Skólasókn er mikilvæg
Hver skóladagur er mikilvægur fyrir barnið og námslega stöðu þess. Að missa úr skóla, ítrekaðar seinkomur eða að mæta óreglulega í skólann getur ýtt undir óöryggi hjá barninu þínu og búið til vítahring sem erfitt er að rjúfa.
Samfelld og stöðug viðvera í félagslegu umhverfi getur hjálpað barninu að mynda tengsl við aðra og upplifa öryggi í skólaumhverfinu. Þegar barn er fjarverandi getur það dregist aftur úr námi sem erfitt er að vinna upp. Eins missir það af tækifærum til að skapa minningar með skólafélögunum og upplifa sig sem hluta af heild.
Kennurum ber skylda til að fylgjast með skólasókn nemenda sinna og upplýsa foreldra reglulega.
Samvinna heimilis og skóla gegnir veigamiklu hlutverki. Það er mikilvægt að foreldrar hafi strax samband við skólann ef barn þeirra sýnir merki um að vilja ekki sækja skóla í stað þess að tilkynna barnið veikt.
