Fyrstu tillögur


Fyrstu hugmyndir að nýju leiðaneti SVA voru kynntar í október 2020 og hafa síðan tekið breytingum í kjölfar samráðs og endurskoðunar. Sjá nýja útgáfu hér. 

Tillögurnar byggja á leiðarljósum um aukna tíðni, beinni leiðir og styttri ferðatíma. Auk þess er lögð áhersla á að leiðanetið tengist miðbæ, skólum, frístundastarfsemi og helstu atvinnukjörnum. Kostnaður við rekstur SVA á að haldast óbreyttur við þessar breytingar, en markmiðið er að nýta fjármuni betur með því að þjóna betur núverandi þjónustusvæði og höfða til fleiri notenda.

Lagt er til að leiðanetið samanstandi af tveimur megin leiðum auk pöntunarþjónustu:

  • Leið 1 (bláa leiðin) – Unga fólkið, frístundir og tenging milli stóru hverfanna. Leiðin þjónar börnum og ungu fólki sérstaklega sem sækir skóla, íþróttir og tómstundastarfsemi og myndar hraða tengingu milli bæjarhluta.  Leiðin verður þjónustuð af tveimur vögnum á annatíma og einum utan þess.
  • Leið 2 (græna leiðin) – Miðbærinn og vinnustaðirnir. Leiðin tengir hverfin við miðbæinn og helstu atvinnukjarna. Leiðin verður þjónustuð af þremur vögnum á annatíma og tveimur utan þess.
  • Pöntunarþjónusta – Tenging við innbæinn með pöntunarþjónustu. 

Væntur ávinningur – í stuttu máli

  • Aukin tíðni: Stefnt er að 15-20 mínútna tíðni á annatíma á virkum dögum (kl. 6-9 og kl. 14-18) og 30 mínútna tíðni þess á milli. Á kvöldin er horft til 60 mínútna tíðni til kl. 23.
  • Einfaldara leiðanet: Tvær leiðir leysa af hólmi sex leiðir – auðvelt að læra og næsti vagn aldrei langt undan.
  • Tenging milli skóla og tómstunda: Mun betri og hraðari tenging en áður milli grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og íþrótta- og tómstundastarfs. Minna skutl.
  • Styttri ferðatími í heild: Minni bið eftir strætó og beinni leiðir. Leiðanetið á að virka sem „net” þannig að auðvelt verði hægt að skipta úr einni leið í aðra þar sem leiðirnar mætast.

Nánari upplýsingar:

Leið 1 - bláa leiðin 

Liggur frá Skautahöll að Boganum, um Miðhúsabraut inn á Þórunnarstræti, vestur Þingvallastræti, norður Hlíðarbraut, inn Smárahlíð og um Skarðshlíð að Boganum. Í stað þess að snúa við í Boganum heldur leiðin áfram eftir Skarðshlíð, Höfðahlíð og tengist svo aftur inn á Borgarbraut til að aka til baka eftir Hlíðarbraut.

Megin tilgangur þessarar leiðar er að tengja saman skóla og frístundir barna um leið og stórir bæjarhlutar eru tengdir með einföldum og skjótum hætti. Leiðin er í þægilegu göngufæri við flesta grunnskóla og leikskóla bæjarins, framhaldsskólana, Háskólann á Akureyri og stærstu íþróttasvæðin. Auk þess eru á leiðinni stórir vinnustaðir, stofnanir og þjónustumiðstöðvar eins og Sjúkrahúsið á Akureyri, Kaupangur, Hrísalundur, Sunnuhlíð og Bjarg. 

Leiðin verður þjónustuð af tveimur vögnum á annatíma en einum vagni þess utan.

Leið 2 - græna leiðin

Nær frá Naustagötu milli Hagahverfis og Naustahverfis niður á Eyri, upp að Holtahverfi og þaðan vestur í Síðuhverfi. Leiðin endar svo og snýr við á hringtorgi við Hörgárbraut.

Með þessari leið er markmiðið að tengja hverfin við miðbæinn, Glerártorg og við stóra vinnustaði á Eyrinni. Leiðirnar mætast í Þingvallastræti og á Borgarbraut, og bjóða þannig upp á þann sveigjanleika að geta nýtt sér báðar leiðir til að komast víðar.

Þessi leið er mun lengri en sú bláa og krefst þess að hún sé þjónustuð af þremur vögnum til að halda uppi 15-20 mínútna tíðni á annatíma en tveimur vögnum þess utan.

Með þessari leið er markmiðið að gera sem flestum íbúum kleift að ferðast til og frá vinnu, skóla eða frístundum á sem hraðastan máta.

Pöntunarþjónusta við innbæinn

Lagt er til að innbær Akureyrar verði tengdur með pöntunarþjónustu til að tryggja almenningssamgöngur þangað með hagkvæmum hætti og er þá horft til sambærilegrar útfærslu og Strætó bs. hefur gert fyrir Urriðaholt í Garðabæ.

Tilgangurinn er að veita þjónustu við innbæinn og tengja hann annars vegar við bláu leiðina hjá Skautahöllinni og hins vegar við miðbæ Akureyrar og grænu leiðina. Lagt er til að á annatíma (morgna og síðdegis) myndi bifreið frá Ferliþjónustu aka tvisvar með klukkutíma millibili eftir ákveðinni leið skv. tímaáætlun, í gegnum innbæinn að Skautahöllinni og svo Drottningarbraut til baka að miðbænum. Þess utan gætu íbúar í innbænum átt þann kost að hringja á pöntunarþjónustu klukkutíma áður en þjónustunnar er þörf og myndi bifreið frá Ferliþjónustunni eða leigubílar sækja viðkomandi farþega.

Í seinni hluta vinnunnar verður skoðuð nánar útfærsla á þessari þjónustu. 

Framtíðarsýn

Endurskoðunin nú er bundin við núverandi stærð og umfang leiðanetsins. Á þessu stigi málsins stendur ekki til að verja auknum fjármunum til reksturs Strætisvagna Akureyrar eða þjónusta ný svæði. 

Þrátt fyrir það er ljóst að með tilkomu Hagahverfis þar sem áætlað er að eftir 2 ár eigi um og yfir 2.000 manns eftir að búa, þéttingu byggðar í Holtahverfi og með uppbyggingu verslunar og iðnaðarhverfis nyrst í bænum er ljóst að það verður þörf fyrir meiri þjónustu á allra næstu árum.

Þess vegna fylgja tillögur að því hvernig megi stækka leiðanetið til framtíðar. Annars vegar með því að bæta við einum vagni á grænu leiðina og framlengja hana í kringum Hagahverfi og hins vegar með því að bæta við nýrri leið 3 (rauðu leiðinni) sem myndar heildræna tengingu fyrir allan bæinn og leysir af hólmi pöntunarþjónustu í innbænum. 

Síðast uppfært 26. mars 2021