Nýtt leiðanet SVA

Unnið hefur verið að því að endurskipuleggja leiðanet Strætisvagna Akureyrar með það fyrir augum að bæta þjónustuna og fjölga farþegum. Stefnt er að því að hefja akstur samkvæmt nýju kerfi sumarið 2021. 

Sjá líka:

Nýtt leiðanet 

Nýtt leiðanet, sem er kynnt í mars 2021 að loknu samráði og endurskoðun, byggir á leiðarljósum um aukna tíðni, beinni leiðir og styttri ferðatíma. Auk þess er lögð áhersla á að leiðanetið tengist miðbæ, skólum, frístundastarfsemi og helstu atvinnukjörnum. Í lokaskýrslu verkefnisins er ítarleg umfjöllun um leiðanetið.

Leiðanetið samanstendur af tveimur megin leiðum:

 • Leið 1 (bláa leiðin)
  -  Frá Boganum að Skautahöll. Tenging við skóla og frístundir og myndar um leið hraða tengingu milli stóru hverfanna.
  -  Frá Skautahöll að Undirhlíð. Á annatíma á virkum dögum og á kvöldin heldur leiðin áfram og tengir Innbæinn, miðbæ, Glerártorg og Undirhlíð. Utan annatíma verður pöntunarþjónusta frá Skautahöllinni að Hofi.
 •  Leið 2 (græna leiðin) – Þessi leið þjónar m.a. þeim tilgangi að tengja hverfin við miðbæinn, vinnustaði á eyrinni og Glerártorg.

Samhliða nýju leiðaneti verður innleiddur sérstakur frístundaakstur fyrir yngstu grunnskólabörnin (1.-4. bekk). 

 Þjónustustig

 • Á annatíma á virkum dögum verður 20 mín tíðni á báðum leiðum.
 • Utan annatíma á virkum dögum:
  - 40 mín tíðni á leið 1 frá Boganum að Skautahöllinni
  - 30 mín tíðni á leið 2
  - Pöntunarþjónusta frá Skautahöllinni að Hofi
 • Á kvöldin: 60 mín tíðni á báðum leiðum
 • Um helgar: 60 mín tíðni á leið 2.  

Væntur ávinningur – í stuttu máli

Aukin tíðni. Nýtt leiðanet mun hafa 20 mín tíðni á annatíma og 30-40 mín tíðni utan annatíma á daginn. Með þessu eykst þjónustustig umtalsvert miðað við núverandi leiðanet sem hefur 60 mín tíðni á öllum leiðum yfir daginn.

Betri þjónusta á kvöldin. Á kvöldin verða báðar leiðirnar með 60 mín tíðni. Í dag er aðeins ein leið í akstri á kvöldin sem ekur aðeins í aðra áttina um bæinn. Því er um talsvert betri þjónustu að ræða á kvöldin.

Einfaldara leiðanet. Tvær leiðir leysa af hólmi sex leiðir – auðveldara að muna og næsti vagn aldrei langt undan.

Tenging skóla og tómstunda. Leið 1 (bláa leiðin) tengir saman alla grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og íþróttastarfsemi. Auðveldara verður því fyrir iðkendur íþrótta að komast beint úr skóla og á æfingar. Minna skutl.

Styttri ferðatími. Minni bið og beinni leiðir. Leiðanetið virkar sem "net", auðvelt að skipta úr einni leið í aðra þar sem þær mætast.

Betri tenging við Hagahverfi. Nýtt leiðanet þjónar fyrst og fremst núverandi þjónustusvæði SVA. Aftur á móti var ákveðið að koma til móts við fjölmargar athugasemdir í samráðsferli og tengja það betur Hagahverfi.

Leiðanetið getur vaxið til framtíðar. Með frekari uppbyggingu á Akureyri er auðveldara en áður að stækka leiðanetið. Einfaldara er að lengja leiðir en að stækka hringleiðir. 

Nánar um leið 1 

Þessi leið verður þjónustuð af þremur vögnum á annatíma til að viðhalda 20 mín tíðni, en einum vagni utan þess til að viðhalda 40 mín tíðni á daginn og 60 mín tíðni á kvöldin. 

Á annatíma og á kvöldin liggur leið 1 frá Undirhlíð eftir þjóðveginum að Innbænum þar sem hún fer um Aðalstræti að Skautahöll. Frá Skautahöllinni heldur hún áfram og liggur um Miðhúsabraut inn á Þórunnarstræti, vestur Þingvallastræti, norður Hlíðarbraut, inn Smárahlíð og um Skarðshlíð að Boganum. Í stað þess að snúa við í Boganum heldur leiðin áfram hringleið eftir Skarðshlíð og Höfðahlíð til að tengjast Glerárskóla, og tengist svo aftur inn á Hlíðarbraut við Smárahlíð þar sem leiðin ekur sömu leið til baka að Skautahöll.

Akstur frá Undirhlíð að Skautahöllinni verður á annatíma og á kvöldin. Tilgangurinn er að veita þjónustu við Innbæinn og í senn veita skjóta tengingu milli Skautahallarinnar, miðbæjarins, Oddeyrarskóla, Glerártorgs og Undirhlíðar. Horft er til þess að leið 1 geti lengst í norðurátt í framtíðinni.

Akstur frá Skautahöll að Boganum verður allan daginn og er megin tilgangur þessarar leiðar að tengja saman skóla og frístundir barna um leið og stórir bæjarhlutar eru tengdir með einföldum og skjótum hætti.

Leið 1 er í þægilegu göngufæri við alla grunnskóla og leikskólana Naustatjörn, Hólmasól, Lundarsel, Pálmholt, Tröllaborgir og Klappir. Við leiðina eru einnig Háskólinn á Akureyri, Menntaskólinn og Verkmenntaskólinn. Þessa skóla og hverfi tengir leiðin við stærstu íþróttasvæðin þ.e. Skautahöllina, Sundlaugina, KA-svæðið, Íþróttahúsið við Giljaskóla, Bogann og Þórs-svæðið. Að auki eru á leiðinni stórir vinnustaðir, stofnanir og þjónustumiðstöðvar. Þetta eru staðir eins og Sjúkrahúsið á Akureyri, Kaupangur, Hrísalundur, Sunnuhlíð, líkamsræktar- og endurhæfingarstöðin Bjarg og tjaldstæðið við Þórunnarstræti. Enn fremur er góð tenging við Minjasafnið, Iðnaðarsafnið og Mótorhjólasafnið þegar leiðin fer þar um á annatíma og kvöldin, en utan annatíma er samt sem áður einungis innan við 300m gangur frá Skautahöllinni.

Pöntunarþjónusta utan annatíma yfir daginn í Innbænum. Þar sem leið 1 styttist yfir daginn, þá verður pöntunarþjónusta til að viðhalda tengingu frá Innbænum í Skautahöllina (til að tengjast leið 1) og í miðbæinn (til að tengjast leið 2). Með því að nota pöntunarþjónustu utan annatíma er verið að tryggja almenningssamgöngur við Innbæinn yfir daginn með hagkvæmum hætti þegar lítil eftirspurn er til staðar.

Á þessu tímabili utan annatíma (frá u.þ.b. 9.00-14.30) verða ferðir á 60 mín tíðni og þarf að panta ferðir með að hringja í þjónustuver SVA minnst 30 til 60 mínútum fyrir áætlaða brottför skv. tímatöflu. Bifreið frá Ferliþjónustunni eða leigubílastöð sækja viðkomandi farþega á næstu biðstöð skv. tímatöflu.
Pöntunarþjónusta verður útfærð nánar við innleiðingu en horft er til sambærilegrar útfærslu og Strætó bs. hefur gert í Urriðaholti í Garðabæ. 

Nánar um leið 2 

Þessi leið verður þjónustuð af þremur vögnum á annatíma til að viðhalda 20 mín tíðni, tveimur vögnum utan annatíma til að viðhalda 30 mín tíðni á daginn og svo einum vagni á kvöldin til að viðhalda 60 mín tíðni.

Leið 2 nær frá Hagahverfi, niður á Eyri, upp að Holtahverfi og þaðan vestur að Giljahverfi áður en farið er inn í Síðuhverfi þar sem ekin er hringleið réttsælis eftir Vesturbraut, Austursíðu og Bugðusíðu að Borgarbraut þar sem ekið er sömu leið til baka,
Með þessari leið er markmiðið að tengja hverfi Akureyrar við miðbæinn, Glerártorg og við stóra vinnustaði á Eyrinni. Eins eru atvinnusvæði meðfram Austursíðu við grænu leiðina og eins næst ágætis tenging við Óðinsnes.

Þá eru á leiðinni Bjarg, Hof, Kaupangur, Sundlaugin og KA-svæðið svo dæmi séu nefnd.

 

 

 

Frístundaakstur fyrir 1.-4. bekk

Í samráðsferli verkefnisins kom í ljós að þrátt fyrir góðar og bættar tengingar milli skóla og tómstundastarfs þá væri ekki komið nægilega til móts við þarfir yngstu nemenda í grunnskólum sem sækja íþróttir og tómstundir fyrir kl. 16 á daginn. 

Til að mæta þessum þörfum er stefnt að því, samhliða nýju leiðaneti, að hefja frístundaakstur á vegum Akureyrarbæjar að fyrirmynd nokkurra sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í meginatriðum virkar þjónustan þannig að börnum í 1.-4. bekk er ekið úr skólum og á æfingar/tómstundir milli kl. 13 og 16 á virkum dögum.

Er þetta í samræmi við stefnu Akureyrarbæjar um samfellu í skóla- og frístundastarfi og kæmi í staðinn fyrir rútuferðir sem einstök íþróttafélög hafa haldið utan um fyrir iðkendur í einstökum greinum. Markmiðið er að gefa fleiri börnum kost á að nýta sér frístundaakstur og draga úr skutli foreldra á vinnutíma. Fyrstu hugmyndir að frístundaakstri má sjá hér á myndinni. 

 

Hverju breytti samráð við íbúa?

Við mótun leiðanetsins var óskað eftir þátttöku almennings. Alls bárust hátt í 200 ábendingar við fyrstu tillögur, auk athugasemda sem komu fram á rafrænum íbúafundi, í umsögnum og í samtölum við hagsmunaaðila. Allar ábendingar komu til skoðunar og var reynt mæta sem flestum, eftir því sem hægt er innan ramma verkefnisins, en ekki var unnt að verða við öllum óskum af ýmsum ástæðum. 

 

 Nánari umfjöllun um helstu breytingar á leiðanetinu sem komu til skoðunar að loknu samráðsferli:

Ný tenging við Hagahverfi

Margar athugasemdir bárust þess efnis að leiðanetið tengdist ekki betur inn í Hagahverfi en þekkist í dag, en leið 2 endaði á gatnamótum Kjarnagötu og Naustagötu. Við nánari skoðun var leiðanetið endurhannað með þeim hætti að leið 2 var lengd inn í Hagahverfi eftir Kjarnagötu að Wilhelmínugötu.

Með þessari breytingu er líka komin betri tenging við tjaldsvæðið á Hömrum og útivistarsvæðið í Kjarnaskógi en á þessu svæði eru m.a. nokkur fyrirtæki. 

Í framtíðinni mætti kanna hvort hægt sé að útfæra sumaráætlun leiðanetsins með þeim hætti að leið 2 myndi fara nokkrar ferðir á dag að tjaldsvæðinu við Hamra þegar jafnan er meiri eftirspurn til staðar. Það verður þó ekki gert fyrr en reynsla hefur komið á rekstur nýja leiðanetsins.

Akstur í Síðuhverfi

Í fyrstu hugmyndum fór leið 2 eftir Vestursíðu að Hörgárbraut en í samráðinu komu fram fjölmargar ábendingar um að betri tengingu vantaði um Síðuhverfi, m.a. við Síðuskóla, Bjarg, Lindasíðu og atvinnusvæði við Austursíðu. Öldungaráð tók sérstaklega fram að það vantaði betri tengingu frá Lindasíðu til að sækja þjónustu í miðbænum s.s. heilsugæsluna.

Við nánari skoðun á leiðarvali í Síðuhverfi er lagt til að leið 2 aki frekar hringleið réttsælis um Síðuhverfi þ.e. frá Borgarbraut, eftir Vestursíðu, Austursíðu og Bugðusíðu til baka að Borgarbraut (sjá mynd). Með þessari breytingu er náð fram eftirfarandi ávinningi: 100% hlutfall íbúa Síðuhverfis eru innan göngufjarlægðar frá leiðinni (var áður 84%) og einnig eru tengingar bættar við þjónustu- og atvinnusvæði. Helstu ókostir við þessa breytingu er að ekki er hægt að ferðast fram og til baka eftir leið 2 í Síðuhverfi.

Til skoðunar var einnig að láta leið 2 aka fram og til baka eftir Bugðusíðu og Austursíðu að hringtorgi á Hörgárbraut en tímamælingar hafa leitt í ljós að heildarvegalengd leiðar 2 yrði of löng og myndi koma niður á áreiðanleika leiðanetsins.

Akstur eftir Hlíðarbraut 

Samráð leiddi í ljós að íbúum í Síðuhverfi þótti mikill ókostur að ekki væri hægt að fara fram og til baka eftir Hlíðarbraut með leið 1 milli Borgarbrautar og Smárahlíðar. Það hefði m.a. þau áhrif að börn sem nota bláu leiðina í Síðuhverfi geta ekki notað strætó til að fara til baka úr Boganum eða fólk sem væri að sækja þjónustu í Þorpinu eða Sunnuhlíð þyrfti að fara langa hringleið um Skarðshlíð og Höfðahlíð til fara til baka með leið 1 í átt að syðri hluta Akureyrar.

Að auki tók Öldungaráð Akureyrar fram að það væri ókostur fyrir íbúa sem æfa göngu reglulega í Boganum eða verslar í Bónus við Undirhlíð að komast ekki til baka í Síðuhverfi. Við nánari endurskoðun á leið 1 var því lagt til að lengja leiðina lítillega (um rúmar 2 mín) með því að aka stærri hringleið þ.e. aka norður Skarðshlíðina og aftur inn á Hlíðarbraut um Smárahlíð.

Leið 1 framlengd - bætt þjónusta milli Innbæjar og Holtahverfis

Samkvæmt fyrstu hugmyndum að nýju leiðaneti stóð til að halda úti akstri milli Skautahallar og Hofs á annatíma en pöntunarþjónusta væri aðgengileg þess á milli á virkum dögum. Í samráðsferlinu kom fram töluverð gagnrýni á þessi áform, enda töldu margir að í þessu fælist þjónustuskerðing fyrir íbúa í innbænum. Auk þess komu fram áhyggjur af því að pöntunarþjónustan gæti ekki komið til móts við skólahópa sem sækja söfn í Innbænum. Þá var líka komið á framfæri athugasemdum um að tengingu væri ábótavant milli Oddeyrarskóla/Eyrinnar og Innbæjarins þ.e. að pöntunarþjónustan myndi t.d. ekki koma nægilega á móts við iðkendur í Skautahöllinni.

Við nánari skoðun á leiðanetinu í tengslum við framangreindar athugasemdir var lagt til að færast nær framtíðarhugmyndum um nýtt leiðanet og huga strax að því að innleiða akstursleið sem myndi tengja saman Innbæinn og Undirhlíð á annatíma og á kvöldin og er það gert með að framlengja leið 1 frá Skautahöllinni að Undirhlíð. Með þessari útfærslu er hægt að veita þjónustu við Innbæinn og þar með skjóta tengingu milli Skautahallarinnar, Innbæjarins, miðbæjarins, Glerártorgs og Undirhlíðar einmitt þegar flestir eru á ferðinni til og frá skóla og vinnu. Þá yrði tengingin betri frá Eyrinni (Oddeyrarskóla) og Holtahverfi að Skautahöllinni og þannig komið til móts við margar athugasemdir úr samráði.

Líkt og í fyrstu hugmyndum er lagt til að utan annatíma (frá u.þ.b. 9:30-14:00) verði pöntunarþjónusta með 40 mín tíðni, og útfært með sambærilegum hætti og Strætó bs. hefur útfært í Garðabæ, þar sem íbúar geta pantað ferð að minnsta kosti 30 mínútum fyrir áætlaða brottför skv. tímatöflu með því að hringja í þjónustuver. Með þessu fyrirkomulagi er tryggt aðgengi til og frá Innbænum allan daginn, og það gert með hagkvæmum hætti þar sem ferðir eru aðeins farnar ef pöntun/eftirspurn er til staðar en sparnaður næst einnig með að nota minni bifreiðar.

Rétt er þó að taka fram að fyrir stærri skólahópa sem eru að sækja söfn í Innbænum utan annatíma tengir bláa leiðin (leið 1) flesta grunnskóla við Skautahöllina sem er í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá Minjasafninu, Iðnaðarsafninu og Mótorhjólasafninu.

Akstur um Merkigil og Skógarlund 

Í nýju leiðaneti eru lagðar fram breytingar þannig að ekki er lengur ekið í gegnum Lundahverfi um Skógarlund og Giljahverfi um Merkigil. Mikill fjöldi athugasemda barst vegna þessa enda um talsverða breytingu að ræða fyrir þá sem búa næst þessum götum. Í sumum tilvikum aukast göngufjarlægðir talsvert. Í endurskoðun á tillögum að nýju leiðaneti var leitað leiða til að koma á móts við þessar athugasemdir, en ekki fannst nógu góð lausn og því standa breytingarnar. 

• Lenging leiðar um Giljahverfi: Bæði leið 1 og 2 aka meðfram Giljahverfi og er stærsti hluti hverfisins innan við 300 m göngufjarlægð frá annarri hvorri leiðinni. Hafa ber í huga að leið 1 gegnir því hlutverki að tengja saman skóla og frístundir, en hún tengir Skautahöllina og Bogann í sitthvorn endann. Um talsverða vegalengd er að ræða á milli þessara áfangastaða og lítið svigrúm er til að lengja leiðina án þess að fara þyrfti úr 20 mín tíðni í 30 mín tíðni á annatíma sem væri talsverð þjónustuskerðing fyrir leiðanetið í heild.

Skoðað var hvort hægt væri að breyta leið 1 eða leið 2 þannig að önnur leiðin færi inn í Giljahverfi. Við nánari skoðun kom í ljós að um of langan krók yrði að ræða fyrir leið 2 að aka frá Borgarbraut og um Merkigil. Við nánari skoðun á leið 1 var athugað hvort hægt væri lengja leiðina inn um Kiðagil þar sem um tiltölulega stutta lengingu væri að ræða. Aftur á móti kom í ljós að aðstæður þar henta ekki fyrir akstur strætisvagna - akstur um götuna getur verið erfiður og talsverðar umferðartafir geta myndast í götunni á morgnana, sérstaklega út á Borgarbraut, sem myndi koma niður á áreiðanleika leiðarinnar. Því var ákveðið að halda leiðum 1 og 2 óbreyttum.

• Lenging leiðar um Skógarlund: Við endurskoðun kom fljótlega í ljós að um of langan útúrdúr yrði að ræða að breyta annað hvort leið 1 eða leið 2 svo önnur leiðin myndi aka um Skógarlund, og skipulag Lundahverfisins er með þeim hætti að engar aðrar götur koma til greina. Því var ákveðið að halda leiðum 1 og 2 óbreyttum miðað við fyrstu tillögur.

Tenging við flugvöllinn

Í mörgum athugasemdum var óskað eftir því að leiðanetið myndi tengjast Akureyrarflugvelli. Til dæmis var bent á að lengja leið 1 svo hún næði að flugvellinum. Í dag eru engar tengingar með almenningssamgöngum við Akureyrarflugvöll og hefur áður verið kallað eftir slíkri tengingu.

Þar sem markmiðið með nýju leiðaneti er að reyna stækka farþegagrunn SVA þá var frá upphafi horft til þess að bæta þjónustu innan núverandi þjónustusvæðis, þar sem flestir búa og starfa. Leiðarljós verkefnisins eru öll liður í því að hvetja íbúa til að nota strætó reglulega og var það mat verkefna- og stýrihóps á fyrri stigum vinnunnar að tenging við flugvöllinn væri ekki hluti að þeirri vegferð.

Þess utan eru nokkrar ástæður fyrir því að tenging við flugvöllinn er ekki einfalt verkefni fyrir SVA. Helsta ástæðan er sú að aðeins örfáir brottfarar- og komutímar eru á hverjum degi á flugvellinum og utan þess tíma er lítil eftirspurn að ferðast til flugvallarins sem styður ekki við reglulegan akstur SVA þangað yfir daginn og erfitt er að hanna leiðanetið þannig að stakar ferðir fari þangað, sérstaklega á annatíma árdegis og síðdegis.

Gönguvegalengdir, umferðaröryggi og aðrar úrbætur 

Eitt af áhersluatriðum verkefnisins var að gera akstursleiðir beinni, sem er liður í að stytta ferðatíma og auka tíðni. Sú áherslubreyting þýddi óhjákvæmilega að gönguvegalengdir myndu lengjast fyrir íbúa í sumum hverfum og að akstursleiðir yrðu oftar eftir stofngötum bæjarins.

Þónokkrar athugasemdir og ábendingar bárust í samráðinu í tengslum við of langar gönguvegalengdir að næstu stoppistöð. Að auki komu íbúar áhyggjum sínum á framfæri í tengslum við umferðaröryggi t.d. við Borgarbraut og Hlíðarbraut, sérstaklega m.t.t. yngstu skólabarnanna.

Þótt ekki sé hægt að koma til móts við þessar athugasemdir með að færa til akstursleiðir eða stoppistöðvar er stefnt að ýmsum mótvægisaðgerðum. Áður hefur verið fjallað um frístundaakstur fyrir 1.-4. bekk en einnig má nefna: 

Snjómokstur. Áhersla verði lögð á að setja stíga í forgang sem tengjast stoppistöðvum strætó. Fjölmargir íbúar og hagsmunaaðilar komu því á framfæri að mikilvægt væri að ryðja vel snjó og hreinsa helstu stíga til og frá stoppistöðvum strætó, sérstaklega þar sem með nýju leiðaneti munu gönguvegalengdir að næstu biðstöð lengjast fyrir suma íbúa. Sem dæmi um breytta forgangsröðun má nefna að þegar strætó færist frá Mýrarvegi að Dalsbraut þá lengist vegalengd gangandi að VMA og því verða þær gönguleiðir settar í forgang.

Ný biðskýli. Við innleiðingu á nýju leiðaneti er horft til þess að fjölga smám saman biðskýlum á stoppistöðvum svo farþegar geti sest og skýlt sér fyrir veðri og vindum. Það gæti þó tekið smá tíma þar sem setja þarf upp fjölmargar nýjar stoppistöðvar. Að auki þá er stefnt að því að innleiða nokkur biðskýli sem sýna í rauntíma hversu langt er í næsta strætó. Slík biðskýli verða á mikilvægum stoppistöðvum t.d. við miðbæinn.

Bætt umferðaröryggi. Margar ábendingar bárust í tengslum við umferðaröryggi. Við undirbúning innleiðingar verður lögð áhersla á að skoða umferðaröryggi í tengslum við aðgengi að stoppistöðvum s.s. við gönguþveranir og má nefna Hlíðarbraut sérstaklega í því samhengi í samræmi við fjölmargar ábendingar úr Giljahverfi. 

 

Síðast uppfært 20. september 2021