Gefum jólaljósum lengra líf

Plastiðjan Bjarg Iðjulundur hefur til margra ára haft umhverfisvernd og endurnýtingu að leiðarljósi og hefur til fjölda ára nýtt vaxafganga og kerti sem eru ekki söluhæf, svokallað úrgangsvax til útikertaframleiðslu. Á hverju ári eru notuð um 20 tonn af vaxi í útikertin, þar af eru um 7 tonn af úrgangsvaxi en restin er innflutt vax. Möguleiki væri að framleiða meira fengi Plastiðjan Bjarg Iðjulundur meira úrgangsvax.


Mikilvægt er að landsmenn séu duglegir að skila inn kertaafgöngum. Hér á Akureyri er hægt er að skila afgöngunum á grendarstöðvarnar, til Endurvinnslunnar Furuvöllum 11, að Réttarhvammi og til Plastiðjunnar Bjargs Iðjulundar að Furuvöllum 1. Tekið er á móti öllum kertastubbum og vaxafgöngum til endurnýtingar.

Einnig er tekið á móti sprittkertum en Plastiðjan Bjarg Iðjulundur stendur nú að endurvinnsluátakinu „Gefum jólaljósum lengra líf – endurvinnum álið í sprittkertum" ásamt Samtökum álframleiðenda, Endurvinnslunni, Fura málmendurvinnsla, Gámaþjónustunni, Íslenska gámafélaginu, Málmsteypan Hella, Samtökum iðnaðarins og Sorpu.
Tilgangurinn er að fá fjölskyldur til að skila álinu í sprittkertum til endurvinnslu og efla vitund Íslendinga um mikilvægi þess að endurvinna það ál sem fellur til á heimilum og hjá fyrirtækjum.

Ætla má að á ári hverju séu notuð um 3 milljónir sprittkerta hér á landi. Til að setja hlutina í samhengi, þá dugar álið úr þremur sprittkertum í eina drykkjardós og einungis þarf þúsund sprittkerti til að búa til reiðhjól.

Átakið hófst 6. desember og lýkur því 31. janúar næstkomandi.

Nánari upplýsingar um átakið má finna á vefsíðu þess hér

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan