Félag eldri borgara

Félag eldri borgara á Akureyri (ebak) var stofnað  3. október 1982. Það er eitt af aðildarfélögum Landssambands eldri borgara. Í stjórn félagsins sitja 7 aðalmenn og 3 varamenn. Fastanefndir félagsins eru 7. Aðalfundur er haldinn í lok mars.

Skrifstofa félagsins er í Bugðusíðu 1 og í félagsmiðstöðinni þar fer fram fjölbreytt félags- og tómstundastarf á vegum félagsins og bæjarins.

Akureyrarbær rekur tvær þjónustu- og félagsmiðstöðvar fyrir fólk frá 60 ára aldri þ.e. í Bugðusíðu 1 og í Víðilundi 22. Starfsemin er í sífelldri þróun og hefur það markmið að skapa fjölbreytni og mæta þörfum þeirra sem þangað sækja.

Meginmarkmið með starfi félagsins er að bjóða félagsmönnum uppá fjölbreytta tómstundaiðju og afþreyingu af ýmsu tagi s.s. fræðslufundi, námskeið, ýmsar kynningar, skemmtikvöld (kráarkvöld), bingó, pútt (golf), félagsvist, brids og fleira.

Yfir sumarið hefur félagið staðið fyrir gönguferðum m.a. í Kjarnaskógi. Þá býðst félagsmönnum kostur á að fara í styttri og lengri hópferðir innanlands og utan. Undanfarin ár hafa félagsmenn farið erlendis í ákveðnar ferðir í beinu flugi frá Akureyri.

Jólahlaðborð, árshátíð og vorhátíð eru fastir liðir. Félagið hefur í samstarfi við aðra aðila staðið fyrir ráðstefnuhaldi fyrir eldri borgara á Akureyri og nágrenni.

Kór eldri borgara – Í fínu formi – heldur tónleika innan héraðs og fer í tónleikaferðir bæði innan lands og utan.

Nýtt samkomulag milli Akureyrarbæjar og Félags eldri borgara var undirritað 31. maí 2016. Þessi samningur leggur grunn að öflugri starfsemi félagsins í þágu 60 ára og  eldri. Í samkomulaginu felst að félagið mun áfram hafa afnot af félagsmiðstöðinni í Bugðusíðu 1 sér að kostnaðarlausu og þar verður einnig starfsmaður á vegum Akureyrarbæjar. Einnig er kveðið á um fjárstyrk til félagsins.

Félagið mun koma að skipulagi félagsstarfs með Akureyrarbæ. Markmið samkomulagsins er að félagið og þeir sem þjónustunnar njóta komi í auknum mæli að skipulagi, umsjón og frumkvæði í starfinu. Í þeim tilgangi tilnefnir félagið tvo fulltrúa í notendaráð félagsstarfsins.

Öldungaráð Akureyrarbæjar var stofnað  9. júlí 2015 að ósk Félags eldri borgara á Akureyri. Félagið á þrjá fulltrúa í ráðinu en bærinn tvo. Samkvæmt 2. gr. samþykkta ráðsins skal það vera bæjarstjórn, nefndum og ráðum Akureyrarkaupstaðar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni bæjarbúa sem eru 60 ára og eldri.

Félag eldri borgara á Akureyri mun áfram stuðla að eflingu og þróun á starfi félagsins í samvinnu við félagsmenn og starfsmenn Akureyrarbæjar.

Allir 60 ára og eldri eru velkomnir í félagið.

  • Heimilisfang: Bugðusíðu 1
  • Heimasíða: ebak.is
  • Netfangebak@ebak.is
  • Sími: 462 3595
  • Formaður: Haukur Halldórsson, sími: 462-4502 / 663-9363.
Síðast uppfært 13. mars 2019