Lífsgæði og vellíðan

Eden hugmyndafræðin

Hvernig aukum við lífsgæði og vellíðan íbúa hjúkrunarheimila? Lífsgæði er hugtak sem erfitt er að skilgreina í einu orði. Hugtakið er samsett úr nokkrum þáttum sem m.a.  tengjast heilsu, umhverfi, tengslum við aðra, félagslegri virkni, virðingu og sjálfstæði. Eden hugmyndafræðin leggur áherslu á sjö þætti sem skipta máli fyrir vellíðan fólks, s.k. vellíðunarlyklar. Í bókinni Dementia beyond disease – enhancing well-being fjallar Allen Power um vellíðunarlyklana og áhrif þeirra á vellíðan íbúa, aðstandenda og starfsfólks. Hann setur lyklana upp í n.k. þarfapýramída þar sem grunnurinn er sjálfsmynd og tengsl, því næst er öryggi og sjálfstæði, þá  tilgangur og þroski og efst er gleðin. Hvert þrep byggir á því sem undir er líkt og þekkt er frá þarfapýramída Maslows. Hægt er að styðjast við vellíðunarlyklana þegar vandamál og/eða vanlíðan er til staðar til þess að greina hvaða lykli er ekki fullnægt og hvað er þá hægt að gera til þess að efla og styrkja einstaklinginn til þess að auka lífsgæði hans og vellíðun.

Á Öldrunarheimilum Akureyrar er unnið markvisst með vellíðunarlyklana út frá hugmyndafræði Eden og Þjónandi leiðsagnar. Með því er verið að styrkja og efla íbúa, starfsmenn, vini og ættingja og auka lífsgæði þeirra.

Markmiðið er að vera sáttur við sjálfan sig, líða  vel og njóta.

 

Síðast uppfært 14. apríl 2020