ÖA hljóta viðurkenningu sem öndvegisheimili Eden

Rannveig Guðnadóttir verkefnastjóri Eden á Íslandi og Halldór Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri …
Rannveig Guðnadóttir verkefnastjóri Eden á Íslandi og Halldór Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar.

Öldrunarheimili Akureyrar hlutu í dag fjórðu alþjóðlegu viðurkenninguna frá Eden samtökunum. Þar með hafa þau náð þeim áfanga að teljast „öndvegisheimili Eden" með því að tileinka sér stefnu og áherslur hugmyndafræðinnar.

ÖA hafa frá 2006 unnið markvisst að þessari hugmyndafræði, sem gengur í stuttu máli út á að breyta viðhorfum og menningu í tengslum við umönnun aldraðra. Markmiðið er að hverfa frá stofnanavæddri menningu og taka þess í stað upp hlýlegar, mannúðlegar, eflandi og hvetjandi aðferðir sem eru til þess fallnar að auka sjálfstæði og lífsgæði fólks.
Ferðalagið hjá ÖA hófst með fræðslu til starfsfólks, aukinni áherslu á persónumiðaða hjúkrun og endurbótum á húsnæði með því að afnema fjölbýlisherbergi og stuðla frekar að heimilislegu umhverfi.

Öldrunarheimilin fengu árið 2013 fyrstu alþjóðlegu viðurkenninguna sem fullgilt Eden heimili á Íslandi, en slík viðurkenning er í raun viðmið um þróun og gæði í starfinu. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Önnur viðurkenning bættist við 2016 og sú þriðja 2018 en þá hafði verið sýnt fram á raunverulegar breytingar með þátttöku íbúa þar sem allir hjálpast að við að innleiða einstaklingsmiðaða umönnun.

Fjórða alþjóðlega viðurkenningin gefur til kynna varanlegar breytingar þar sem áherslan hefur verið á tengsl, valdeflingu, teymisvinnu og sterkari rödd íbúa. Með þessum áfanga er staðfest að heimilin hafa þróast og er nýsköpun hluti af reglulegri starfsemi. Fyrirkomulagið er talið sjálfbært og stöðugar framfarir hvetja heimilin til að ná enn lengra í áframhaldandi þróun.

Með fjórðu viðurkenningunni hafa ÖA náð áfanga öndvegisheimila innan Eden. Í því felst að aðrir geta leitað til heimilanna til að fylgjast með, fá þjálfun, fræðslu og leiðsögn. Eden samtökin kynna þau heimili opinberlega og hvetja aðra til að heimsækja þau. Öndvegisheimili eru frumkvöðlar og koma að þróun Eden hugmyndafræðinnar. Í stuttu máli: Öldrunarheimili Akureyrar eru til fyrirmyndar.

Viðurkenningin var veitt í dag í samkomusal Hlíðar að Austurbyggð. Athöfnin var hófstillt og fremur fámenn vegna Covid-19 en henni var þess í stað streymt inn á heimilin og síðan var boðið upp á Eden köku með kaffinu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan