Heimsókn mannauðsráðgjafa í Skógarlund, miðstöð virkni og hæfingar

Sigrún og Friðný mannauðsráðgjafar á mannauðsdeild bæjarins brugðu sér í heimsókn í Skógarlund nú á dögunum. Heimsóknin er liður í því að fá að kynnast vinnustöðum bæjarins betur og deila því með ykkur.

Í Skógarlundi er einstaklingum með langvarandi stuðningsþarfir boðin einstaklingsmiðuð þjónusta í formi virkni og hæfingar. Skógarlundur heyrir undir Velferðarsvið Akureyrarbæjar og þar eru alls 18 starfsmenn í 16 stöðugildum. Unnið er samkvæmt lögum um málefni fatlaðra, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og unnið samkvæmt hugmyndafræði og nálgun Þjónandi leiðsagnar og Valdeflingar.

Skógarlundur er opinn frá 08.00 – 16.00 virka daga og boðið er upp á hálfs dags þjónustu, annað hvort fyrir eða eftir hádegi. Í Skógarlundi er boðið upp á þroska – iðju – og starfsþjálfun. Stuðst er m.a. við hugmyndafræði TEACCH og mikilvægi óhefðbundinna tjáskiptaleiða. Um 46 einstaklingar koma í Skógarlund, langflestir daglega og er markmiðið að bjóða upp á virkni, vinnu og hæfingu fyrir alla, félagsskap, tilbreytingu og aukin lífsgæði.

Í Skógarlundi eru níu starfsstöðvar og allir sem koma í þjónustu vinna á tveimur starfsstöðvum á dag. Þessi fjölbreytni eykur virkni og allir sem koma í þjónustu vinna á öllum starfsstöðvum. Starfsstöðvarnar eru: Skapandi starf, vinnuþjálfun, gagnaeyðing, smíðar og handverk og tölvur og rofar. Einnig er boðið upp á skynörvun, hreyfingu og tjáskipti.

Það var virkilega skemmtilegt og fræðandi að kíkja í heimsókn og sjá hvað þarna er unnið fjölbreytt og gott starf. Í Skógarlundi hefur tækjabúnaður verið uppfærður, starfsmönnum og þjónustuþegum til mikillar ánægju. T.d. fengu þau styrk til að kaupa tjáskiptatölvu, þau eru að nota tölvu með augnstýribúnaði til þjálfunar og fengu nýlega styrki til að kaupa hjól frá Lionsklúbbunum Hæng, Ösp og Sif, Kiwanisklúbbnum Kaldbak, Kvenfélögunum Baldursbrá og Öldunni og Roundtable 7. Hjólið er komið í notkun og nýtist frábærlega vel og eru starfsmenn að taka upp hjólaleiðir í bænum sem þau hjóla svo eftir á stórum skjá.

Í Skógarlundi fer fram mjög metnaðarfullt starf og í skapandi starfi og smíðum eru unnin falleg handverk eins og t.d. máluð listaverk og ýmsir fallegir leirmunir.
Allir geta komið og skoðað og fest kaup á fallegum listmunum fyrir sanngjarnt verð.

Við mælum eindregið með heimsókn í Skógarlund.

Takk fyrir góðar móttökur.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan