Akureysk ungmenni eru vinir Kambódíu.

Akureysk ungmenni
Akureysk ungmenni

Nemendur í 9. og 10. bekk í grunnskólum Akureyrarbæjar vilja stuðla að menntun fátækra barna í Kambódíu og ætla að halda fjáröflun í formi maraþons sem stendur yfir í sólarhring frá föstudeginum 18. desember til laugardagsins 19. desember.

Í þennan sólarhring munu unglingarnir ekki notast við neitt rafmagn og verða því ekki neinir símar við hönd eða önnur nútímatækni sem við erum flest öll orðin vön – og háð. Með öðrum orðum þá munu þau loka sig frá umheiminum og setja sig í nýjar og ókunnar aðstæður.

Unglingarnir eru búnir að vera duglegir að safna áheitum með því að hafa samband við fyrirtæki víðs vegar um bæinn og vonast þeir til að safna nægum peningum sem duga til að reka grunnskóla í Kambódíu í eitt ár. Vinir Kambódíu eru samtök sem sjá um að styrkja skóla og aðstoða við uppbyggingu þeirra til að fátækustu börn Kambódíu hafi kost á að sækja menntun.

Það voru unglingarnir sjálfir sem áttu hugmyndina að þessu verðuga verkefni en njóta aðstoðar FélAk, félagsmiðstöðvana á Akureyri, við að láta þetta verða að veruleika. Unglingarnir og starfsmenn FélAk dvelja í Síðuskóla þennan sólarhring sem maraþonið stendur yfir og finna sér ýmislegt til dundurs sem ekki krefst rafmagns, hina ýmsu leiki í formi spila og hreyfingar. Vonast er til að sem flestir sjái sér fært að styðja þessa flottu unglinga og göfugmannlegt verkefni þeirra. Munum að margt smátt gerir eitt stórt.

Þeir sem vilja leggja málefninu lið, geta lagt inn á eftirfarandi reikning: 0565-26-1143, kt. 520112-0300.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan