Skólanefnd

17. fundur 26. maí 2011 kl. 14:00 - 15:50 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Preben Jón Pétursson varaformaður
  • Tryggvi Þór Gunnarsson
  • Helgi Vilberg Hermannsson
  • Logi Már Einarsson
Starfsmenn
  • Hrafnhildur G Sigurðardóttir leikskólafulltrúi
  • Gunnar Gíslason fræðslustjóri ritaði fundargerð
Dagskrá

1.Stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar - endurskoðun

Málsnúmer 2010040041Vakta málsnúmer

Á fundinn mættu fulltrúar í stýrihópi um endurskoðun stjórnkerfis skóla á Akureyri en þeir eru Trausti Þorsteinsson lektor við HA, Birna Svanbjörnsdóttir forstöðumaður Miðstöðvar skólaþróunar HA, Gerður Jónsdóttir fulltrúi minnihluta skólanefndar í hópnum og Kristín Jóhannesdóttir sem starfað hefur með hópnum. Í stýrihópnum voru einnig Preben Jón Pétursson varaformaður skólanefndar, Hrafnhildur Sigurðardóttir leikskólafulltrúi og Gunnar Gíslason fræðslustjóri.
Kynntar voru tillögur hópsins sem fram koma í skýrslu sem lögð var fyrir fundinn. Stýrihópurinn lagði fram tillögur að viðmiðunum sem unnið verður eftir og aðrar tillögur taka mið af. Þessi viðmið eru:
- Að taka tillit til vilja stjórnenda sem fram kom í viðtölunum um að fara varlega í að sameina skóla milli skólastiga nema þá í tilraunaskyni ef stjórnendur skóla sýna vilja til þess.
- Efla faglega og framsækna forystu í skólum Akureyrar og koma á virkri þátttöku og skuldbindingu allra til að efla nám og kennslu.
- Grunnskólar séu heildstæðir, með að jafnaði 450-500 börn, undantekning Oddeyrarskóli með 220 nemendur. (Rekstrarlega hagkvæmar einingar - Vífill Karlsson.)
- Ekki raska hverfaskiptingu með því að sameina grunnskóla.
- Veita miðlægan stuðning við starfsmannamál og aðra rekstrartengda þætti.
- Miða stærð leikskóla við 90-150 börn.

Þá lagði stýrihópurinn fram almennar tillögur sem eru:
- Að ráðinn verði til starfa aðili sem stutt getur skólastjórnendur í starfsmannamálum, aðili með sérfræðiþekkingu í mannauðsstjórnun.
- Samræming í innkaupum og stjórn skólamötuneyta, samræmdur matseðill sem taki mið af gæðastuðlum Lýðheilsustofnunar.
- Leikskólar verði sameinaðir til að falla að gefnum stærðarviðmiðum.
- Skólastjórum verði veitt ráðgjöf til að skerpa á stjórnunarfyrirkomulagi skólanna og skilgreina ábyrgðarhlutverk, starfsskyldur og vinnubrögð, s.s. umsjónarkennara, deildarstjóra og aðstoðarskólastjóra og að sett verði erindisbréf fyrir stjórnendur í leikskólum sambærileg erindisbréfum í grunnskóla.
- Styðja við og koma á teymiskennslu/teymisvinnu í öllum skólum.
- Setja saman teymi skólastjóra leik- og grunnskóla í sama hverfi og styðja það í að vinna markvisst saman að kennslufræðilegum málum að lágmarki vikulega.
- Efla faglega forystu stjórnenda í skólunum
- Skipuleggja faglegan samvinnudag alla skólastjóra á Akureyri mánaðarlega þar sem unnið verður með leiðir til að uppfylla stefnu og sýn sem birtist í skólastefnu Akureyrarbæjar og aðalnámskrá. Þar verði unnið út frá framkvæmdaáætlunum og þróunaráætlunum.
- Stöður deildarstjóra í leikskólum verði lagðar af og hlutverk skólastjóra og aðstoðarskólastjóra sem faglegra forystumanna verði styrkt.

Stýrihópurinn lagði fram eftirfarandi sértækar tillögur:
- Með sameiningu Síðusels og Holtakots yrði til stofnun með 100 rýmum en þar eru nú samtals 97 börn. Til að byrja með getur starfsemin skipst á tvo staði.
- Með sameiningu Pálmholts og Flúða yrði til stofnun með 134 rýmum en þar eru nú samtals 140 börn. Skólarnir eru staðsettir hlið við hlið og auðvelt ætti að vera að koma starfsseminni fyrir í óbreyttu fyrirkomulagi.
- Krógaból er í leiguhúsnæði í Glerárkirkju og verður næstu 10 ár. Lagt er til að byggt verði yfir leikskólann við Síðuskóla og þá verði leikskólinn fyrir 120 börn.
- Í Lundarseli verður fjölgað um 14 börn haustið 2011 (verða þá 84) og verða þau í skála á lóð Lundarskóla og verður þróað enn meira samstarf milli skólanna í tengslum við þá staðsetningu elstu barna Lundarsels.
- Horft er til þess að byggt verði við Síðusel og Lundarsel þannig að í framtíðinni rúmi þeir um 90 - 100 börn hvor um sig.
- Sunnuból er starfrækt í leiguhúsnæði en samningur um það rennur út árið 2013. Ekki er lagt til að framlengja samning heldur verði skólinn lagður niður og börnum deilt á milli Lundarsels og Naustatjarnar en flest þeirra barna sem eru á Sunnubóli nú eru búsett í hverfum sem liggja að Lundarseli og Naustatjörn. Forsenda þess að hægt sé að bæta við börnum á Naustatjörn er samnýting húsnæðis Naustatjarnar og Naustaskóla og náin samvinna skólanna.
- Skólastjórnendur á Naustatjörn og í Naustaskóla hafa lýst áhuga á því að gera tilraun um samþættingu skólanna tveggja eða jafnvel sameiningu. Þegar Naustaskóli var stofnaður var horft sérstaklega til þessa og strax á fyrsta starfsári hans var hluti starfssemi Naustatjarnar hýst innan veggja Naustaskóla og mötuneyti leikskólans nýtt fyrir Naustaskóla. Samstarf skólanna tveggja hefur þróast á farsælan hátt og ástæða til að ætla að það geti þróast enn frekar.
- Hlíðaból er einkarekinn leikskóli og er ekki gert ráð fyrir breytingum þar að sinni, en verið er að skoða stöðu skólans með tilliti til viðmiðana sem hér eru lagðar til.

Skólanefnd samþykkir samhljóða að leggja þessar tillögur fram til umræðu og óskar eftir ábendingum við þær innan þriggja vikna. Skólanefnd felur fræðslustjóra að senda skýrsluna og tillögurnar til rýnihópa sem ákveðið var að fengju þær til umsagnar.

Fundi slitið - kl. 15:50.