Umhverfis- og mannvirkjaráð

56. fundur 17. maí 2019 kl. 08:15 - 09:50 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
 • Andri Teitsson formaður
 • Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
 • Unnar Jónsson
 • Gunnar Gíslason
 • Berglind Bergvinsdóttir
 • Jana Salóme I. Jósepsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
 • Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs
 • Dóra Sif Sigtryggsdóttir forstöðumaður rekstrardeildar
 • Steindór Ívar Ívarsson forstöðumaður viðhaldsdeildar
 • Tómas Björn Hauksson forstöðumaður nýframkvæmda
 • Ketill Sigurður Jóelsson verkefnastjóri ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Ketill Sigurður Jóelsson verkefnastjóri
Dagskrá
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir B-lista mætti í forföllum Ingibjargar Ólafar Isaksen.

1.Sporatún 43 - kaup á íbúð

Málsnúmer 2019020132Vakta málsnúmer

Lagður fram endanlegur kostnaður vegna kaupa og breytinga á Sporatúni 43 fyrir fötluð börn. Endanlegur kostnaður er 62 milljónir króna.
Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkir tilfærslu upp á 12 milljónir króna milli liða innan framkvæmdaáætlunar félagslegra íbúða.

2.Fjárhagsáætlun umhverfis- og mannvirkjasviðs 2019

Málsnúmer 2018080973Vakta málsnúmer

Lagðir fram samþykktir viðaukar frá 1. janúar 2019 til og með 8. maí 2019.
Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkir tilfærslur og viðauka við framkvæmdaáætlun 2019 og vísar breytingunum til bæjarráðs.

Tilfærslur á fjármagni að upphæð 20 milljónir króna úr eignasjóði gatna yfir í eignasjóð fasteigna og 12 milljónir króna úr eignasjóði gatna í 110 umferðar- og samgöngumál gjaldfært.

Samþykkt að lækka fjármagn í Glerárskóli Leikskóli að upphæð 15 milljónir króna yfir í Íþróttahús við Dalsbraut.

3.Invitation to Akureyri to join Worldwide Fund for Nature's One Planet City Challenge

Málsnúmer 2019040285Vakta málsnúmer

Boð um að taka þátt í WWF’s One Planet City Challenge (OPCC). Verkefnið snýst um að Akureyrarbær greini upplýsingar tengdar hnattrænni hlýnun og mun WWF veita eftirfylgni og ráðleggingar um næstu skref bæjarfélagsins til þess að taka þátt í markmiðum Parísarsáttmálans.
Umhverfis- og mannvirkjaráð afþakkar boð um að taka þátt í verkefninu enda er Akureyrarbær þátttakandi í svipuðum verkefnum s.s. Compact of Mayors.

4.Lausaganga katta og óþrifnaður eftir hunda

Málsnúmer 2019040058Vakta málsnúmer

Bæjarbúi mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa þann 28. mars 2019 og óskaði eftir að reglur um lausagöngu katta í bænum yrðu hertar. Vakti hann athygli á sóðaskap frá köttunum sem gera jafnvel þarfir sínar í matjurtagörðum íbúanna. Fuglalíf í innbænum er undir miklu álagi af völdum kattanna að hans sögn. Bæjarbúi kvartaði líka undan hundaeigendum sem eru ekki nógu duglegir að hirða upp eftir hunda sína á göngu við tjörnina í innbænum.

Jón Birgir Gunnlaugsson verkefnastjóri umhverfis- og sorpmála sat fundinn undir þessum lið.
Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkir að taka til endurskoðunar samþykktir um hunda- og kattahald í Akureyrarbæ með það að markmiði meðal annars að setja skorður við lausagöngu katta. Jafnframt verði gerð tillaga að aðgerðaáætlun ásamt kostnaðargreiningu.

5.Raftenging skipa við höfnina

Málsnúmer 2019040214Vakta málsnúmer

Bæjarráð vísaði á fundi sínum 25. mars sl. 2.lið 74. fundargerðar Hverfisnefndar Oddeyrar til umhverfis- og mannvirkjasviðs.

Á verkefnafundi þann 2. maí 2019 með skipulagssviði var gerð eftirfarandi bókun við lið 2.2:

Í tengslum við gerð aðalskipulags Akureyrar voru skoðaðar ýmsar lagnaleiðir fyrir háspennustreng niður að höfn. Um gríðarlega kostnaðarsama framkvæmd er að ræða og komst málið ekki lengra á þeim tímapunkti. Enn er verið að skoða hvaða leiðir eru farsælastar í flutningi rafmagns frá Þingvallastræti niður að bryggju svo hægt sé að tengja skemmtiferðaskip og önnur stærri skip með góðu móti við rafmagn svo vel sé.

Umhverfis- og mannvirkjasvið vísar lið 2.2 til umhverfis- og mannvirkjaráðs til frekari umræðu.
Umhverfis- og mannvirkjaráð styður hugmyndir um að komið verði upp aðstöðu til landtengingar fyrir skip við hafnir Akureyrarbæjar. Ráðið bendir á að ríkið hefur áform um að styrkja uppbyggingu innviða á þessu sviði. Ráðið óskar einnig eftir viðræðum við Hafnasamlag Norðurlands og Norðurorku um mögulegar útfærslur á framkvæmdinni.

6.Úttektir á húsnæði í eigu Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2019030349Vakta málsnúmer

Úttekt á ástandi húsnæðis grunn- og leikskóla í eigu bæjarins með tilliti til rakaskemmda.
Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkir að leitað verði til óháðra aðila til þess að gera úttekt á loftgæðum og hugsanlegri myglu innan skólamannvirkja Akureyrarbæjar. Byrjað verði á að skoða húsnæði Oddeyrarskóla og Brekkuskóla. Áætlaður kostnaður við úttektina á þessum tveimur mannvirkjum er um 3 milljónir króna.

Fundi slitið - kl. 09:50.