Stjórnsýslunefnd

7839. fundur 13. október 2006
5. fundur 2006
13.10.2006 kl. 8:10: - 10:00
Fundarsalur á 2. hæð í Ráðhúsi/Akureyri


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Kristján Þór Júlíusson formaður
Ásgeir Magnússon
Oddur Helgi Halldórsson
Hermann Jón Tómasson
Kristín Sigfúsdóttir
Gunnar Frímannsson fundarritari


1 Framkvæmdastjórn Akureyrarbæjar
2006100024
Samkvæmt bæjarmálasamþykkt skipar bæjarstjóri embættismenn í framkvæmdastjórn sem er honum til ráðuneytis um daglegan rekstur bæjarfélagsins.
Bæjarstjóri gerði stjórnsýslunefnd grein fyrir fyrirætlunum sínum um að endurvekja starf bæjarritara og skipa hann ásamt fjármálastjóra og starfsmannastjóra í framkvæmdastjórn bæjarins í kjölfar þess að störf sviðsstjóra verði lögð niður. Bæjarritari verði í fullu starfi í framkvæmdastjórn en fjármálastjóra og starfsmannastjóra verði gert kleift að verja meiri tíma til framkvæmdastjórnar með því að ráða sér aðstoðarfólk.
Stjórnsýslunefnd leggur til við bæjarstjórn að störf sviðsstjóra verði lögð niður og stofnað verði starf bæjarritara sem starfi með bæjarstjóra í framkvæmdastjórn bæjarins. Ennfremur leggur nefndin til að nýtt skipurit embættismanna verði staðfest.

Oddur Helgi Halldórsson sat hjá við afgreiðslu málsins.

2 Samþykktir fyrir fastanefndir
2006090040
Fjallað var um samþykktir fyrir fastanefndir vegna breytingartillagna um skipan þeirra og verkaskiptingu sem felast í samstarfssamningi meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn 2006 - 2010.
Stjórnsýslunefnd leggur til við bæjarstjórn að fyrirliggjandi tillögur að erindisbréfum bæjarráðs, félagsmálaráðs, fjölskylduráðs, framkvæmdaráðs, íþróttaráðs, skipulagsnefndar, skólanefndar, stjórnar Akureyrarstofu, stjórnsýslunefndar og umhverfisnefndar verði samþykktar með þeirri breytingu að fjölskylduráð verði nefnt samfélags- og mannréttindaráð. Jafnframt verði gerðar breytingar á Samþykkt um stjórn Akureyrarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar til samræmis.

Oddur Helgi Halldórsson óskaði bókað: Ég sit hjá við afgreiðslu erindisbréfanna en lýsi mig alfarið á móti breytingu á nafni fjölskylduráðs.

Kristín Sigfúsdóttir óskaði bókað að hún sé mótfallin þeim breytingum sem gera eigi á nefndaskipan, sérstaklega hvað varðar að setja saman ólíka málaflokka í samfélags- og mannréttindaráð. Þar er ég óánægðust með að skipa jafnréttis- og mannréttindamálum í nefnd með öðrum viðfangsefnum vegna sérstöðu jafnréttis- og mannréttindamála. Fjölskyldu- og forvarnamál hefðu farið betur saman í nefnd og tómstunda- og menningarmál í annarri. Áður hef ég lýst áliti mínu á því að Menntasmiðjan hefði farið best undir félagsmálaráði.
Það er álit mitt að það að fela Akureyrarstofu umfjöllun um svo viðamikla málaflokka í einni nefnd, muni takmarka umræðuna um menningar- og atvinnumál áður en hún berst til bæjarstjórnar.
Enda þótt ég álíti það fyrirkomulag gott að mörgu leyti að styrkja og auka starf deildarstjóra og auka samskipti bæjarstjóra og embættismanna við þá sem standa í daglegum rekstri hverrar deildar, set ég mikla fyrirvara við að leggja sviðsstjóraembættin af, ekki síst þegar von er á öðrum mannabreytingum í æðstu stjórn bæjarins á kjörtímabilinu.
Ég er því á móti tillögu bæjarstjóra og mun gera betur grein fyrir máli mínu á fundi bæjarstjórnar þegar málefni stjórnsýslunefndar koma þar til umræðu.

3 Hrísey - hverfisnefnd
2006100012
Stjórnsýslunefnd fjallaði um hvernig standa skal að stofnun hverfisnefndar í Hrísey sem tekið gæti við hlutverki samráðsnefndarinnar sem starfaði þar á síðasta kjörtímabili.
Málið var rætt og ákveðið að stefna að borgarafundi í Hrísey 7. nóvember nk.til að stofna hverfisnefnd í eynni.


4 Skipting Námsstyrkjasjóðs - tillaga vor 2006
2006050033
Fræðslunefnd hefur samþykkt að leggja fyrir stjórnsýslunefnd samþykkt fyrir Námsstyrkjasjóð embættismanna annarsvegar og samþykkt fyrir Námsstyrkjasjóð sérmenntaðra starfsmanna hinsvegar. Í tillögum nefndarinnar um samþykktirnar felst annarsvegar að Námsstyrkjasjóði fyrir stjórnendur og sérmenntaða starfsmenn er skipt formlega í tvo sjóði og hinsvegar að framlög í sjóðina hækki frá því sem verið hefur.
Stjórnsýslunefnd samþykkir skiptingu sjóðsins í tvo sjóði og vísar tillögum um aukið fjárframlag til gerðar fjárhagsáætlunar.


5 Akureyrarkaupstaður - heiti sveitarfélagsins
2006100032
Borist hefur erindi frá félagsmálaráðuneytinu þar sem vakin er athygli á ósamkvæmni í notkun nafna sveitarfélaga. Meðal annars er ýmist talað um Akureyrarbæ eða Akureyrarkaupstað en seinna nafnið er hið opinbera nafn sveitarfélagsins. Bent er á að sveitarstjórn geti breytt nafni sveitarfélagsins með samþykki félagsmálaráðuneytisins og að fenginni umsögn örnefnanefndar.
Lagt fram.Fundi slitið.