Frá dagþjónustu til dagþjálfunar

Bakgrunnur:

Félagsmálaráð Akureyrarbæjar skipaði starfshóp í apríl 2013 sem fékk það verkefni að skoða samvinnu og / eða samþættingu dagþjónustu aldraðra á Akureyri með það að markmiði að efla gæði starfsins. Niðurstaða hópsins var sú að stjórnun dagþjónustu aldraðra á Akureyri yrði á einni hendi og stýrt frá Öldrunarheimilum Akureyrar (ÖA).

Á öllu tímabilinu var unnið með starfsfólki á báðum einingum þar sem skoðað var hvernig framtíðarskipulagið skyldi vera m.t.t. að hámarka samlegð og auka gæði starfseminnar í þágu notenda.

 

Markmið og gildi dagþjálfunar:

Markmiðið er að styðja aldraða til sjálfstæðis og sjálfræðis og efla færni og sjálfsbjargargetu í heimahúsum og í dagþjálfun. Unnið er eftir Eden hugmyndafræðinni og hugmyndafræði þjónandi leiðsagnar.

 

Aðferðir:

Farið var í endurmat og endurskipulagningu á starfseminni sem fólst í því að breyta dagþjónustu í dagþjálfun. Að breyta viðhorfum notenda og starfsfólks til starfseminnar, ásamt starfsaðferðum. Breyta menningu og gömlu skipulagi sem áður tilheyrði tveimur ólíkum vinnustöðum.

Innra starf dagþjálfunar felur í sér viðhaldsþjálfun, efla virkni, einstaklingsíhlutun, efla samstarf við aðstandendur, viðburðir og menning, fræðsla og ráðgjöf.

Í dagþjálfuninni er almenn og sértæk þjálfun.  Almenn þjálfun inniheldur fasta liði eins og hópastarf, samverustundir, upplestur, söng, leikfimi, útiveru, gönguferðir, sund, aðstoð í eldhúsi og smiðja (verkstæði/handverk). Vax- og slökunarhópar ásamt ýmissi hugarleikfimi. Karla- og konuhópar, garðvinna og hænur.

Sértæk þjálfun er hugsuð fyrir einstaklinga með greinda heilabilunarsjúkdóma sem þurfa á sértækari þjálfun að halda s.s. maður á mann, tilheyra minni hópi, skapa öryggi og að einstaklingurinn njóti sín án þess að upplifa vanmátt sinn eða minnkaða færni. Þjálfun við ADL, nota hjálpartæki, slökun eða að tilheyra klúbbi eins og Sólskinsklúbbi (sértæk meðferð f. einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma).

 

Niðurstöður og ályktanir:

Gengið var í gegnum farsælt breytingaferli þar sem tvær starfsstöðvar voru sameinaðar í eina. Lykilatriði breytinganna var þátttaka starfsfólks og notenda í breytingunum. Fjölbreytileiki einkennir starfsmanna- og notendahópinn. Dagþjálfunin er með blönduð rými. Á því eina ári sem liðið er frá sameiningunni hafa engin stór vandamál eða erfiðleikar komið upp á tímabilinu. Í heildina hefur gengið vel og starfsemin er í stöðugri þróun með það að leiðarljósi að auka gæði í þjónustu við aldraða.  

 

 

Ritað á ársbyrjun 2017,

Björg Jónína Gunnarsdóttir deildarstjóri dagþjálfunar ÖA

Friðný B. Sigurðardóttir forstöðumaður stoðþjónustu ÖA

Síðast uppfært 13. júlí 2018