Góð reynsla af sveigjanlegri dagþjálfun

Hlíð
Hlíð

Nýsköpunar- og þróunarverkefni um sveigjanlega dagþjálfun hjá Öldrunarheimilum Akureyrar hefur reynst mikilvægur hlekkur í viðbrögðum við hækkandi hlutfalli aldraðra og breytilegum þörfum þeirra. Niðurstaða áfangamats að loknu fyrsta starfsári er að sveigjanleg dagþjálfun hafi aukið fjölbreytni í þjónustu við eldra fólk á Akureyri.

Verkefninu var hrint í framkvæmd í febrúar 2019, en samningur var undirritaður milli Sjúkratrygginga Íslands og ÖA í júní 2019.

Meðal helstu markmiða er að koma betur til móts við eldra fólk sem býr heima og þarf stuðning til að búa áfram heima, koma í veg fyrir ótímabæra stofnanadvöl, þróa sérhæfðari og einstaklingsmiðaðari dagþjálfun með áherslu á sveigjanleika, auka stuðning við aðstandendur og bæta nýtingu fjármuna.

Dagþjálfun í boði alla daga ársins
Tíu hjúkrunarrýmum, sem áður voru notuð fyrir hvíldarinnlagnir, var breytt dagþjálfunarrými. Auk þess var lögð mikil áhersla á að innleiða og þróa nýjar aðferðir, einkum á sviði velferðartækni.

Opnunartími í dagþjálfun er frá morgni til kvölds, alla daga ársins, og var opnunardögum þar með fjölgað úr 250 dögum í 365 daga. Möguleiki er á næturgistingu – þ.e. sólarhringsdvöl í stuttan tíma þegar þörf krefur vegna sérstakra aðstæðna. Almenn rými og endurhæfingarrými í dagþjálfun eru ætluð tímabundið í 3-4 mánuði í senn og þörf notenda endurmetin reglulega. Sértæk rými fyrir einstaklinga með greinda heilabilunarsjúkdóma eru ótímabundin

Notendur og aðstandendur upplifa mikla breytingu
Áfangamat nýsköpunar- og þróunarverkefnisins eftir fyrsta starfsárið liggur nú fyrir. Hér er hægt að skoða áfangaskýrsluna.
Árið 2019 nýttu 66 sér sveigjanlega dagþjálfun. Af þeim voru 29 skráð í almennt rými, 25 í sértæk rými og 12 í endurhæfingarrými. Af þeim eru fimm látin, 15 flutt í hjúkrunarrými og fjögur eru útskrifuð.

Helstu niðurstöður eru þær að miklu hefur verið áorkað á skömmum tíma. Almennt eru notendur ánægðir með úrræðið og er meginþemað aukin vellíðan, líkamlega og andlega. Aðstandendur upplifa líka marktækar breytingar í atgervi og líðan notenda og um leið er létt af umönnunarhlutverki á meðan viðkomandi er í dagþjálfun.

Mikill samfélagslegur ávinningur
Vísbending er um að sveigjanleg dagþjálfun hafi þegar haft áhrif á þróun biðlista í dagþjálfun og önnur úrræði og hefur eftirspurn eftir tímabundinni dvöl (hvíldarinnlögn) minnkað. Þrátt fyrir fækkun hjúkrunarrýma í tímabundinni dvöl hafa fleiri einstaklingar fengið þjónustu, en núna í formi stuðnings og virkrar þjálfunar.

Út frá ákveðnum forsendum áfangamatsins og útreikningum má færa rök fyrir því að samfélagslegur ávinningur verkefnisins sé í kringum 50 milljónir króna á árinu 2019.

Nokkur lykilatriði:
      > 2019 voru 14% Íslendinga 65 ára og eldri
      > 2050 er því spáð að hlutfallið verði 25%
      > Þróunin hefur áhrif á heilbrigðiskerfi og samfélag
      > Fólk hefur í mörgum tilvikum þurft að bíða lengi eftir þjónustu - kallar á flóknari og dýrari úrræði en ella
      > Mikilvægt að styðja fólk til virkni, sjálfstæðrar búsetu og veita þjónustu við hæfi.