Spurt og svarað

Hvenær tekur nýtt leiðanet gildi?

Samkvæmt áætlun verkefnisins er gert ráð fyrir að akstur samkvæmt nýju leiðaneti hefjist í júní 2021. 

Hvar sé ég kort af leiðunum?

Fyrstu hugmyndir að nýju leiðaneti má nálgast hér.

Er búið að ákveða endanlegt leiðanet?

Nei. Nú liggja fyrir fyrstu tillögur að nýju leiðaneti sem voru unnar í samstarfi Akureyrarbæjar og sérfræðinga frá verkfræðistofunni EFLU og Strætó bs. á grundvelli samráðs og gagnaöflunar sl. vetur. Óskað er eftir hugmyndum og ábendingum frá íbúum um þessar tillögur, til dæmis varðandi legu leiða og staðsetningu stoppistöðva. Allar athugasemdir verða teknar til skoðunar og í lok nóvember verður hafist handa við að endurskoða leiðanetið. Stefnt er að því að kynna nýtt leiðanet fyrir áramót. 

Hvernig get ég haft áhrif á leiðanetið?

Við mælum með því að fólk skoði tillögurnar á gagnvirku korti sem er aðgengilegt hér. Hægt er koma með hugmynd eða ábendingu með því að ýta á "Bættu við athugasemd" efst í hægra horninu. Til þess að ábendingin nýtist sem best er æskilegt að fólk tilgreini hvaða leið eða bæjarhluta er átt við. Einnig er hægt að stækka svæðið (zoom in) sem um ræðir áður en athugasemd er gerð. Þá fylgir stækkaða myndin athugasemdinni og auðveldar úrvinnsluna. 

Einnig er tekið á móti ábendingum í gegnum nyttleidanet@akureyri.is 

Óskað er eftir því að athugasemdir berist ekki síðar en 18. nóvember. 

Hvað verður um ábendinguna mína?

Öllum hugmyndum og ábendingum verður safnað og þær greindar í samhengi við önnur gögn, til dæmis leiðarljós, markmið, fjárhagslegan ramma og aðrar hugmyndir/ábendingar sem berast. Allar athugasemdir verða teknar til athugunar og metið hvort og þá hvernig megi breyta tillögum að nýju leiðaneti í samræmi við þær.

Hvað þarf maður að bíða lengi eftir næsta strætó?

Stefnt er að 15-20 mínútna tíðni á annatíma á virkum dögum (kl. 6-9 og kl. 14-18) og 30 mínútna tíðni þess á milli. Á kvöldin er horft til 60 mínútna tíðni til kl. 23.

Mun stoppistöðvum fækka? Munu gönguvegalengdir aukast?   

Samkvæmt fyrstu tillögum að nýju leiðaneti er gert ráð fyrir færri leiðum en áður en meiri tíðni, enda hafa skoðanakannanir leitt í ljós að meiri tíðni og styttri ferðatími séu tvö af þeim atriðum sem myndu einna helst hvetja fólk til að nota almenningssamgöngur meira. Þetta getur leitt til fækkunar stoppistöðva í einhverjum tilvikum og lengri gönguvegalengda, en markmiðið er þó að heildarferðatími styttist.  

Af hverju fer strætó ekki út á flugvöll eða inn í Hagahverfi?

Markmiðið með þessum breytingum er að þjóna betur núverandi þjónustusvæði SVA og fjölga þeim sem nota almenningssamgöngur að staðaldri, til dæmis í og úr vinnu eða skóla. Kostnaður við rekstur SVA á að haldast óbreyttur og í þessum fasa er því ekki lagt til að bæta við nýjum þjónustusvæðum. 

Hvaða áhrif hafa breytingar á rekstrarkostnað SVA?

Stefnt er að því að breytingarnar hafi ekki áhrif á rekstrarkostnað SVA, en með fjölgun farþega er markmiðið að nýta fjármuni betur. 

Verður áfram frítt í strætó?

Metnaður hefur verið lagður í að gera almenningssamgöngur á Akureyri aðgengilegar öllum, ekki síst með gjaldfrjálsum strætó. Í þessu verkefni, við endurskoðun á leiðanetinu, hefur ekki verið fjallað sérstaklega um innheimtu gjalda í strætó. Því er ekkert sem bendir til annars en að áfram verði frítt í strætó. 

 

Síðast uppfært 03. desember 2020