Aðstandandaskóli fyrir maka og fullorðin börn einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma Haust 2019 / Vor 2020

Þegar maki eða foreldri greinist með heilabilunarsjúkdóm, breytist margt. Það fellur oft í hlut aðstandenda að sinna umönnunarhlutverki og það getur verið erfitt að átta sig á aðstæðum og ganga í gegnum þessar breytingar án stuðnings. Aðstandendahlutverkið er krefjandi og getur haft áhrif bæði á heilsu og atvinnu.

 

Í alþjóðlegri skýrslu (World Alzheimer Report) kemur fram að árið 2018 hafi fjöldi fólks með heilabilun á heimsvísu verið um 50 milljónir og að sú tala muni verða komin í 152 milljón manns árið 2050.

Það er því óhætt að fullyrða að margar fjölskyldur tengjast á einhvern hátt einstaklingum og fjölskyldum sem eru að glíma við þennan sjúkdóm, fer sá hópur ört vaxandi að öllu óbreyttu.

Síðastliðinn vetur var boðið upp á aðstandendaskóla að danskri fyrirmynd, einskonar námskeið fyrir maka og fullorðin börn þessa markhóps. Á námskeiðinu var boðið upp á viðeigandi fræðslu og stuðning, umræður og aðstandendum gafst tækifæri á að hitta aðra sem eru í svipuðum aðstæðum.

 

Ummæli þátttakanda:
„...frábært framtak og heldur vonandi áfram. ... Ég finn að vinafólk og aðstandendur sem ekki standa pabba næst eru feimnir að koma og hitta hann. Nú er ég farinn að hvetja fólk óhikað að koma og tala við hann, segi þeim að hann sé sami maðurinn og hann var en bara alltaf minna og minna af honum. Það má virkilega hvetja nánustu aðstandendur strax í upphafi til að tala opinskátt um heilabilunina við vini, kunningja og ættingja".

Þann 16. október byrjar skólinn á ný sjá nánar í meðfylgjandi auglýsingu.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan