Skólanefnd

15. fundur 23. ágúst 2010 kl. 14:00 - 16:30 Fundarsalur á 2. hæð í Glerárgötu 26
Nefndarmenn
  • Sigurveig S Bergsteinsdóttir formaður
  • Tryggvi Þór Gunnarsson
  • Þorvaldur Sigurðsson
  • Helgi Vilberg Hermannsson
  • Logi Már Einarsson
Starfsmenn
  • Björg Sigurvinsdóttir embættismaður
  • Hafþór Einarsson embættismaður
  • Gunnar Gíslason fundarritari
Dagskrá

1.Skólabyrjun 2010 í leikskólum

Málsnúmer 2010080027Vakta málsnúmer

Barnafjöldi í leikskólum Akureyrar stefnir í að verða 1085 börn, sem er fjölgun um 21 barn frá árinu áður. Möguleiki er á að bæta við nokkrum eldri börnum þar sem nauðsynlegt er að geta brugðist við ef fjölgun verður í bæjarfélaginu á haustmánuðum.
Alls voru 255 börn í árgangi 2004 sem hættu í leikskóla, sumar eða haust 2010.
Búið er að bjóða foreldrum allra barna sem fædd eru 2008 og fyrr að innrita börn sín í leikskóla og hafa langflestir þegið það boð. Út af standa 5 umsóknir, þar sem foreldrar þeirra barna óska eftir að bíða með innritun þar sem ekki var hægt að bjóða þeim þá skóla sem þeir óskuðu eftir sérstaklega.
Fjölgað var um 4,5 stöðugildi á haustdögum til að bregðast við aukinni eftirspurn í leikskólana. Þannig var hægt að innrita rúmlega 50% barna sem fædd eru á fyrstu mánuðum ársins 2009.
Árið 2009 voru 88,5% starfsmanna í leikskólum með fagmenntun. Þar af voru 78,5% með leikskólakennaramenntun. Árið 2010 stefnir í að fagmenntun starfsmanna nái 90%.
Upplýsingarnar lagðar fram til kynningar.

2.Rekstur leikskóla 2010

Málsnúmer 2010040093Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn var lagt fram til kynningar yfirlit yfir stöðuna í rekstri leikskóla Akureyrarbæjar fyrstu 7 mánuði ársins. Þar kom fram að kostnaður umfram áætlun er um 1% sem skýrist fyrst og fremst af kostnaði við dagvistun barna í heimahúsum og því að dreifiregla áætlaðra útgjalda stemmir ekki að fullu við rauntölur rekstrarkostnaðar í Hlíðarbóli. Annars sýnir yfirlitið að reksturinn er í járnum og þarf að beita miklu aðhaldi áfram svo áætlun standist.

3.Daglegur skólatími leikskóla

Málsnúmer 2009040028Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn voru lögð gögn sem lágu til grundvallar ákvörðun um að stytta daglegan skólatíma leikskóla árið 2009 úr 9,5 tímum í 8,5 tíma. Umræður voru á fundinum um hvernig hefði til tekist og athugasemdir sem gerðar hafa verið við þetta fyrirkomulag við nefndarmenn.

Skólanefnd óskar eftir því við leikskólastjóra og starfsmenn leikskóla að þeir hlusti eftir röddum foreldra og komi á framfæri við skólanefnd.

4.Sérkennsla í leikskólum

Málsnúmer 2010080071Vakta málsnúmer

Farið var yfir stöðuna í sérkennslumálum leikskólanna. Þar kom fram að heimild er til fyrir 15 stöðugildum kennara til að sinna sérkennslunni. Stöðugildunum er skipt miðlægt milli skóla eftir metinni þörf.
Fram kom að talið er brýnt að fá fleiri stöðugildi til að sinna þjónustunni, þar sem nú eru allt að helmingi fleiri mikið fötluð börn sem þarfnast sérstakrar umönnunar allan daginn, en árið 2002 þegar núverandi stöðugildafjöldi var samþykktur.

Skólanefnd samþykkir að vísa málinu til vinnu við gerð fjárhagsáætlunar 2011.

5.Starfsmannafundir í leikskólum

Málsnúmer 2010080074Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn voru lagðar upplýsingar um fjölda og gildi starfsmannafunda í leikskólum. Umræður voru um hvernig brugðist verði við óskum um fjölgun starfsmannafunda, en þeim var fækkað mikið þegar unnið var að lækkun rekstrarkostnaðar á síðastliðnum tveimur árum.

Skólanefnd samþykkir að vísa málinu til vinnu við gerð fjárhagsáætlunar 2011.

6.Sumarlokun í leikskólum 2011

Málsnúmer 2010080072Vakta málsnúmer

Farið var yfir athugasemdir sem bárust á þessu ári vegna þeirrar ákvörðunar að loka leikskólunum í sumar í fjórar vikur í stað tveggja áður. M.a. var farið yfir niðurstöður könnunar meðal foreldra frá því í janúar 2009. Umræður voru um fyrirkomulag sumarleyfa í leikskólum sumarið 2011.

Skólanefnd samþykkir að fela skóladeild að leggja könnun um sumarlokun leikskóla fyrir foreldra og starfsmenn til að kanna viðhorf til mismunandi leiða sem ræddar voru á fundinum.

Tryggvi Þór Gunnarsson yfirgaf fundinn kl. 15.50.

7.Aðlögun í leikskóla

Málsnúmer 2010080070Vakta málsnúmer

Á fundinum var gerð grein fyrir mismunandi fyrirkomulagi á aðlögun barna í leikskóla.

Skólanefnd þakkar góða kynningu.

8.Árholt - lengd viðvera fyrir fötluð börn

Málsnúmer 2010080068Vakta málsnúmer

Undanfarið ár hefur verið í skoðun hvort skynsamlegt væri að sameina rekstur Árholts sem er lengd viðvera fyrir fötluð börn á aldrinum 10-16 ára og Skammtímavistunar sem er á forræði búsetudeildar og er vistunarúrræði fyrir fötluð börn eftir kl. 17.00 á virkum dögum og allan daginn um helgar. Rætt hefur verið við forstöðumenn beggja stofnananna og hafa þeir lýst sig jákvæða gagnvart sameiningu. Ef af þessu verður flyst fjárhagsrammi Árholts yfir til búsetudeildar á nýju fjárhagsári en yfirumsjón rekstursins frá og með 1. september 2010.

Skólanefnd samþykkir fyrir sitt leyti sameiningu Árholts og Skammtímavistunar og felur fræðslustjóra að ganga frá málinu í samráði við aðra málsaðila.

9.Gangbrautarvarsla á Borgarbraut

Málsnúmer 2010080069Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn var lögð beiðni frá Glerárskóla og foreldrum nokkurra barna í Klettaborg um gangbrautarvörslu á Borgarbraut á skólatíma.

Skólanefnd samþykkir að fela skólastjóra Glerárskóla að skipuleggja gangbrautarvörslu á þessum gatnamótum í samráði við foreldra.

Fundi slitið.

Fundi slitið - kl. 16:30.