.

Nú er unnið að uppsetningu á stórri sýningu á verkum Errós sem opnar þann 1. maí. Titill sýningarinnar er Ferðagarpurinn Erró. Þar verða sýnd verk frá löngum ferli listamannsins og er hún unnin í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur. Það eru fleiri nýjar sýningar framundan því 8. maí opna sýningar nemenda Myndlistaskólans og nemenda af listnámsbraut VMA. Í lok maí opna svo sýningar á nýlegum verkum úr safneign og samsýning norðlenskra listamanna verður sett upp undir titlinum Takmarkanir, af gefnu tilefni.

Listasafnið tekur þátt í hlaðvarpsbylgjunni og hér má hlusta á fimm viðtöl við listamenn og sýningarstjóra.
Fjölmargir skólahópar hafa heimsótt safnið að undanförnu og fengið leiðsögn um sýningar og tækifæri til að teikna, mála og gera verkefni tengd sýningum.
Verkefnið Allt til enda fékk styrk úr Barnamenningarsjóði Íslands og haldnar voru þrjár smiðjur sem enduðu allar með stuttum sýningum á verkum barna og ungmenna. Hér má sjá frétt og myndir frá ljósmyndasmiðjunni.

Listasafnið er virkt á Instagram og á Twitter og einnig á Facebook og það er tilvalið að líka við safnið þar til að fá fréttir af því sem um er að vera á safninu. Listasafnið er opið alla daga kl. 12-17 og í sumarbyrjun mun opna nýtt kaffihús í safninu. Verið velkomin.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan