Stjórn Akureyrarstofu

110. fundur 01. desember 2011 kl. 16:00 - 20:08 Fundarherbergi Akureyrarstofu í menningarhúsinu Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Jón Hjaltason
  • Sigmundur Einar Ófeigsson
  • Guðrún Þórsdóttir
  • Jóhann Jónsson
Starfsmenn
  • Þórgnýr Dýrfjörð fundarritari
Dagskrá

1.Leikfélag Akureyrar - staða rekstrar

Málsnúmer 2011080046Vakta málsnúmer

Eiríkur Haukur Hauksson framkvæmdastjóri LA kom á fundinn og fór yfir rekstrarstöðu félagsins eins og hún er nú.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar Eiríki greinargóða upplýsingagjöf og umræður.

2.Leikfélag Akureyrar - staða rekstrar

Málsnúmer 2011080046Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar og umræðu úttekt á rekstri Leikfélags Akureyrar sem gerð var í kjölfar fjárhagsvandræða þess.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar skýrsluhöfundum góða vinnu við úttektina. Ljóst er að ábyrgð á því hvernig fór í rekstri LA liggur víða og mikilvægt er að nýta úttektina til þess að draga af henni lærdóm. Stjórn Akureyrarstofu hefur þegar tekið ákvörðun um að gera breytingar á öllum samningum sem gerðir verða sem snúast um verulega fjárhagslega hagsmuni, þannig að eftirlit verði skýrara og öruggara.

3.Leikfélag Akureyrar - starfshópur um framtíð atvinnuleikhúss á Akureyri

Málsnúmer 2011050144Vakta málsnúmer

Formaður stjórnar fór yfir vinnu framtíðarnefndar stjórnar Akureyrarstofu og stjórnar Leikfélags Akureyrar og drög að framtíðarsýn sem unnið er að.

4.Ný menningarmiðstöð í Listagili - undirbúningur

Málsnúmer 2011040137Vakta málsnúmer

Farið yfir stöðuna á vinnu við sameiningu Menningarmiðstöðvarinnar í Listagili og Listasafnsins á Akureyri. Hannes Sigurðsson verðandi forstöðumaður sjónlistamiðstöðvarinnar kom á fundinn og gerði ásamt framkvæmdastjóra Akureyrarstofu grein fyrir stöðu mála. Rætt um nafn á hina nýju miðstöð, auglýsingar um störf og þau verkefni sem lögð hafa verið upp á fyrstu misserum sjónlistamiðstöðvarinnar.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir þá tillögu sem fram kom á fundinum að nýja menningarmiðstöðin verði framvegis kölluð Sjónlistamiðstöðin.

Stjórnin þakkar Hannesi fyrir komuna á fundinn og góðar umræður.

5.Skipulagsbreytingar í Listagili - fyrirspurn

Málsnúmer 2011040137Vakta málsnúmer

Guðrún Þórsdóttir V-lista spyr hvers vegna ráðning nýrrar stöðu forstöðumanns nýrrar stofnunar bæjarins, sjónlistamiðstöðvarinnar, hafi ekki verið afgreidd á fundi stjórnar Akureyrarstofu.

Framkvæmdastjóri Akureyrarstofu svaraði því til að málinu hafi verið lokið á fundi stjórnarinnar 6. október 2011. Þá var bókað að framkvæmdastjóra væri falið að vinna áfram að málinu í samræmi við umræður á fundinum. Það fól í sér að samkomulag var um hver yrði ráðinn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði snerust annars vegar um tímabundna ráðningu og hins vegar um viðveruskyldu þar sem umsækjandinn sem fyrir valinu varð heldur tvö heimili. Bókunin frá 6. október var því ekki nægilega nákvæm um málalok.

6.Grasrót - Iðngarðar og nýsköpun - styrkbeiðini 2011

Málsnúmer 2011110042Vakta málsnúmer

Erindi dags. 13. október 2011 frá Grasrót - Iðngörðum þar sem óskað er eftir stuðningi við starfsemi félagsins vegna áframhaldandi reksturs Iðngarðanna. Berglind Rafnsdóttir og Guðmundur Örn Ólafsson verkefnisstjórar komu á fundinn og kynntu stöðuna á verkefninu og styrkbeiðnina. Félagið óskar eftir því að Akureyrarbær styrki starfsemina um ríflega 800 þús. kr. á næsta ári.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar Berglindi og Guðmundi greinargóðar upplýsingar og góðar umræður. Stjórnin samþykkir að styðja við starfsemina þar til í febrúar á næsta ári en þá verður ljóst hvort framhald getur orðið á henni.

Sigmundur Einar Ófeigsson vék af fundi kl. 18:40.

7.Fyrirspurn um útleigu á Gamla spítala - Þula ehf

Málsnúmer 2011110173Vakta málsnúmer

Erindi dags. 29. nóvember 2011 frá Magnúsi Kristjánssyni, f.h. Þulu ehf, þar sem hann spyrst fyrir um möguleika á að taka á leigu neðri hæð Gamla spítala eða Gudmands minde.

Stjórn Akureyrarstofu tekur jákvætt í erindið og felur framkvæmdastjóra Akureyrarstofu að kanna möguleika á að fyrirtækið fái inni í húsnæðinu.

8.Hollvinasamtök Húna II - ósk um samstarfssamning

Málsnúmer 2011110168Vakta málsnúmer

Erindi dags. 24. október 2011 frá Hjörleifi Einarssyni f.h. Hollvinafélagsins, þar sem óskað er eftir því að Akureyrarstofa geri samning um stuðning við starfrækslu Húna II til þriggja ára.

Stjórn Akureyrarstofu felur framkvæmdastjóra að kanna möguleika á að gera þríhliða samning milli Hollvinafélagsins, Akureyrarstofu og skóladeildar.

9.Norðanbál - styrkbeiðni 2011

Málsnúmer 2011080010Vakta málsnúmer

Erindi dags. 27. júlí 2011 frá Erni Alexanderssyni f.h. Norðanbáls þar sem óskað er eftir styrk vegna greiðslu fasteignagjalda fyrir Gamla skóla í Hrísey.

Stjórn Akureyrarstofu getur ekki orðið við erindinu að þessu sinni en samþykkir að fela framkvæmdastjóra að kanna hvort breyta megi skilgreiningu á húsnæðinu með tilliti til útreiknings á fasteignagjöldum til lækkunar.

Fundi slitið - kl. 20:08.