Athugasemd vegna umfjöllunar um málefni ÖA

Öldrunarheimili Akureyrar - annað af tveimur heimilum sem tilheyra ÖA, Hlíð Austurbyggð 17 og Lögman…
Öldrunarheimili Akureyrar - annað af tveimur heimilum sem tilheyra ÖA, Hlíð Austurbyggð 17 og Lögmannshlíð Vestursíðu 9.

Vegna umfjöllunar um Öldrunarheimili Akureyrar (ÖA) á Facebook og á vef Fréttablaðsins er rétt að eftirfarandi komi fram:

Starfsfólki og stjórnendum ÖA þykir leitt að upplifun aðstandanda eins íbúa öldrunarheimilanna sé slík sem fb-færsla viðkomandi ber vitni um. Það er ávallt erfitt og sorglegt þegar einstaklingar „hverfa" smám saman inn í heim heilabilunarsjúkdóma. Á Öldrunarheimilum Akureyrar vinnum við á heimilum þess fólks sem þar býr og kappkostum að íbúunum líði eins vel og kostur er. Við yfirförum verkferla með kerfisbundnum hætti með það að markmiði að gera betur ef þess er nokkur kostur.

ÖA á því láni að fagna að þar er ekki mannekla. ÖA er eftirsóknarverður staður til að vinna á og við erum heppin með að vera með stóran hóp af hæfu starfsfólki sem sinnir íbúum af kostgæfni og finnst starfið hér gefandi og skemmtilegt. Að jafnaði eru að lágmarki 10 starfsmenn innan heimilisins sem um ræðir og þannig var það í ofangreindu tilviki. Íbúar og aðstandendur þeirra eru almennt mjög ánægðir með umönnun og upplifa hlýleika á heimilunum.

Umræða um málefni aldraðra er vissulega þörf en hún getur jafnframt vakið óróa hjá íbúum, aðstandendum þeirra og starfsfólki. Ég hvet því alla sem vilja fjalla um þessi mál að hafa nærgætni að leiðarljósi og eftir atvikum, hafa samband við stjórnendur öldrunarheimilanna ef upp koma áhyggjur eða spurningar varðandi starfsemina.

Ég vil að lokum vekja athygli á því að Öldrunarheimili Akureyrar standa að minnsta kosti 2-3 á ári fyrir opnu húsi til að kynna starfsemi sína og þjónustu og halda einnig úti heimasíðu og fésbókarsíðu. Ég hvet alla sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemi og þjónustu Öldrunarheimila Akureyrar að nýta þau tækifæri eða koma og heimsækja okkur. Verið hjartanlega velkomin.

Halldór S. Guðmundsson,framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar,

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan