Tilslakanir á ÖA vegna Covid-19

Undanfarnar vikur hér á ÖA, líkt og annarsstaðar í heiminum, hafa verið mjög ólíkar því sem við eigum að venjast. Starfsemin hefur einkennst af mikilli varnarvinnu þ.e.a.s. verja heimilin gegn útbreiðslu á Covid-19. 
Gríðarleg áhersla hefur verið lögð á sóttvarnir, starfsfólk, íbúar og aðstandendur hafa allir lagst á eitt við að vera samstíga í öllum aðgerðum.
 
 
Heimsóknarbann var sett á þann 7. mars síðastliðinn og öll óviðkomandi umferð um húsið bönnuð. Sú aðgerð reyndist okkur vel þrátt fyrir að vera þvert á það sem við leggjum upp með í okkar daglega starfi. Þrátt fyrir heimsóknarbann kemur að kveðjustund og hluti af íbúunum hefur kvatt okkur síðastliðnar vikur við óvenjulegar aðstæður þar sem takmarka hefur þurft aðgang aðstandenda að dánarbeðinu. Þessum aðstandendum sendum við samúðarkveðjur og þökkum sérstaklega fyrir þeirra umburðarlyndi og skilning við þessar aðstæður. 
 
Þann 4. maí var byrjað að aflétta heimsóknarbanninu. Það verður gert í hægum skrefum og aðlagað aðstæðum á hverjum stað. Áfram verður starfsemin hólfuð niður í sóttvarnarhólf eftir starfsstöðvum, enginn samgangur verður á milli hólfanna og takmarkaður aðgangur í Bitabæ/mötuneyti.
 
4. maí: 
Dregið er úr tilmælum til starfsfólks um að draga úr samneyti við annað fólk, búðarferðum, matarboðum og fleira. Áfram er lögð áhersla á sóttvarnir, þ.e. handþvott, sprittun og 2ja metra fjarlægðarmörk.
Sjúkraþjálfun hefst á ný í tækjasal. Hugað verður að 2ja metra fjarlægðarmörkum, fjöldatakmörkunum og einungis íbúar/ notendur/ starfsfólk frá sama sóttvarnar-hólfi mega vera í þjálfun á sama tíma. Sjúkraþjálfun verður áfram lokuð fyrir einstaklinga utan úr bæ. Hársnyrting og fótaaðgerðarstofa opna fyrir íbúa/ notendur/ starfsfólk. Einstaklingar frá sama sóttvarnarhólfi mega vera í hársnyrtingu og fótaaðgerð á sama tíma. Einstaklingar utan úr bæ mega ekki nýta sér þjónustuna á sama tíma. 
 
5. maí: 
Flutningur dagþjálfunar Lerkihlíðar til baka í Lerkihlíð og notendum fjölgar.
 
11. maí: 
Covid einingu á ÖA verður lokað.
 
13. maí: 
Byrjað verður að innrita notendur í tímabundna dvöl í Birkihlíð.
Starfsfólk á ÖA hættir að vinna í teymum en vinnur áfram í sóttvarnarhólfum. Notkun starfsmannafatnaðar verður hætt. 
Starfsemi þvottahúss verður með eðlilegum hætti, hætt verður að vinna um helgar og á rauðum dögum.
 
Ofangreind áætlun var gerð 28. apríl og er í stöðugri endurskoðun. Haldið er áfram vinnu við enn frekari tilslakanir. Mögulega þarf að herða sóttvarnaraðgerðir og breyta skipulagi með stuttum fyrirvara. En áfram höldum við og vinnum af fagmennsku með bjartsýni að leiðarljósi.