Skipulagsráð

365. fundur 15. september 2021 kl. 08:15 - 11:00 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Þórhallur Jónsson formaður
  • Orri Kristjánsson
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Ólöf Inga Andrésdóttir
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Þorvaldur Helgi Sigurpálsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Steinmar Heiðar Rögnvaldsson byggingarfulltrúi
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Þórunn Vilmarsdóttir
  • María Markúsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: María Markúsdóttir Verkefnastjóri skipulagsmála
Dagskrá
Orri Kristjánsson S-lista mætti í forföllum Sindra Kristjánssonar.
Þorvaldur Helgi Sigurpálsson M-lista mætti í forföllum Helga Sveinbjörns Jóhannssonar.

1.Umhverfis- og loftslagsstefna Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2020110192Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að Umhverfis- og loftslagsstefnu Akureyrarbæjar 2020-2030 ásamt tillögu að aðgerðaáætlun.
Skipulagsráð tekur undir bókun bæjarstjórnar frá 7. september 2021 og leggur áherslu á að samþykkt verði ný aðgerðabundin loftslagsstefna fyrir árslok 2021 sem fylgt verður fast eftir á komandi mánuðum og árum.

2.Fjárhagsáætlun skipulagssviðs 2022

Málsnúmer 2021090346Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar drög að fjárhagsáætlun skipulagssviðs fyrir árið 2022.

3.Hvannavellir 10 - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2021090328Vakta málsnúmer

Erindi Haraldar S. Árnasonar dagsett 8. september 2021 fyrir hönd Klettaborgar ehf. þar sem kynnt er tillaga að nýju fjögurra hæða fjölbýlishúsi með inndreginni 5. hæð á lóðinni Hvannavöllum 10. Er gert ráð fyrir 23 íbúðum í húsinu og samtals 23 bílastæðum þar af 16 í bílakjallara.
Skipulagsráð tekur jákvætt í að byggt verði fjölbýlishús á lóðinni í stað núverandi húss. Forsenda uppbyggingar á lóðinni er að unnið verði deiliskipulag fyrir lóðina og næsta nágrenni.

Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs að hefja vinnu við deiliskipulag fyrir svæðið.

4.Hlíðarfjallsvegur - lóð fyrir gagnaver

Málsnúmer 2021090194Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 6. september 2021 þar sem Eyjólfur Magnús Kristinsson fyrir hönd atNorth ehf. leggur inn fyrirspurn um lóð við Hlíðarfjallsveg fyrir byggingu gagnavers. Er óskað eftir að fá úthlutað 1 ha lóð með forgangsrétt á nærliggjandi lóðum til stækkunar.

Umrætt svæði er í aðalskipulagi skilgreint sem athafnasvæði (AT16) sem ætlað er fyrir hreinlega umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Er athafnasvæðið 6,5 ha að stærð.
Skipulagsráð samþykkir að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að hefja vinnu við gerð deiliskipulags sem nær til athafnasvæðis AT16 með það að markmiði að þar verði hægt að úthluta lóðum fyrir byggingu gagnavers í samræmi við meðfylgjandi erindi.


5.Hofsbót 2 - útboð lóðar

Málsnúmer 2021060541Vakta málsnúmer

Á fundi bæjarráðs þann 2. september 2021 var samþykkt tilboð Boxhus ehf. í byggingarrétt lóðarinnar Hofsbótar 2.
Skipulagsráð staðfestir að lóðinni Hofsbót 2 verður úthlutað til Boxhus ehf. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

6.Hofsbót 2 - fyrirspurn til skipulagssviðs vegna fjölgun íbúða

Málsnúmer 2021090243Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 7. september 2021 þar sem SS Byggir ehf. fyrir hönd Boxhus ehf. óskar eftir að gerð verði breyting á deiliskipulagi fyrir lóð Hofsbótar 2. Er óskað eftir að heimilað verði að vera með íbúðir á hæðum 2, 3 og 4 þannig að fjöldi íbúða verði allt að 16 talsins en ekki 6 eins og gert er ráð fyrir í gildandi skilmálum.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og heimilar umsækjanda að útbúa tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samráði við sviðsstjóra skipulagssviðs. Breytingin verði unnin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er samþykkt að hún verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga fyrir eigendum Hofsbótar 4 og Strandgötu 3, 4, 7, 9, 11 og 13.

7.Klettaborg 4 - umsókn um breytt skipulag vegna lóðarstækkunar

Málsnúmer 2021090280Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 7. september 2021 þar sem Trausti Bergland Traustason sækir um stækkun lóðar nr. 4 við Klettaborg vegna byggingar bílgeymslu. Meðfylgjandi er skýringarmynd.
Skipulagsráð samþykkir stækkun lóðarinnar en ekki er tekin afstaða til byggingar bílskúrs fyrr en teikningar liggja fyrir.


8.Dalvíkurlína 2 - tillaga að legu jarðstrengs

Málsnúmer 2021090298Vakta málsnúmer

Erindi Önnu Siggu Lúðvíksdóttur dagsett 8. september 2021 fyrir hönd Landsnets hf. þar sem kynnt er tillaga að legu Dalvíkurlínu 2 í 66 kv jarðstreng frá tengivirki á Rangárvöllum til norðurs að Hörgársveit. Er miðað við að strengurinn verði til að byrja með í nágrenni við legu núverandi 132 kv háspennustrengs sem liggur að Becromal en fer síðan beint til norðurs fram hjá Mýrarlóni og að Hrappsstaðaá, þaðan til vesturs að Hlíðarvegi og áfram norður með veginum.

Er óskað eftir viðbrögðum frá Akureyrarbæ við tillögunni.
Skipulagsráð gerir á þessu stigi ekki athugasemdir við fyrirliggjandi tillögu að legu strengsins. Bent er á að eftir er að kynna breytingu á aðalskipulagi vegna strengsins fyrir íbúum og öðrum hagsmunaaðilum.

9.Matthíasarhagi 6 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2021090263Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 7. september 2021 þar sem Einar Guðmundsson sækir um lóð nr. 6 við Matthíasarhaga. Fram kemur að áhugi er á að gerð verði lítil íbúð á neðri hæð sem verði sér fasteign. Meðfylgjandi er yfirlýsing viðskiptabanka.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda. Ekki er samþykkt að gera ráð fyrir skiptingu hússins í tvö fastanúmer.

10.Naustagata 13 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2021090270Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 7. september 2021 þar sem Kista byggingarfélag ehf. sækir um lóð nr. 13 við Naustagötu. Meðfylgjandi er yfirlýsing viðskiptabanka.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

11.Margrétarhagi 24 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2021081228Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 27. ágúst 2021 þar sem María Hólmfríður Marinósdóttir og Halldór Halldórsson sækja um lóð nr. 24 við Margrétarhaga. Meðfylgjandi er yfirlýsing viðskiptabanka.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

12.Austurbrú 10 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2021090386Vakta málsnúmer

Breyting á deiliskipulagi fyrir suðurhluta Drottningarbrautarreits tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 27. ágúst 2021 þar sem meðal annars er gert ráð fyrir breytingum á lóðum á svæðinu. Er lagt fram erindi Jens Sandholt móttekið 8. september 2021 fyrir hönd Pollsins ehf. þar sem sótt er um lóðina Austurbrú 10 (Austurbrú 10-18) sem er 3.942 fm að stærð.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.


13.Hafnarstræti 80 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2021090388Vakta málsnúmer

Breyting á deiliskipulagi fyrir suðurhluta Drottningarbrautarreits tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 27. ágúst 2021 þar sem meðal annars er gert ráð fyrir breytingum á lóðum á svæðinu. Er lagt fram erindi Jens Sandholt móttekið 8. september 2021 fyrir hönd Pollsins ehf. þar sem sótt er um lóðina Hafnarstræti 80 sem er 835 fm að stærð.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.


14.Brekkugata 5 - umsókn um leyfi fyrir breyttri notkun

Málsnúmer 2021081068Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 24. ágúst 2021 þar sem Arnar Gauti Finnsson fyrir hönd Frænka B5 ehf. sækir um leyfi fyrir breyttri notkun húss nr. 5 við Brekkugötu. Fyrirhugað er að opna snyrtistofu. Meðfylgjandi er teikning.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við breytta notkun Brekkugötu 5 og vísar málinu til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

15.Ægisgata 25 - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2021081354Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 30. ágúst 2021 þar sem Haraldur Sigmar Árnason leggur inn fyrirspurn varðandi byggingu bílgeymslu á lóð nr. 25 við Ægisgötu. Meðfylgjandi er teikning eftir Harald S. Árnason og samþykki nágranna.
Ekkert deiliskipulag er í gildi á svæðinu. Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við tillöguna og samþykkir að vísa henni til afgreiðslu byggingarfulltrúa. Ekki er talin þörf á að grenndarkynna tillöguna þar sem fyrir liggur samþykki eigenda aðliggjandi eigna.


16.Hríseyjargata 9 - fyrirspurn til skipulagssviðs vegna viðbyggingar

Málsnúmer 2021090003Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 1. september 2021 þar sem Hildur Ríkharðsdóttir leggur inn fyrirspurn varðandi fyrirhugaða viðbyggingu við hús á lóð nr. 9 við Hríseyjargötu. Viðbyggingin kemur í stað annarrar minni sem er illa farin. Meðfylgjandi eru skýringarmyndir og greinargerð.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og heimilar umsækjanda að láta vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samráði við sviðsstjóra skipulagssviðs. Breytingin verði unnin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er samþykkt að hún verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga.

17.Hafnarstræti 90 - umsókn um byggingarleyfi fyrir veitingarekstur

Málsnúmer 2021090223Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 7. september 2021 þar sem Valbjörn Ægir Vilhjálmsson fyrir hönd Arnfinns ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir breytingum í húsi nr. 90 við Hafnarstræti. Fyrirhugað er að opna veitingarekstur. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Valbjörn Ægi Vilhjálmsson.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemdir við tillögu að breyttri notkun hússins og vísar málinu til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

18.Glerárlón - umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir hreinsun inntakslóna

Málsnúmer 2021090086Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 2. september 2021 þar sem Franz Viðar Árnason fyrir hönd Fallorku ehf. sækir um framkvæmdaleyfi fyrir hreinsun inntakslóna við Glerárvirkjun. Í aðalskipulagi er svæðið merkt sem E1 og kemur fram að gert sé ráð fyrir að efnistaka sé u.þ.b. 2.000 rúmmetrar á ári.
Þar sem framkvæmdin er í samræmi við gildandi aðalskipulag samþykkir skipulagsráð útgáfu framkvæmdaleyfis til samræmis við innsent erindi. Er sett sem skilyrði að framkvæmdin verði í samræmi við 24. gr. lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ, þar sem fram koma ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

19.Torfunefsbryggja - umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir endurbótum

Málsnúmer 2021081162Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 26. ágúst 2021 þar sem Hafnasamlag Norðurlands bs. sækir um framkvæmdaleyfi fyrir endurbyggingu og endurbótum á Torfunefsbryggju til samræmis við gildandi deiliskipulag. Felur það í sér að hafnarkantur verður um 20 m austar en núverandi kantur með tilheyrandi stækkun á bryggju.
Meirihluti skipulagsráðs samþykkir að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir endurbótum á Torfunefsbryggju í samræmi við gildandi deiliskipulag. Eftirfarandi skilyrði eru sett fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins:

Framkvæmdin skal vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ, þar sem fram koma ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

Arnfríður Kjartansdóttir V-lista situr hjá við afgreiðslu málsins.


20.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2021

Málsnúmer 2020120557Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 829. fundar, dagsett 2. september 2021, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 9 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

21.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2021

Málsnúmer 2020120557Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 828. fundar, dagsett 26. ágúst 2021, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:00.