Andleg heilsa starfsfólks á streituvaldandi tímum

Í ljósi þeirra óvissutíma sem við erum að upplifa þessa dagana hvetjum við starfsfólk Akureyrarbæjar til þess að huga vel að andlegri heilsu sem og líkamlegri.

Þegar manneskjan stendur frammi fyrir ógn eða aðstæðum sem fela í sér mikla óvissu, búum við svo vel að hafa til staðar innri varnarhætti sem virkjast og taka til starfa. Í hversdagslegu samhengi þá finnum við til kvíða, við höfum áhyggjur og oft er þráðurinn styttri og við fljótari upp. Við fáum oft auka kraft til að takast á við hlutina og framkvæma. Kvíða- eða ótta viðbragðið er nátengt eðlisávísun okkar um að geta tekist á við ógn eða hættu og haldið velli, eða einfaldlega komist af. Þegar ógnin er viðvarandi og óvissa mikil, er hættan sú að við séum sífellt að virkja tilfinningaviðbrögð okkar á kostnað skynsemi og ályktunarfærni. Við bregðumst þá gjarnan við af hvatvísi, getum sýnt illa ígrunduð viðbrögð og dottið í fljótfærni.

Í þeim faraldri Covid-19 veirunnar sem nú geysar og í ljósi þeirrar fordæmalausu stöðu sem við nú stöndum frammi fyrir, er mikilvægara en nokkru sinni að við höldum ró okkar. Landslagið er breytilegt dag frá degi en í samfélagi okkar þar sem upplýsingagjöf er vönduð og skýr, höfum við alla möguleika til að fylgjast með, vega og meta réttar upplýsingar og stilla af okkar annars eðlislæga ótta. Nú erum við hvött til, ekki aðeins persónulegrar ábyrgðar heldur einnig samfélagslegrar ábyrgðar. Nú sem áður er gott að minna sig á að þessi óvissutími mun taka enda, það er engin ástæða til skelfingar en vissulega verðum við að sýna sveigjanleika og leggja okkar að mörkum til að breyta venjum, vinnulagi og samskiptum við okkar nánustu og aðra.

Við erum nú kölluð til ábyrgðar og hvött til að fylgja tilmælum okkar framlínufólks í sóttvörnum. Um leið og við sýnum ábyrga hegðun er mikilvægt að við hugum einnig að andlegri heilsu. Í miklum óstöðugleika eins og nú ríkir er eðlilegt að upplifa óöryggi og aukna streitu. Við þurfum að tryggja stöðugleika á heimili, dagleg rútína styður við öryggiskennd okkar, einnig regla á matmálstímum og nægur svefn. Við þurfum að leita leiða til að skapa hugarró og dreifa huganum með heilbrigðum hætti. Þessi tími hvetur okkur til að staldra við og vinna í sameiningu að því að mæta ástandinu og vinna okkur í gegnum það. Við getum því miður ekki skorast undan þeirri ábyrgð. Látum okkar eðlislæga ótta frekar virkja með okkur kraft til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru, í stað þess að leyfa honum að ná yfirráðum og lama huga og hjarta. Það er einfaldlega ekki í boði, svo gripið sé í orðalag sem flest leikskólabörn landsins þekkja. Sé skynsemin höfð að leiðarljósi sjáum við að slíkt er ekki nauðsynlegt og mun klárlega ekki gagnast okkur nú.

Bjargráðin í betri upplausn má finna hér

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan