Stjórn Akureyrarstofu

66. fundur 27. janúar 2010
Stjórn Akureyrarstofu - Fundargerð
66. fundur
27. janúar 2010   kl. 16:00 - 17:30
Fundarsalur á 2. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Elín Margrét Hallgrímsdóttir formaður
Helena Þuríður Karlsdóttir
Lára Stefánsdóttir
Baldvin Halldór Sigurðsson
Halla Björk Reynisdóttir
María Helena Tryggvadóttir
Ragnar Hólm Ragnarsson
Þórgnýr Dýrfjörð fundarritari
1.          Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi - endurnýjun samstarfs
2009100067
Tekið fyrir erindi frá Markaðsskrifstofunni um framlengingu á samstarfssamningi um rekstur skrifstofunnar. Í vinnu við fjárhagsáætlun og afgreiðslu hennar var gert ráð fyrir áframhaldandi samstarfi.
Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að halda áfram samstarfi við Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi eins og gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2010. Stjórnin fagnar góðu samstarfi við Markaðsskrifstofuna og undirstrikar mikilvægi öflugrar svæðisbundinnar markaðssetningar. Jafnframt leggur stjórnin til að kannað verði hvort hagkvæmt geti reynst að Markaðsskrifstofan taki við rekstri Upplýsingamiðstöðvar ferðamála á Norðurlandi eystra, en Akureyrarstofa annast rekstur hennar nú.


2.          Ályktun stjórnar Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi
2010010169
Lögð fram ályktun frá stjórn Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi þar sem skorað er á stjórnvöld að bjóða út hið fyrsta framkvæmdir við stækkun flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli.
Stjórn Akureyrarstofu tekur heilshugar undir ályktunina og skorar á stjórnvöld að hraða sem kostur er undirbúningi að stækkun flugstöðvarinnar.


3.          Hollvinafélag Húna II - umsókn um styrk
2009100023
Umsókn dags. 6. október 2009 frá Þorsteini Péturssyni f.h. Hollvinafélags Húna II þar sem sótt er um styrk að upphæð kr. 250.000 vegna reksturs á kaffistofu yfir vetrartímann.
Stjórn Akureyrarstofu samþykkir styrk að upphæð kr. 80.000 til verkefnisins.


4.          Atvinnuátaksverkefni 2009
2009010238
Farið yfir atvinnuátaksverkefni á vegum Akureyrarstofu og Vinnumálastofnunar á árinu 2009. Lagt var fram yfirlit um fjölda mannmánuða, kostnað og tegundir verkefna.
Stjórn Akureyrarstofu lýsir yfir ánægju með framkvæmd átaksverkefnanna á síðasta ári. Verkefnin voru af margvíslegum toga og ljóst að jákvæð áhrif af þeim voru ótvíræð. Óhætt er að hvetja fyrirtæki og stofnanir í bænum til að nýta sér þennan kost.  Verkefni Akureyrarstofu og Vinnumálastofnunar veittu 43 einstaklingum störf og voru ársverk um 14 talsins.


5.          Komdu norður 2009 - 2010
2009090110
Farið yfir stöðu átaksins og áætlun um birtingar og efnistök á næstu mánuðum. Þátttakendum fjölgar ár frá ári og það sem af er þessu ári hafa 13 nýir aðilar bæst í hópinn. Það er því útlit fyrir að markaðsátakið geti orðið enn öflugra en áður, en rannsóknir og reynsla benda eindregið til þess að átakið sé mjög árangursríkt.


6.          Nýsköpunar- og athafnaverðlaun stjórnar Akureyrarstofu
2010010227
Í stefnu Akureyrarstofu er kveðið á um að stjórn Akureyrarstofu veiti verðlaun fyrir nýsköpun í atvinnulífinu á Akureyri. Rætt var um framkvæmd verðlaunanna, val, afhendingu og tímasetningu.
Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að skipa Unnar Jónsson og Höllu Björk Reynisdóttur fyrir sína hönd í vinnuhóp til að undirbúa Nýsköpunar- og athafnaverðlaun stjórnar Akureyrarstofu. Jafnframt verður leitað eftir því að fulltrúi úr atvinnulífinu taki sæti í vinnuhópnum. Stefnt er að því að verðlaunin verði veitt í fyrsta sinn á Vorkomu stjórnarinnar á Sumardaginn fyrsta.Fundi slitið.