Ungmennaráð

5. fundur 10. mars 2020 kl. 17:00 - 18:05 Hamrar í Hofi
Nefndarmenn
 • Ari Orrason stýrði fundi
 • Embla Blöndal Ásgeirsdóttir
 • Gunnborg Petra Jóhannsdóttir
 • Helga Sóley G. Tulinius
 • Hildur Lilja Jónsdóttir
 • Ísabella Sól Ingvarsdóttir
 • Páll Rúnar Bjarnason
 • Rakel Alda Steinsdóttir
 • Telma Ósk Þórhallsdóttir
 • Þura Björgvinsdóttir
Starfsmenn
 • Hulda Sif Hermannsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Hulda Sif Hermannsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra
Dagskrá
Í upphafi annars bæjarstjórnarfundar unga fólksins fór Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar yfir afgreiðslu mála síðasta fundar frá 26. mars 2019.

1.Jöfn tækifæri óháð búsetu

Málsnúmer 2020030294Vakta málsnúmer

Hildur Lilja Jónsdóttir kynnti.

Á Stórþingi ungmenna, sem ungmennaráð Akureyrar stýrði, sem fram fór í Hofi þann 6. september 2019 fengu ungmenni Akureyrarbæjar tækifæri til að tjá sig um sínar aðstæður og sín réttindi. Þar kom í ljós að ungt fólk í Hrísey, sem tilheyrir Akureyrarbæ, upplifir að það hafi ekki sömu tækifæri og önnur börn og ungmenni í sveitarfélaginu. Ungmennaráð veltir fyrir sér hvort að börn eyjasamfélaga Akureyrar séu að gleymast. Er betra að vera ungmenni á einum stað í Akureyrarbæ en öðrum?
Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Það er vilji bæjarins að lagfæra ýmislegt af því sem talið var upp í máli Hildar Lilju en hann bendir á að það verði alltaf einhver aðstöðumunur eftir því hvort um sé að ræða dreifbýli eða þéttbýli.

2.Frítt í sund fyrir börn á Akureyri

Málsnúmer 2020030295Vakta málsnúmer

Rakel Alda Steinsdóttir kynnti.

Ungmennaráð leggur til að Akureyrarbær, sem vinnur hvort tveggja að því að vera Heilsueflandi samfélag og Barnvænt sveitarfélag, stuðli að hreyfingu barna og hafi frítt í sund fyrir öll börn á Akureyri. Þá bendir ungmennaráð á að það séu fordæmi fyrir þessu í öðrum sveitarfélögum og bendir á nauðsyn þess að hvetja börn til heilsueflingar.
Hlynur Jóhannsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Hann bendir á að verðlagning á árskorti sé mjög sanngjörn og í raun bara málamiðlunargjald. Hann segir að komið hafi í ljós að eftir að vægt gjald hafi verið sett á sundferðir hafi umgengi og virðing fyrir umhverfinu aukist. Hann er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að vera frítt í sund.

3.Áheyrnarfulltrúar ungmennaráðs í helstu ráð og nefndir

Málsnúmer 2019030404Vakta málsnúmer

Helga Sóley Tulinius kynnti.

Ungmennaráð leggur til að ráðið fái fleiri áheyrnarfulltrúa í ráð bæjarins og bendir á að samkvæmt 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eigi börn rétt á að tjá sig um málefni í málum er þau varða. Þá bendir ungmennaráð á að þau mál sem til að mynda skipulagsráð og umhverfis- og mannvirkjaráð taka fyrir snúa að málum sem snerta ungmenni beint að því leytinu til að verið er að skipuleggja til framtíðar, fyrir ungmennin sjálf.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Hann bendir á að ungmennaráð fær nú greitt fyrir fundi, alls 12 á ári og með því geti ráðið tekið fyrir öll þau mál sem séu til umfjöllunar í öðrum ráðum. Hann leggur til að málið verði skoðað þegar reynsla er komin á störf ungmennaráðs. Hann bendir á að Akureyrarbær hafi gengið lengst allra sveitarfélaga á landinu varðandi ungmennaráð. Hann bendir á að skoða þurfi hvernig fjámunum er varið.


Helga Sóley benti á að ef áheyrnarfulltrúar séu í ráðunum þá verði ungmennaráðið betur upplýst og geti þá komið betur að ákvörðunartöku en hafi ekki bara áhrif á lokaniðurstöðu í málum.


Guðmundur Baldvin Guðmundsson tók aftur til máls og sagði að málið verði skoðað aftur í haust þannig að ungmenni geti sem best tekið þátt í umræðum og að skoða þurfi málið í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar 2021.

4.Aukin fræðsla í skólum Akureyrar

Málsnúmer 2020030298Vakta málsnúmer

Gunnborg Petra Jóhannsdóttir kynnti.

Ungmennaráð óskar eftir meiri óformlegri fræðslu innan skólanna. Ráðið bendir á mikilvægi þess að undirbúa ungmenni undir það sem tekur við eftir grunnskóla og koma þar inn á fræðslu um skattamál, kynlíf og staðalímyndir kynjanna. Þá veltir ráðið upp mikilvægi þess að lækka kosningaaldurinn með tilliti til þess að sextán ára skattgreiðendur hafi eitthvað um það að segja í hvað skattpeningunum þeirra sé varið.
Þórhallur Jónsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Hann hvetur ungmennaráðið til að koma með fullmótaðar tillögur og hugmyndir í frístunda- og fræðsluráð, þar sem hægt er að vinna með tillögurnar. Hann er sammála mikilvægi þess að kosningaaldurinn verði færður niður og hvetur ungmennaráðið til að berjast áfram fyrir þessu.

5.Tæknilæsi ungmenna

Málsnúmer 2020030299Vakta málsnúmer

Telma Ósk Þórhallsdóttir kynnti.

Ungmennaráð ræðir mikilvægi þess að efla tæknilæsi ungmenna og sérstaklega nú í upphafi fjórðu iðnbyltingarinnar. Þá skorar ráðið á bæjarstjórn að undirbúa nemendur á Akureyri betur undir framtíðina og gera ungmenni hæfari að skilja upplýsingatækni og þá hröðu tækniþróun sem við stöndum frammi fyrir. Þá kynnti Telma Ósk að auki niðurstöður könnunar sem ungmennaráð lagði fyrir nemendur í 8. - 10. bekk á Akureyri um upplýsingatæknikennslu í öllum grunnskólum Akureyrarbæjar.
Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Hún byrjaði á að þakka fyrir framsöguna og könnunina sem ungmennaráð lagði fyrir nemendur í 8.-10. bekk. Hún tekur undir það sem fram kom í máli fulltrúans um þekkingargap og að ein leiðin sé að kenna skapandi greinar. Hún efast ekki um að þetta mál sé hluti af menntastefnunni sem nú er í vinnslu og að ungmennaráð muni fá tækifæri til að setja mark sitt á hana.

6.Geðheilbrigði ungmenna

Málsnúmer 2020030300Vakta málsnúmer

Páll Rúnar Bjarnason kynnti.

Ungmennaráð telur að þörf sé á skjóli fyrir ungmenni með tvíþættan vanda; geðrænan vanda og/eða fíknivanda. Erfitt getur reynst að komast að á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri og því er þörf á skjóli til að styðja ungmenni í bata. Þá bendir ungmennaráð á að í aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar vegna Barnvæns sveitarfélags sé stefnt að því að ungmenni hafi tök á að sækja geðheilbrigðisþjónustu án milligöngu foreldra og gæti það reynst þeim ungmennum vel sem þurfa á andlegri aðstoð að halda.
Heimir Haraldsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Hann tekur undir að slíkt skjól sé ekki til staðar en bendir á þau úrræði og þjónustu sem stendur ungmönnum til boða. Hann bendir einnig á mikilvægi forvarna og heilsuræktar og hvetur ungmennaráðið til að láta í sér heyra hvað það varðar.

Páll Rúnar Bjarnason tók aftur til máls og benti á að fræðsluna varðandi þjónustuna og valmöguleikana vanti og þurfi að bæta.

7.Umhverfisvæn Akureyri

Málsnúmer 2020030301Vakta málsnúmer

Þura Björgvinsdóttir kynnti.

Ungmennaráð ræðir sorpmál á Akureyri og bendir á að of fáar ruslatunnur í bænum hafa þau áhrif að oft er mikið rusl í bænum. Þá eru þær ruslatunnur sem eru í bænum oft illa farnar og þjóna því takmörkuðum tilgangi. Ungmennaráð leggur til að settar verði upp flokkunartunnur víðar um bæinn og bendir á að auka þurfi fræðslu um umhverfismál og endurvinnslu og þá sérstaklega hvað verði um ruslið í bænum. Getur Akureyri ekki gert betur í umhverfismálum?
Andri Teitsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Hann segir ruslatunnur vera 220 um bæinn og að þær mættu án efa vera fleiri. Hann bendir á að ef til vill væri hægt að fara einhverja millileið varðandi flokkun þannig að það væru tvær tunnur fyrir ,,subburusl" og svo annað sorp sem er klárlega hægt að flokka. Hann fór einnig yfir upplýsingar varðandi Moltu, Orkey og Flokkun. Hann segir stóra verkefnið í framtíðinni að flokka enn meira og betur.

Páll Rúnar Bjarnason bendir á að í Randers sé fjöldi ruslatunna sem eru skemmtilegar, þær hafi raddir sem segja brandara og hvetja þar með íbúa til að nota tunnurnar.

8.Ungir þolendur kynferðisofbeldis

Málsnúmer 2020030302Vakta málsnúmer

Embla K. Blöndal kynnti.

Ungmennaráð bendir á mikilvægi þess að upplýsa ungt fólk betur um réttindi sín og hvert þau geti leitað þegar þau verða fyrir ofbeldi eða áreitni af einhverju tagi, þá sérstaklega þolendur kynferðisofbeldis. Þá er mikilvægt að unnið sé að úrræðum fyrir ungt fólk í þessari stöðu sem finnur sér ekki stað í kerfinu. Það er einnig mikilvægt að ræða um þær alvarlegu afleiðingar sem þolendur kynferðisofbeldis sem verða fyrir því á barnsaldri, upplifa. Þær afleiðingar fela í sér meðal annars kvíða, þunglyndi, aukna áhættuhegðun og fleira sem vill oft verða kostnaðarsamt fyrir ríki og sveitarfélög.
Halla Björk Reynisdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Hún þakkar fyrir að þetta mikilvæga mál sé sett á dagskrá. Hún telur mikilvægt að einfalt sé að nálgast upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði og hvernig eigi að bera sig að. Hún bendir á að búið sé að vinna viðbragðsáætlun um hvernig bregðast skuli við ofbeldi gegn börnum og verið sé að vinna rafræna gátt í sama tilgangi. Hún bendir á að í skólum séu starfandi hjúkrunarfræðingar sem hægt sé að leita til og að lokum nefnir hún að Blátt áfram sé reglulega með fræðslu í skólunum, en að ávallt ætti að vera að leita leiða til þess að gera betur.
Fundarstjóri tilkynnti að dagskrá væri tæmd og lagði til að fundargerðinni yrði vísað til umræðu í bæjarráði. Tillagan var samþykkt með tíu samhljóða atkvæðum fulltrúa ungmennaráðs.

Fundi slitið - kl. 18:05.