Félag eldri borgara

Félag eldri borgara á Akureyri (ebak) var stofnað  3. október 1982. Það er eitt af aðildarfélögum Landssambands eldri borgara. Í stjórn félagsins sitja 7 aðalmenn og 3 varamenn. Fastanefndir félagsins eru 9. Aðalfundur er haldinn í lok mars.

Meginmarkmið með starfi Félags eldri borgara á Akureyri er að bjóða félagsmönnum uppá ýmsa tómstundaiðju og afþreyingu. Má þar nefna fræðslufundi, námskeið, ýmsar kynningar, skemmtikvöld (kráarkvöld), bingó, félagsvist, bridds og margt fleira.

Yfir sumarið hefur félagið staðið fyrir gönguferðum m.a. í Kjarnaskógi. Þá býðst félagsmönnum kostur á að fara í styttri og lengri hópferðir innanlands og utan. Undanfarin ár hafa félagsmenn farið erlendis í ákveðnar ferðir í beinu flugi frá Akureyri.

Jólahlaðborð, árshátíð og vorhátíð eru fastir liðir. Félagið hefur staðið fyrir ráðstefnuhaldi fyrir eldri borgara á Akureyri, meðal annars í samstarfi við Háskólann á Akureyri.

Kór eldri borgara – Í fínu formi – heldur tónleika innan héraðs og fer í tónleikaferðir bæði innan lands og utan.

Nýtt samkomulag milli Akureyrarbæjar og Félags eldri borgara á Akureyri var undirritað 21. desember 2017. Samkvæmt því hefur félagið umsjón með starfsemi félagsmiðstöðvar fyrir 60 ára og eldri í Bugðusíðu 1 og hefur til þess afnot af hluta húsnæðis bæjarins á jarðhæðinni þar sér að kostnaðarlausu. Þar er jafnframt skrifstofa félagsins. Bærinn endurgreiðir félaginu ígildi launa eins starfsmanns og leggur þannig grunn að öflugri starfsemi EBAK í þágu 60 ára og eldri.

Akureyrarbær rekur þjónustu- og félagsmiðstöð fyrir fólk frá 60 ára aldri í Víðilundi 22. Jafnframt leggur hann til leiðbeinendur á einstök námskeið í Bugðusíðu 1. Félagsmiðstöðvarnar báðar heyra undir samfélagssvið bæjarins.

Félagið og bærinn vinna saman að sífelldri þróun starfsins í félagsmiðstöðvunum til að skapa fjölbreytni og mæta þörfum þeirra sem þangað sækja. Markmið ofangreinds samkomulags er að félagið og þeir sem þjónustunnar njóta komi í auknum mæli að skipulagi og frumkvæði í starfinu. Í þeim tilgangi tilnefnir félagið tvo fulltrúa í notendaráð félagsmiðstöðvanna.

Öldrunarráð Akureyrarbæjar var upphaflega stofnað 9. júlí 2015 að ósk Félags eldri borgara. Félagið á þrjá fulltrúa í ráðinu, Akureyrarbær þrjá og Heilbrigðisstofnun Norðurlands einn. Ráðið fer með verkefni skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og ákvæði í lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999. Það skal vera ráðgefandi fyrir bæjarstjórn, nefndir og ráð um þau mál er varða hag eldri borgara í bæjarfélaginu.

Félag eldri borgara á Akureyri mun áfram stuðla að eflingu og þróun á starfi félagsins í samvinnu við félagsmenn og starfsmenn Akureyrarbæjar

Allir 60 ára og eldri eru velkomnir í félagið.

  • Heimilisfang: Bugðusíðu 1
  • Heimasíða: ebak.is
  • Netfangebak@ebak.is
  • Sími: 462 3595
  • Formaður: Haukur Halldórsson, sími: 462-4502 / 663-9363.
Síðast uppfært 15. október 2019