Skólanefnd

22. fundur 22. ágúst 2011 kl. 14:00 - 16:15 Fundarsalur á 2. hæð í Glerárgötu 26
Nefndarmenn
  • Sigurveig S. Bergsteinsdóttir formaður
  • Preben Jón Pétursson
  • Sigrún Björk Sigurðardóttir
  • Helgi Vilberg Hermannsson
  • Sædís Gunnarsdóttir
Starfsmenn
  • Hrafnhildur G Sigurðardóttir leikskólafulltrúi
  • Gunnar Gíslason fræðslustjóri ritaði fundargerð
Dagskrá

1.Kjaraviðræður FL og SNS

Málsnúmer 2011080038Vakta málsnúmer

Farið var yfir stöðu mála í kjaraviðræðum Félags leikskólakennara og samninganefndar sveitarfélaga.

Skólanefnd fagnar undirskrift samninga milli aðila.

2.Tónlistarskólinn á Akureyri - kórskóli

Málsnúmer 2011040146Vakta málsnúmer

Erindi dags. 19. ágúst 2011 frá stjórn Tónlistarskólans á Akureyri þar sem óskað er eftir heimild skólanefndar fyrir námskeiði fyrir söngvara í kórum og stjórn skólans nefnir kórskóla.

Skólanefnd samþykkir erindið fyrir sitt leyti, en bendir á að námskeiðsgjöld verða að standa undir kostnaði.

3.Tónlistarskólinn á Akureyri - samningur við ríki

Málsnúmer 2011040146Vakta málsnúmer

Samkomulag um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, sem undirritað var 13. maí 2011 kynnt og farið yfir drög að úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs vegna þessa samkomulags.

Skólanefnd felur fræðslustjóra og skólastjóra Tónlistarskólans að skoða hvaða áhrif þetta samkomulag hefur á umsóknarferli í skólann og á rekstur hans.

4.Hollvinafélag Húna II - styrkbeiðni

Málsnúmer 2011080032Vakta málsnúmer

Erindi dags. 3. ágúst 2011 frá Hollvinum Húna II, þar sem óskað er eftir styrk að upphæð kr. 2.000.000 til ungmennastarfs, en Hollvinir Húna II hafa í samvinnu við skóladeild Akureyrarbæjar og sérfræðinga frá Háskólanum á Akureyri rekið verkefnið "Frá öngli í maga" fyrir nemendur í 6. bekk undanfarin ár. Markmið verkefnisins er að auka áhuga og skilning þátttakenda á lífríki hafsins, sjómennsku og á hollustu sjávarfangs.

Skólanefnd felur formanni skólanefndar og fræðslustjóra að ganga til samninga við Hollvini Húna II með hliðsjón af umræðum á fundinum.

5.Leikskólagjöld fyrir börn með lögheimili utan Reykjavíkur - breyting á gjöldum

Málsnúmer 2011020147Vakta málsnúmer

Farið yfir breytingar sem Reykjavíkurborg er að gera á innheimtu kostnaðar vegna barna í leikskólum Reykjavíkurborgar sem ekki eiga lögheimili þar.

Skólanefnd samþykkir eftirfarandi:

Skólanefnd Akureyrarbæjar gerði eftirfarandi bókun á fundi sínum þann 7. mars sl. vegna bréfs frá Reykjavíkurborg dags. 21. febrúar sl. þar sem fram kom að Reykjavíkurborg mun ekki fara eftir viðmiðunargjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga, vegna barna sem eiga lögheimili í öðrum sveitarfélögum en eru í leikskólum borgarinnar:

"Skólanefnd telur eðlilegt að þetta verkefni verði leyst á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og óskar því eftir að skólamálanefndin leiti ásættanlegrar lausnar."

Þann 1. júlí kemur svo tölvupóstur frá Leikskólasviði Reykjavíkurborgar þar sem tilkynnt er um að frá 1. júní 2011 innheimti borgin raunkostnað vegna leikskólaplássa þessara barna í stað þess að nota viðmiðunargjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga og að verið sé að útbúa reikninga til Akureyrarbæjar fyrir tímabilið júní og júlí.

Þessum vinnubrögðum mótmælir skólanefnd Akureyrarbæjar harðlega og bendir á að á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga er starfandi hópur sem er að endurskoða viðmiðunarreglur Sambandsins og í honum á Reykjavíkurborg fulltrúa. Það er óásættanlegt með öllu að höfuðborg Íslands komi með þessum hætti fram við önnur sveitarfélög í landinu.

Í röksemdafærslu fyrir þessum breytingum er bent á að mun fleiri börn sem ekki eiga lögheimili í Reykjavík sæki þar leikskóla en börn frá Reykjavík í önnur sveitarfélög. Þetta er miðað við upplýsingar sem fram hafa komið hárrétt en flest þessara barna búa í nágrannasveitarfélögunum. Foreldrar þessara barna hafa val um það hvort þeir sækjast eftir leikskólavist í Reykjavík eða í sínu bæjarfélagi. Eðlilegt er að um slíkt sé samið sérstaklega enda er búið að ganga frá samkomulagi milli Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta á hins vegar alls ekki við um alþingismenn eða námsmenn sem eru tilneyddir að flytja aðsetur sitt til Reykjavíkurborgar, en það er einmitt hlutskipti þeirra fáu sem nýta sér leikskólapláss í Reykjavíkurborg og búa úti á landi.

Skólanefnd fer fram á að Reykjavíkurborg fari að viðmiðunarreglum Sambandsins vegna þeirra barna sem hér um ræðir og sætti sig við það þar til niðurstaða áðurnefnds starfshóps liggur fyrir.

6.Mötuneyti leikskóla

Málsnúmer 2011040002Vakta málsnúmer

Farið yfir stöðuna í vinnu við hagræðingu í rekstri mötuneyta skólanna með hliðsjón af bókun 13 bls. 55 í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands.

Skólanefnd felur fræðslustjóra og leikskólafulltrúa að setja saman aðgerðaáætlun sem byggir á fyrirliggjandi vinnu annars vegar og með hliðsjón af fyrrnefndri bókun hins vegar.

7.Skólavogin - kynning

Málsnúmer 2011020093Vakta málsnúmer

Tölvupóstur dags. 19. ágúst 2011 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þar sem boðið er til kynningar á Skólavoginni og mögulegu samstarfi við Norðmenn. Kynningin verður haldin mánudaginn 5. september nk. á Grand Hótel í Reykjavík.

Skólanefnd samþykkir að senda fulltrúa sína á kynninguna og vegna þess er áætluðum fundi skólanefndar sem vera átti 5. september frestað til 12. september.

8.Stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar - endurskoðun

Málsnúmer 2010040041Vakta málsnúmer

Farið yfir stöðu málsins nú þegar umsagnarfrestur er að renna út og með hliðsjón af kjaraviðræðum sveitarfélaga og FL.

Skólanefnd samþykkir að lengja umsagnarfrest við skýrslu um endurskoðun á stjórnkerfi skóla til 12. september 2011.

Fundi slitið - kl. 16:15.