Þráðlaust net

Meðal mikilvægustu verkefna í þjónustu við eldra fólk er að viðhalda eða efla lífsgæði s.s. öryggi, líðan, virkni og samskipti. Má í því sambandi minna á að þeir þættir sem þarfnast frekari skoðunar skv. sérstöku gæðamati (RAI mati) eru m.a. depurð/þunglyndi, hreyfing / virkni, félagsleg samskipti og  fjöldi notaðra lyfja.

Á Öldrunarheimilum Akureyrar hefur síðan 2006 verið unnið að innleiðingu EDEN hugmyndafræðinnar sem kallast að nokkru á við þessi viðfangsefni, t.d. með áherslu á börn, dýr og plöntur til að vinna gegn einmanaleika, vanmáttarkennd og leiða, samhliða áherslu á heimilislegan anda og virka þátttöku íbúa og aðstandenda.

Einn þáttur nútímasamfélagsins sem hefur tekið og mun væntanlega taka miklum breytingum á næstu árum, er notkun margháttaðrar tækni til miðlunar upplýsinga sem og til samskipta. Nægir að nefna veraldarvefinn, YouTube, Fésbókina, heimasíður, tölvupóst, Skype og FaceTime myndsamtöl, en ætla má að yngra fólk/almenningur nýti sér að hluta eða miklu leyti í daglegu lífi.

Innan heilbrigðisþjónustunnar og þar með í þjónustu við eldra fólk, hefur tæknin helst átt innreið í tengslum við skráningarkerfi, viðvörunarkerfi og álíka búnað sem léttir starfsfólki tiltekin verkefni, eykur öryggi eða auðveldar að halda utan um upplýsingar og miðla þeim.

Minna fer fyrir umræðu eða notkun á tölvum og tæknilegum verkfærum sem beinlínis eru til þess fallinn að létta íbúum og aðstandendum lífið og samskipti sín á milli eða sem þátt í skipulögðu félagsstarfi og til að vinna með / efla virkni eldra fólks, hinsvegar er tilefni er til að ætla að eldra fólk/notendur þjónustunnar muni í framtíðinni vera hagvant og gera kröfu um tæknilegar lausnir og aðgengi að netsamskiptum í meira mæli en áður.

Með tilliti til aukinna möguleika til upplýsingaöflunnar og samskipta fyrir íbúa, og ekki síður til að auðvelda innreið annarra velferðartækni verkefna þótti mikilvægt að þráðlaust net væri aðgengilegt innan veggja ÖA, uppbygging þráðlauss nets var unnið undir verkefnaheitinu "tölvur og tækni" og naut það veglegs fjárstuðnings Samherjasjóðsins.

Síðast uppfært 13. júlí 2018