Öldrunarheimili Akureyrar

Yfirumsjón

Öldrunarheimili Akureyrar eru rekin af Akureyrarbæ samkvæmt sérstökum samningi við ríkið og eru hluti af félagsþjónustu bæjarins. Auk aldraðra Akureyringa eiga aldraðir íbúar nágrannasveitarfélaga einnig kost á þjónustu á öldrunarheimilunum samkvæmt sérstökum samningi við nágrannasveitarfélögin.

Velferðaráð Akureyrarbæjar hefur yfirumsjón með rekstri Öldrunarheimilanna fyrir hönd bæjarins.

Formaður velferðarráðs er Heimir Haraldsson.

Umfang heimilanna

Umfang og verkefni öldrunarheimila hafa breyst undanfarna áratugi í breyttu þjóðfélagi. Heimaþjónusta og heimahjúkrun hefur stóraukist svo að aldraðir geti sem lengst búið í heimahúsum í samræmi við óskir flestra aldraðra. Mikið heilsuleysi hrjáir því marga aldraða þegar þeir flytja á öldrunarheimili. Afleiðing þessarar þróunar er að dvalarrýmum hefur fækkað en hjúkrunarrýmum fjölgað til muna á öldrunarheimilum. Segja má að öldrunarheimili hafi tekið við þeirri þjónustu við aldraða sem langlegudeildir sjúkrahúsa sinntu áður.

Samkvæmt skilgreiningu í lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999 eru dvalarrými ætluð öldruðum einstaklingum sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu, en hjúkrunarrými ætluð öldruðum einstaklingum sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum, sambýlum eða í sérhönnuðum íbúðum.

Öldrunarheimili Akureyrar eru á tveimur stöðum og reka heimili fyrir alls 182 íbúa og þar af eru hjúkrunarrými fyrir 155, dvalarrými fyrir 10 og 17 hjúkrunarrými fyrir tímabundnadvöl og hvíldardvöl. Heimilin eru:
Hjúkrunar- og og dvalarheimilið Hlíð, þar eru 137 íbúi og flestir eru í hjúkrunarrýmum.
Hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð, þar eru 45 íbúar í hjúkrunarrýmum.
Öldrunarheimilin eru með fjölmennari vinnustöðum Akureyrarbæjar og starfa þar um 260 manns í tæplega 220 stöðugildum. Mikið starfsmannalán hefur fylgt Öldrunarheimilunum í gegnum tíðina og hafa flestir starfsmenn starfað á heimilunum árum saman.

Skipulag og stjórnendur

Smelltu hér til að sjá skipurit ÖA.

Framkvæmdastjóri er Halldór Sigurður Guðmundsson, halldorg@akureyri.is 

Hjúkrunarforstjóri er Helga Erlingsdóttir, helgae@akureyri.is

Rekstrarstjóri er Lúðvík Freyr Sæmundsson, ludvik@akureyri.is 

Forstöðumaður stoðþjónustu er Friðný Björg Sigurðardóttir, fridny@akureyri.is

Aðsetur ofannefndra stjórnenda er í Hlíð, Austurbyggð 17, 600 Akureyri, s: 460-9100.

Forstöðumenn eru yfir hverju heimili/einingu og er þeirra getið við hverja einingu.

 

Hlutverk Öldrunarheimila Akureyrar

Hlutverk Öldrunarheimila Akureyrar er að tryggja öldruðum vistlegt heimili, hjúkrun, þjálfun og aðhlynningu eftir þörfum hvers og eins og veita ávallt bestu mögulegu þjónustu með áherslu á vellíðan og ánægju íbúa.

Á öldrunarheimilunum er rekin dagþjónusta, mötuneyti, þvottahús og lítil verslun, auk þess sem boðið er upp á iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, fjölbreytt félagsstarf, læknisþjónustu, hársnyrtingu, fótaaðgerðir, margs konar afþreyingu o.fl.

Markmið allrar þjónustu sem veitt er á Öldrunarheimilum Akureyrar er að tryggja öryggi og vellíðan íbúa og standa vörð um sjálfsmynd þeirra og sjálfsvirðingu. Lögð er áhersla á virðingu fyrir einstaklingnum og að tekið sé tillit til viðhorfa hans og þarfa eins og kostur er. Einnig er lögð áhersla á endurhæfingu og að viðhalda þeirri færni sem fyrir hendi er. Jafnframt er hugað að þörf fyrir félagsskap og þátttöku í dægradvöl.

Umsóknir

Þegar einstaklingur óskar eftir að sækja um dvöl á hjúkrunarheimili þarf að sækja um svokallað vistunarmat þar sem heilsufar og aðstæður umsækjenda eru metnar. Ekki er gert vistunarmat nema félagsleg heimaþjónusta, heimahjúkrun og önnur úrræði sem styðja fólk til dvalar í heimahúsum sé fullreynd. Vistunarmati þurfa að fylgja upplýsingar frá heilbrigðis- og félagsþjónustu auk upplýsinga frá viðkomandi læknum eftir því sem við á. Umsóknir um vistunarmat þurfa að berast vistunarmatsnefnd á sérstöku eyðublaði sem hægt er að nálgast á heimasíðu Landlæknisembættis. Einnig er hægt að nálgast eyðublöðin á Heilsugæslustöðinni á Akureyri og Búsetudeild Akureyrarbæjar. Umsóknum á að skila á Heilsugæslustöð Akureyrar. Síðan mun vistunarmatsnefnd fjalla um umsóknina og senda skriflegar niðurstöður til umsækjenda. Sjá nánar HÉR.

Nýir íbúar

Við komu er nýjum íbúum úthlutað herbergi sem er einbýli.  Hjúkrunarrýmum fylgir sjúkrarúm og náttborð en íbúar í dvalarrýmum þurfa að koma með rúm.  Gluggatjöld eru í öllum herbergjum, en óski íbúi eftir að hafa eigin gardínur er það sjálfsagt mál. Annan húsbúnað hefur íbúi með sér, gott er að vera í samráði við forstöðumann eða starfsfólk heimilisins þegar húsbúnaðurinn er valinn. Allur búnaður íbúa sem og klæðnaður þarf að vera merktur eiganda.

Við flutning inn á Öldrunarheimili Akureyrar fær hver nýr íbúi tilnefndan tengil. Hlutverk tengilsins er að setja sig vel inn í aðstæður og óskir íbúans og vera í sambandi við aðstandendur þegar þörf er á.

Við flutning fá nýir íbúar afhentan bækling með helstu upplýsingum um heimilið fyrir sig og aðstandendur sína.

Samvinna er höfð að leiðarljósi

Náin samvinna milli íbúa, fjölskyldu og starfsfólks er höfð að leiðarljósi við alla umönnun. Það er farsælasta leiðin til að stuðla að góðri aðlögun, öryggi og vellíðan. Lögð er áhersla á vistlegt umhverfi og að heimilisfólk hafi persónulega muni með sér, til þess að gera umhverfið notalegra og eins heimilislegt og hægt er.

Mikil þörf er fyrir stuðning fjölskyldunnar þegar aldurinn færist yfir og heilsan brestur. Það er mörgum erfið ákvörðun að yfirgefa heimili sitt og flytja á stofnun. Heimsóknir aðstandenda stytta daginn, veita styrk og efla fjölskyldutengslin. Aðstandendur eru alltaf velkomnir og er þátttaka og afskipti þeirra vel þegin.

Síðast uppfært 03. nóvember 2020