Skipulagsráð

353. fundur 24. febrúar 2021 kl. 08:00 - 10:55 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Þórhallur Jónsson formaður
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Orri Kristjánsson
  • Ólöf Inga Andrésdóttir
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Margrét Mazmanian Róbertsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteisson byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Oddeyri - breyting á aðalskipulagi 2018-2030

Málsnúmer 2019090318Vakta málsnúmer

Tillaga lögð fram að lokinni auglýsingu. Tillagan var auglýst frá 6. janúar til 17. febrúar 2021 og bárust 95 athugasemdabréf auk umsagna frá Minjastofnun, Vegagerðinni, umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar, hverfisnefnd Oddeyrar, Hafnasamlagi Norðurlands og Hörgársveit.
Afgreiðslu frestað.

2.Miðbær - uppfærsla deiliskipulags

Málsnúmer 2017010274Vakta málsnúmer

Lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar. Hafa verið gerðar ýmsar breytingar á tillögunni til að koma til móts við athugasemdir og umsagnir sem bárust við drög að tillögu sem kynnt var í desember sl. auk þess sem niðurstaða vindgreiningar hefur haft áhrif á útfærslu byggingarreita, gróðurskipulags og skilmála.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Óseyri 2 og 2A - umsókn um breytt skipulag

Málsnúmer 2021020669Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 12. febrúar 2021 þar sem Ingvar Ívarsson fyrir hönd Finns ehf. sækir um leyfi fyrir breyttu deiliskipulagi á lóð nr. 2 og 2A við Óseyri. Breytingin felur í sér m.a. breytt lóðarmörk, niðurfellingu byggingarreits á lóð 2A og stækkun byggingarreits á lóð nr. 2.
Skipulagsráð samþykkir breytingu á deiliskipulagi sem felur í sér breytingu á lóðarmörkum og afmörkun á byggingarreit á lóð Óseyrar 2 í stað Óseyrar 2A með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að mati ráðsins og samþykkir að hún verði grenndarkynnt lóðarhöfum Óseyrar 1 og 1A. Áður þarf að gera minniháttar lagfæringar á gögnum sem fela í sér að sett verði inn kvöð um girðingu á lóðarmörkum að Glerá og gangstétt við Óseyri í samráði við sviðsstjóra skipulagssviðs.

4.Hafnarstræti 37 - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2020121426Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 28. desember 2020 þar sem Jón Stefán Hjaltalín fyrir hönd Guðmundar Guðmundssonar, Helgu Gunnhildar Ásgeirsdóttur, Viktors Þórissonar og Huldu Gestsdóttur óskar eftir niðurfellingu á byggingarskyldu á lóð nr. 37 við Hafnarstræti. Húsið sem þar stóð brann 20. maí 2020.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við niðurfellingu á byggingarskyldu.

5.Hafnarstræti 37 - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2021020501Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. febrúar 2021 þar sem Friðrikka Harpa Ævarsdóttir fyrir hönd dánarbús Jóns Vilbergs Harðarsonar óskar eftir niðurfellingu á byggingarskyldu á lóð nr. 37 við Hafnarstræti. Húsið sem þar stóð brann 20. maí 2020.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við niðurfellingu á byggingarskyldu.

6.Nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri

Málsnúmer 2018100200Vakta málsnúmer

Formaður skipulagsráðs fór yfir stöðu mála varðandi uppbyggingu heilsugæslustöðva á Akureyri.
Orri Kristjánsson S-lista og Arnfríður Kjartansdóttir V-lista óska bókað:

Þann 18. febrúar sl. bókaði meirihluti bæjarráðs Akureyrarbæjar á fundi sínum að skoða skyldi aðrar staðsetningar en Skarðshlíð 20 fyrir heilsugæslustöð norður sem valin var í staðarvalsgreiningu. Niðurstaða meirihluta bæjarráðs var að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að koma þessum skilaboðum áleiðis til heilbrigðisráðuneytisins. Staðarvalsgreining þessi var langt og flókið ferli en um leið vandað og hafa forsvarsmenn HSN lýst yfir ánægju með umrædda staðsetningu.

Skipulagsvinna miðuð við að heilsugæslustöð rísi á þeim reit er hafin og fullkomlega óskiljanlegt er hvers vegna bæjarráð tekur fram fyrir hendurnar á skipulagsráði á þennan hátt. Í bókun sinni tekur bæjarráð fram að þessi viðsnúningur eigi ekki að tefja málið. Draga verður þá fullyrðingu í efa þar sem opið auglýsingaferli mun taka við með tilheyrandi tíma og viðbótar skipulagsvinnu sem mun augljóslega tefja málið enn frekar. Þetta útspil meirihluta bæjarráðs sætir mikill furðu og má telja það í beinni andstöðu gegn hagsmunum bæjarbúa þar sem mikilvægt er að nýjar heilsugæslustöðvar verði teknar í notkun á Akureyri við fyrsta mögulega tækifæri. Að því er virðist liggja engar málefnalegar ástæður að baki þessari vegferð meirihluta bæjarráðs.

Meirihluti skipulagsráðs telur að ákvörðun bæjarráðs muni ekki tefja ferli uppbyggingar á heilsugæslustöð norður.

7.Oddeyrargata 4B - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2021020350Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 7. febrúar 2021 þar sem Einar Ólafur Einarsson leggur inn fyrirspurn varðandi skiptingu lóðar og húsa á lóð nr. 4B við Oddeyrargötu. Áhugi er fyrir að kaupa aðra bygginguna á lóð 4B ásamt lóðarhluta þar fyrir framan og bæta því við lóð nr. 4.
Skipulagsráð samþykkir ekki breytingu á lóðarmörkum þar sem hún felur í sér takmörkun á aðgengi að húsi á lóð 4B, takmarkar byggingarmöguleika á lóðinni auk þess sem ekki yrði lengur til staðar bílastæði fyrir þá lóð.

8.Hafnarstræti 108 - fyrirspurn vegna íbúða

Málsnúmer 2021020380Vakta málsnúmer

Byggingarfulltrúi óskar umsagnar skipulagsráðs um erindi dagsett 8. febrúar 2021 þar sem Gunnlaugur Björn Jónsson fyrir hönd H108 ehf. leggur inn fyrirspurn varðandi breytta notkun á 2., 3. og þakhæð húss nr. 108 við Hafnarstræti. Fyrirhugað er að breyta hæðunum úr gistiheimili í íbúðir.
Að mati skipulagsráðs samræmist það bæði aðal- og deiliskipulagi að breyta notkun 2., 3. og þakhæðar úr gistiheimili í íbúðir. Er umsókn um byggingarleyfi vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa þegar hún hefur borist.

9.Ráðhústorg 1, 2. hæð - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2021020406Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 8. febrúar 2021 þar sem Guðni Dagur Kristjánsson fyrir hönd D7 ehf. leggur inn fyrirspurn varðandi íbúð á 2. hæð í húsi nr. 1 við Ráðhústorg, hvort fyrirstaða sé fyrir því að sækja um rekstrarleyfi fyrir gistirými í íbúð.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við að íbúð á 2. hæð í húsi nr. 1 við Ráðhústorg verði breytt til samræmis við erindi. Samræmist það bæði ákvæðum aðal- og deiliskipulags svæðisins. Sækja þarf um byggingarleyfi fyrir breytingu á notkun til byggingarfulltrúa með samþykki meðeigenda.

10.Hrísey - fyrirspurn til skipulagssviðs vegna lóða

Málsnúmer 2021020729Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 16. febrúar 2021 þar sem Björn Grétar Baldursson leggur inn fyrirspurn varðandi lóð fyrir atvinnuhúsnæði í Hrísey. Fyrirhugað er að nýta húsnæðið undir verkefnið Hrísey eimingarhús.
Skipulagsráð vísar erindinu til Akureyrarstofu og skipulagssviðs til nánari skoðunar.

11.Auglýsingaskilti á biðskýlum - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2021020858Vakta málsnúmer

Lögð fram fyrirspurn Hrafns Svavarssonar dagsett 18. febrúar 2021, f.h. Strætisvagna Akureyrar, um heimild til að vera með auglýsingaskjái á nýjum strætóskýlum sem fyrirhugað er að setja upp.
Meirihluti skipulagsráðs felur sviðsstjóra skipulagssviðs að leggja fram tillögu að breytingu á grein 2.3. í fyrirliggjandi reglum um skilti og auglýsingar í lögsögu Akureyrarbæjar.

Arnfríður Kjartansdóttir V-lista greiðir atkvæði á móti og óskar bókað:

Auglýsingaskilti á biðskýlum strætó geta skapað óöryggi í umferðinni auk þess að vera til lítillar prýði og hvetja til óþarfa neyslu.

12.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2021

Málsnúmer 2020120557Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 800. fundar, dagsett 5. febrúar 2021, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 16 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

13.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2021

Málsnúmer 2020120557Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 801. fundar, dagsett 11. febrúar 2021, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 7 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 10:55.