Skólanefnd

16. fundur 30. ágúst 2010 kl. 14:00 - 17:20 Fundarsalur á 2. hæð í Glerárgötu 26
Nefndarmenn
  • Sigurveig S Bergsteinsdóttir formaður
  • Preben Jón Pétursson
  • Sigrún Björk Sigurðardóttir
  • Helgi Vilberg Hermannsson
  • Logi Már Einarsson
Starfsmenn
  • Gunnar Gíslason fræðslustjóri ritaði fundargerð
  • Hafþór Einarsson
Dagskrá

1.Fundaáætlun skólanefndar 2010

Málsnúmer 2010060104Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn var lögð uppfærð tillaga að fundaáætlun skólanefndar fyrir haustmánuði 2010 og áætlaðar heimsóknir skólanefndar í leik- og grunnskóla Akureyrarbæjar. Þar er gert ráð fyrir því að skólanefnd fari í tvær skólaheimsóknir að morgni alla mánudaga sem fundur er haldinn í nefndinni. Er reiknað með að í febrúar 2011 hafi skólanefnd heimsótt alla leik-, grunn- og tónlistarskóla í Akureyrarbæ.

Skólanefnd samþykkir tillöguna.

2.Rekstur fræðslu- og uppeldismála 2010

Málsnúmer 2010040093Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn var lagt yfirlit yfir rekstrarstöðu grunnskóla og skóladeildar fyrstu 7 mánuði ársins. Þar kemur fram að rekstur grunnskólanna er á áætlun. Kostnaður vegna skóladeildar er kominn fram úr áætlun vegna forfallakostnaðar og þá er kostnaður vegna skólaaksturs kominn fram úr áætlun.

Skólanefnd þakkar starfsfólki skólanna frábært samstarf við aðhald í rekstri skólanna og óskar eftir að áframhald verði þar á.

3.Skólamötuneyti grunnskóla - rekstur og nýting 2010

Málsnúmer 2010080094Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn var lagt uppgjör á rekstri skólamötuneyta grunnskólanna fyrir vormisseri 2010. Fram kemur í uppgjörinu að við upphaf nýs skólaárs er hallinn á skólamötuneytunum orðinn nokkur og er ekki hægt að sjá annað en halli verði um 6 milljónir við lok árs með sama áframhaldi. Hráefniskostnaður hefur hækkað nokkuð á árinu og hefur hann mest áhrif á heildarkostnaðinn. Nýting skólamötuneytanna er mikil eða um 80% að meðaltali. Þá voru einnig lagðir fram matseðlar skólanna fyrir ágúst og september 2010.

Skólanefnd felur fræðslustjóra að ræða við þá skólastjóra þar sem hráefnisverð er hærra en meðaltal skólanna segir til um. Þá hvetur skólanefnd skólastjórnendur og matráða til að bæta upplýsingar á mánaðarlegum matseðlum á þann veg að þar komi betur fram hvers konar hráefni er verið að nota í matinn. Skólanefnd vill vekja athygli á því að í framhaldi þeirrar umræðu sem var á fundinum verður fyrirkomulag mötuneytanna til frekari skoðunar hjá nefndinni.

4.Grímsey - skólaganga nemenda í 9. og 10. bekk

Málsnúmer 2010080095Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn var lögð tillaga að reglum um styrki til foreldra í Grímsey vegna viðbótarkostnaðar við skólagöngu nemenda í 9. og 10. bekkjum, en þá bekki verða nemendur að sækja í grunnskólana á Akureyri.

Skólanefnd samþykkir að óska eftir umsögn hverfisráðs Grímseyjar um tillöguna.

5.Skólabyrjun 2010

Málsnúmer 2010080027Vakta málsnúmer

Mánudaginn 23. ágúst sl. hófu 2.596 nemendur vetrarstarfið í grunnskólum Akureyrarbæjar og fjölgar nemendum um 10 á milli skólaára. Þar af eru 257 nemendur í 1. bekk að stíga sín fyrstu skref í grunnskóla. Lundarskóli verður fjölmennastur með 487 nemendur og fæstir verða nemendurnir í Grímseyjarskóla eða 12.
Mjög vel gekk að manna grunnskólana á Akureyri eins og undanfarin ár. Hlutfall fagmenntaðra er rétt um 100%. Mikill stöðugleiki hefur einkennt starfsmannahaldið undanfarin ár, sem er mikill styrkur fyrir allt faglegt starf, því grundvöllur þess byggist á hæfu og metnaðarfullu starfsfólki. Í grunnskólunum eru nú 281 stöðugildi við stjórnun, kennslu og ráðgjöf og 97 stöðugildi við önnur störf s.s. umsjónarmenn húsa, skólaliðar, stuðningsfulltrúar og ritarar. Ríflega 400 starfsmenn sitja í þessum 378 stöðugildum. Stöðugildafjöldi starfsmanna er óbreyttur á milli skólaára. Af þessu má leiða að skólahald verður með svipuðu sniði þetta skólaár og verið hefur. Meðaltal nemenda í námshópi er það sama og undanfarin ár eða um 20 nemendur. Þetta á einnig við þegar skoðaður er fjöldi nemenda pr. stöðugildi kennara sem er í raun betri mælikvarði, því algengt er að fleiri en einn kennari komi samtímis að kennslu hvers námshóps. Fjöldi nemenda pr. stöðugildi kennara var ríflega 10 á sl. skólaári og verður eins á þessu.
Lagt fram til kynningar.

6.Samstarf um ADHD vitundarviku 2010

Málsnúmer 2010070040Vakta málsnúmer

Erindi dags. í júní 2010 frá ADHD samtökunum, þar sem óskað er eftir þátttöku í ADHD vitundarviku 20.- 24. september nk. Lagt er til að hver skóli eða stofnun hafi vitundarvikuna með sínu lagi, en áhersla lögð á það að öll umræða og fræðsla skipti hér miklu máli.

Skólanefnd hvetur grunnskólana til þátttöku í vitundarvikunni.

7.Leik- og grunnskólar - stofnanaúttektir

Málsnúmer 2010080091Vakta málsnúmer

Mennta- og menningarmálamálaráðuneyti hefur auglýst að það hyggist láta gera stofnanaúttektir á þremur leikskólum og þremur grunnskólum á haustmisseri 2010, sbr. lög nr. 90/2008 um leikskóla og lög nr. 91/2008 um grunnskóla, gildandi reglugerðir um mat og eftirlit og þriggja ára áætlanir ráðuneytisins um úttektir á þessum skólastigum. Er auglýst eftir sveitarfélögum sem hafa áhuga á því að fram fari úttekt á starfi leik- og/eða grunnskóla innan þeirra, bæði þeirra sem reknir eru af sveitarfélaginu og öðrum aðilum. Afstaða skólastjóra viðkomandi skóla til úttektarinnar þarf að koma fram í umsókninni.

Skólanefnd óskar eftir tilnefningum frá skólastjórum leik- og grunnskóla.

8.Starfsáætlun skólanefndar 2011

Málsnúmer 2010080096Vakta málsnúmer

Á fundinum var farið yfir drög að starfsáætlun málaflokksins og gögn sem henni tengjast s.s. Sameiginlega framtíðarsýn fyrir grunnskólastarfið 2007-2020, sem unnin var í samstarfi FG, SÍ og Sambands íslenskrar sveitarfélaga.

Umfjöllun frestað til næsta fundar.

Fundi slitið.

Fundi slitið - kl. 17:20.