Leiðarljós og nýjar áherslur

Núverandi leiðanet er skipulagt sem þekjandi kerfi (e. coverage). Vagnar fara hringleiðir um bæinn og er reynt að ná viðkomu í sem flestum hverfum.  Með slíku fyrirkomulagi dreifist þjónustan yfir stærra landsvæði, ferðatími eykst og tíðni minnkar. Í slíku kerfi er þó yfirleitt stutt í næstu stoppistöð.

Í hugmyndum um nýtt leiðanet er áherslan á þátttökukerfi (e. ridership). Í slíku kerfi er mest tíðni þar sem þéttleiki íbúa, vinnustaða og frístunda er mestur, leiðirnar eru tiltölulega beinar, örari tíðni og ættu fleiri farþegar að geta treyst á að nota strætó daglega. Á móti kemur að farþegar geta þurft að fara lengri vegalengd að næstu biðstöð. Einnig er mögulegt að farþegar gætu í einhverjum tilvikum þurft að skipta um vagn.  

Markmiðið er að stuðla að öflugum farþegagrunni með því að breyta leiðaneti þannig að:

  • Tíðni verði aukin, sérstaklega á annatímum
  • Leiðir verði beinni
  • Meðalferðatími styttist. Farþegar komist lengra á sama tíma m.v. kerfið í dag. 
  • Leiðanetið tengist miðbæ, skólum, frístundastarfsemi og helstu atvinnukjörnum.
  • Ný hverfi geti tengst betur leiðanetinu í framtíðinni

Leiðarljós verkefnisins taka meðal annars mið af gagnasöfnun síðasta vetur. Það er Gallup könnun meðal íbúa og samráði við börn og ungmenni í sveitarfélaginu. Þar komu fram skýrar óskir um tíðari og styttri ferðir, jafnvel þótt það þýði lengri göngu að næstu biðstöð og er það í samræmi við væntingar á höfuðborgarsvæðinu.

Að auki hefur verið kallað eftir því að leiðanetið geti þjónað börnum til að sækja íþróttir- og tómstundastarf og þannig megi draga úr skutli og þörf foreldra fyrir að treysta á einkabílinn.

Samanburður á núverandi leiðaneti og nýju leiðaneti. 

 

Síðast uppfært 30. mars 2021