Almennt um flokkun og endurvinnslu úrgangs

almennt sorp

Allur úrgangur hefur í raun einhver neikvæð umhverfisáhrif. Við getum hins vegar dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum úrgangs með ýmsum hætti. Við getum minnkað neyslu á hlutum sem á endanum endar sem úrgangur. Við getum sleppt því að kaupa einnota hluti og nýtt betur þá hluti sem við kaupum. Einnig getum við passað upp á að hlutirnir sem við kaupum og getum ekki nýtt lengur komist í endurvinnslu.  

Nánast allur úrgangur sem flokkaður er á Íslandi er sendur úr landi þar sem hann er endurunninn. Flutningur á vöru út fyrir landsteina er ekki umhverfisvæn leið en þó sú skásta sem er í boði. Ljóst er að flokkun er engin endastöð. Til að ná raunverulega umhverfisávinningi þurfum við að minnka úrganginn sem fer í endurvinnslu og það gerum við með því að minnka neyslu. Allt sem fer óflokkað í ruslatunnuna endar á einn eða annan hátt úti í náttúrunni. Til að koma í veg fyrir að hráefni verði að mengunarþætti er flokkun og endurvinnsla lykilatriði. Flokkun til endurvinnslu stuðlar að aukinni hringrás hráefna og minni auðlindanotkun. Sem dæmi má nefna að fyrir hvert tonn af pappír sem fer í endurvinnslu sparast um 17 fullvaxin tré. Að auki má nefna að miklu minni orka fer í að endurvinna hráefni en við frumvinnslu þess t.d. þarfnast endurvinnsla áls einungis 5% þeirrar orku sem þarf við frumvinnslu áls. 

Flokkun og endurvinnsla á Akureyri

Akureyrarbær veitir mikla og góða þjónustu þegar kemur að flokkun og endurvinnslu. Alls eru 11 grenndarstöðvar á Akureyri þar sem mjög auðvelt er að koma endurvinnanlegu efni. Einnig er hægt að leigja endurvinnslutunnu af rekstraraðilum en í hana mega fara allir helstu úrgangsflokkar. Ef mikill úrgangur fellur til á heimili og jafnvel úrgangur sem ekki er hægt að flokka í grenndargáma þarf að fara með úrganginn upp á Gámasvæðið á Rangárvöllum og koma fyrir í viðeigandi gáma.
Nánari upplýsingar um gámasvæðið og grenndarstöðvar
Nánari upplýsingar um grænu tunnuna og matarsóun
Nánari upplýsingar um flokkun ólíkra úrgangsflokka