Stjórn Akureyrarstofu

135. fundur 10. janúar 2013 kl. 16:00 - 17:55 Fundarherbergi Akureyrarstofu í menningarhúsinu Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Jón Hjaltason
  • Sigmundur Einar Ófeigsson
  • Helena Þuríður Karlsdóttir
  • Hildur Friðriksdóttir
  • Matthías Rögnvaldsson áheyrnarfulltrúi
  • Sigfús Arnar Karlsson áheyrnarfulltrúi
  • Unnsteinn Jónsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Þórgnýr Dýrfjörð fundarritari
Dagskrá

1.Leikfélag Akureyrar - samningur 2012-2015

Málsnúmer 2013010067Vakta málsnúmer

Í samningi Leikfélags Akureyrar og Akureyrarbæjar er kveðið á um árangurstengdar greiðslur m.a. vegna markaðssamstarfs og breytinga á rekstrarformi. Farið yfir greinargerð frá leikhússtjóra og framkvæmdastjóra LA vegna þessa.

Stjórn Akureyrarstofu telur að samstarfið eins og því er lýst í greinargerðinni fullnægi skilyrðum samningsins en telur engu að síður að mun meira þurfi að gera í sameiginlegu markaðs- og skipulagsstarfi milli LA og Menningarfélagsins Hofs.

2.Samningur um samstarf ríkis og Akureyrarbæjar um menningarmál 2013-2015

Málsnúmer 2013010068Vakta málsnúmer

Farið yfir drög að nýjum menningarsamningi og athugasemdir við þau.

Stjórn Akureyrastofu felur framkvæmdastjóra og formanni að koma athugasemdum stjórnarinnar á framfæri við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Drögin verða tekin fyrir að nýju á næsta fundi stjórnar.

3.Laxdalshús - útleiga 2012

Málsnúmer 2012050194Vakta málsnúmer

Sem kunnugt er var til skoðunar að Akureyrarakademían fengi inni í Laxdalshúsi og Gudmands Minde eða Gamla spítala. Nú hefur verið horfið frá því og Akademían fengið inni í húsnæðí sem áður hýsti sambýli aldrara við Bakkahlíð en stefnt er að því að hún fái Árholt til umráða þegar starfsemin sem er þar nú flytur þaðan í Húsmæðraskólann. Í framhaldi af því hefur verið framlengdur samningur við veitingaaðilana sem höfðu áður gert skammtímasamning um leigu á Laxdalshúsi.

Stjórn Akureyrarstofu staðfestir samkomulagið.

4.Safn landabréfa um Ísland

Málsnúmer 2003040061Vakta málsnúmer

Farið yfir stöðu málsins sem snýst um að þýsku hjónin Karl-Werner og Gisela Shculte vilja færa Akureyrarbæ að gjöf merkt safn landabréfa af Íslandi þar sem yngsta landakortið er frá því um lok 18. aldar. Rætt um næstu skref og tillögu til bæjarráðs um lok þess.

Stjórn Akureyrarstofu leggur til við bæjarráð að Akureyrarbær þiggi gjöfina og að safnið verði sýnt yfir sumartímann í Minjasafninu á Akureyri fyrstu 2-3 árin. Gert er ráð fyrir því af hálfu gefenda að safnið verði sýnt með reglubundnum hætti í heild eða að hluta. Sýningin gæti svo síðar verið sett upp í Menningarhúsinu Hofi sem sumarsýning en það er kostnaðarsamara en að nýta Minjasafnið sem vettvang. Jafnframt leggur stjórnin áherslu á að gætt verði fyllsta aðhalds í öllum kostnaði sem til verður.

5.Upplýsingamiðstöð ferðamanna - rekstur 2012

Málsnúmer 2013010069Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf dags. 28. nóvember 2012, frá Guðrúnu Pálínu Jóhannsdóttur, f.h. bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar, þar sem tilkynnt er að sveitarfélagið hyggist hætta að greiða framlag til reksturs upplýsingamiðstöðvarinnar frá og með 1. janúar 2013.

Framkvæmdastjóra falið að ræða við bréfritara um ástæður ákvörðunarinnar.

6.Fjárhagsáætlun 2013 - Akureyrarstofa

Málsnúmer 2012060210Vakta málsnúmer

Í afgreiðslu bæjarráðs á fjárhagsáætlun fyrir menningarmál og atvinnumál var gert ráð fyrir hagræðingu upp á 5 mkr. í hvorum málaflokki. Lagðar fram til umræðu tillögur um hvernig mæta megi þessum kröfum. Tillögurnar verða teknar til endanlegrar afgreiðslu á næsta fundi.

Fundi slitið - kl. 17:55.