Skólaþjónusta
Fræðslu- og lýðheilsusvið veitir sérfræðiþjónustu fyrir börn á leik- og grunnskóla aldri.
Hlutverk skólaþjónustu fræðslu- og lýðheilsusviðs er margþætt, en snýr að mestu að stuðningi við einstaka nemendur, foreldra þeirra og skóla. Þjónustan felst í ráðgjöf, stuðningi og greiningum sem snúa að námi, líðan, hegðun, samskiptum og almennum þroska.
Í skólaþjónustunni er lögð áhersla á þverfaglega teymisvinnu en þar starfa sérkennsluráðgjafar, ÍSAT kennsluráðgjafi, sálfræðingar, félagsráðgjafar með sérfræðiþekkingu á PMTO-foreldrafærni ásamt ritara. Þá fara allar tilvísanir til talmeinafræðinga í gegnum skólaþjónustu.
Ýmis konar ráðgjöf og námskeið eru í boði fyrir foreldra, s.s. uppeldisleg ráðgjöf, PMTO námskeið/meðferð í foreldrafærni, Klókir litlir krakkar (vegna kvíðinna barna) ásamt almennri fræðslu til foreldra barna með ADHD, einhverfu eða aðrar áskoranir
Beiðnir til skólaþjónustu eru oftast unnar í samstarfi foreldra og skóla, því er mælt með að foreldrar setji sig í samband við tengilið skólans ef áhyggjur vakna. Foreldrar geta einnig leitað beint til skólaþjónustu sem er staðsett í Glerárgötu 26 eða sent tölvupóst á fraedslusvid@akureyri.is