Skipulagsráð

309. fundur 13. febrúar 2019 kl. 08:00 - 11:05 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Helgi Snæbjarnarson
  • Ólína Freysteinsdóttir
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Þórhallur Jónsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Margrét Mazmanian Róbertsdóttir
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Athafnalóðir í Týsnesi - byggingarhæfi og lóðaúthlutun

Málsnúmer 2019020158Vakta málsnúmer

Tómas Björn Hauksson frá umhverfis- og mannvirkjasviði kom og kynnti fyrirhugaðar framkvæmdir við athafnalóðir í Týsnesi.
Skipulagsráð samþykkir að gert verði ráð fyrir að athafnalóðir í Týsnesi verði byggingarhæfar í lok ársins 2019.

2.Lóðir í deiliskipulagi við Melgerðisás og Skarðshlíð - úthlutunaraðferð

Málsnúmer 2019010116Vakta málsnúmer

Lagt fram að nýju minnisblað sviðsstjóra skipulagssviðs dagsett 10. janúar 2019 varðandi undirbúning fyrir úthlutun lóða sem afmarkaðar eru í nýsamþykktu deiliskipulagi við Melgerðisás og Skarðshlíð.
Með vísun í viljayfirlýsingu Akureyrarbæjar og Búfesti frá 5. janúar 2018 leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að Búfesti fái til úthlutunar, án auglýsingar, lóðir undir parhús og fjögurra íbúða fjölbýli eins og þær eru afmarkaðar í deiliskipulagi Melgerðisáss og Skarðshlíðar. Er slík úthlutun heimil sbr. ákvæði í gr. 2.4 í reglum um úthlutun lóða.


Varðandi fjölbýlishúsalóð fyrir 46-60 íbúðir þá leggur skipulagsráð til við bæjarráð að lóðin verði boðin út þar sem hæstbjóðandi fái lóðinni úthlutað.

Arnfríður Kjartansdóttir V-lista óskar bókað að hún sé ekki sammála því að notuð verði útboðsaðferð við úthlutun fjölbýlishúsalóðarinnar.

3.Niðurstöður átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði

Málsnúmer 2019010312Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar niðurstöður átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði sem fram koma í skýrslu dagsettri 19. janúar 2019. Eru þar settar fram 40 tillögur sem, ef koma til framkvæmda, geta haft áhrif á skipulagsvinnu sveitarfélagsins, úthlutun lóða og starfsemi skipulagssviðs.

4.Göngu- og hjólastígur milli Lónsbakkahverfis og Akureyrar

Málsnúmer 2018110144Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsráðs 28. nóvember 2018 var tekið fyrir erindi Hörgársveitar um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu hjóla- og göngustígs milli Lónsbakkahverfis og Akureyrar. Gerði skipulagsráð ekki athugasemd við útgáfu leyfisins með fyrirvara um umsögn Vegagerðarinnar. Liggur nú fyrir umsögn dagsett 25. janúar 2019 þar sem ekki er mælt með að leggja stíginn á þessum stað.
Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs að vera í samráði við fulltrúa Hörgársveitar um framhald málsins.

5.Glerárvirkjun II - breytingar á deiliskipulagi vegna stíga

Málsnúmer 2019010088Vakta málsnúmer

Lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingum á deiliskipulagi Glerárvirkjunar II í samræmi við beiðni Fallorku ehf., kt. 600302-4180, sem tekin var fyrir á fundi skipulagsráðs 12. desember 2018. Eru breytingarnar settar fram á þremur uppdráttum og fela í sér breytingu á legu og gerð göngustíga, staðsetningu bílastæðis/áningarstaðar, lagfæringu á legu aðrennslispípu til samræmis við verkhönnun og endanlega legu. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi skipulagsráðs þann 16. janúar 2019 og svo aftur 30. janúar 2019.
Að mati skipulagsráðs er um óverulega breytingu að ræða og samþykkir hana með vísun í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Ekki er talin þörf á grenndarkynningu sbr. heimild í 2. ml. 3. gr. 44. gr. laganna.

6.Glerárdalur - breyting á deiliskipulagi akstursíþrótta- og skotsvæðis

Málsnúmer 2019010089Vakta málsnúmer

Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á deiliskipulagi akstursíþrótta- og skotsvæðis á Glerárdal í samræmi við beiðni Fallorku ehf., kt. 600302-4180, sem var frestað á fundi skipulagsráðs 30. janúar 2019. Í breytingunni felst að lega göngustígs breytist lítillega á um 1500 m kafla, öryggismörk skotsvæðis minnka auk minniháttar breytinga á legu aðrennslispípu til samræmis við verkhönnun og endanlega legu.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að breytingin verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

7.Rangárvellir 4 - umsókn um stækkun lóðar

Málsnúmer 2018010252Vakta málsnúmer

Lagðar fram að nýju tvær tillögur að breytingu á deiliskipulagi iðnaðar- og athafnasvæðis á Rangárvöllum sem ná til lóða 3, 4 og 6. Tillögurnar voru sendar til umsagnar lóðarhafa á Rangárvöllum og hverfisráðs Giljahverfis. Liggja nú fyrir umsagnir Landsnets dagsett 15. janúar 2019, SS Byggis dagsett 22. janúar 2019, hverfisráðs Giljahverfis dagsett 25. janúar 2019, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra dagsett 23. janúar 2019, Rarik dagsett 4. febrúar 2019 og Norðurorku dagsett 6. febrúar 2019. Þá liggur einnig fyrir tölvupóstur frá Landsneti dagsettur 23. janúar 2019 þar sem fram kemur að verið er að skoða með ráðgjafa hvaða kröfur þurfi að gera til að tryggja hagsmuni fyrirtækisins.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu þar til fyrir liggur hvaða kröfur Landsnet mun gera.

8.Möðruvallastræti 9 - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2018070373Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Möðruvallarstræti 9. Breytingin felst í að gert er ráð fyrir að byggður verði nýr 37,5 m² bílskúr í stað núverandi bílskúrs sem er 21,8 m².
Að mati skipulagsráðs er um óverulega breytingu að ræða skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og er samþykkt að grenndarkynna hana skv. 44. gr. laganna.

9.Afsláttur af gatnagerðargjöldum vegna atvinnuhúsnæðis

Málsnúmer 2019010215Vakta málsnúmer

Hafþór Helgason kom í viðtalstíma bæjarfulltrúa. Er með fyrirtækið HHS verktakar sem nýlega fékk úthlutað lóð undir atvinnuhúsnæði. Spyr hvort ekki sé möguleiki að fá afslátt af gatnagerðargjöldum vegna jarðvegsdýptar, sambærilegt og hægt er að sækja um varðandi íbúðahúsnæði. Vísaði bæjarráð málinu til skipulagsráðs 24. janúar 2019.
Skipulagsráð hafnar ósk um afslátt á gatnagerðargjöldum og vísar í gjaldskrá gatnagerðargjalda í Akureyrarkaupstað og gr. 5.3 í gjaldskránni þar sem fjallað er um sérstaka lækkun vegna jarðvegsdýpis.

10.Jafnréttisstefna - skipan þróunarleiðtoga

Málsnúmer 2018110171Vakta málsnúmer

Eitt af verkefnum Jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar er að skipaðir verði þróunarleiðtogar á hverju sviði bæjarins og eins innan ráða og stjórna.
Skipulagsráð frestar erindinu.

11.Halldóruhagi 6A, 6B, 8A, 8B - umsókn um breytt húsnúmer

Málsnúmer 2019020001Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 30. janúar 2019 þar sem Bergfesta ehf., kt. 610515-0370, sækir um að húsnúmerum verði breytt í Halldóruhaga. Halldóruhagi 6A verði 6, 6B verði 8, 8A verði 10, 8B verði 12.
Skipulagsráð samþykkir breytingu á húsnúmerum lóða nr 4, 6 og 8, þar sem gert er ráð fyrir tveimur húsum á öllum þessum lóðum, þannig að hvert hús fái sitt númer og lóðirnar fái því heitin Halldóruhagi 4-6, Halldóruhagi 8-10 og Halldóruhagi 12-14.

12.Goðanes 5 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2019010387Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 30. janúar 2019 þar sem Björn Þór fyrir hönd BF Byggingar ehf., kt. 621116-2230, sækir um lóð nr. 5 við Goðanes. Meðfylgjandi er yfirlýsing viðskiptabanka.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

13.Jaðarsíða 2 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2019010360Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 29. janúar 2019 þar sem Stefán Þór Guðmundsson sækir um lóð nr. 2 við Jaðarsíðu. Meðfylgjandi er yfirlýsing viðskiptabanka.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

14.Furuvellir 18 - umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og tveimur tönkum

Málsnúmer 2019020068Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi dagsett 1. febrúar 2019 þar sem Ágúst Hafsteinsson fyrir hönd Coca-cola European Partners ehf., kt. 470169-1419, sækir um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við hús nr. 18 við Furuvelli. Viðbyggingin er tveir nýir stáltankar ásamt viðbyggingu við austurhlið vinnslusals. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Ágúst Hafsteinsson.

Byggingarfulltrúi vísaði málinu til umsagnar skipulagsráðs þar sem breytingin varðar útlit og form hússins, deiliskipulag liggur ekki fyrir.
Að mati skipulagsráðs er framkvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar sbr. ákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Ekki er þó talin þörf á grenndarkynningu sbr. heimild í 2. ml. 3. mgr. 44. gr. laganna.

Skipulagsráð hefur því fyrir sitt leyti ekkert við fyrirhuguð áform að athuga.

15.Hamarstígur 25 - umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2019020028Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. febrúar 2019 þar sem Sólveig Ingunn Skúladóttir sækir um byggingarleyfi fyrir breytingum á þaki og risi á húsi sínu við Hamarstíg 25. Meðfylgjandi er teikning sem ætluð er til grenndarkynningar.

Byggingarfulltrúi vísaði málinu til umsagnar skipulagsráðs þar sem breytingin varðar útlit og form hússins, deiliskipulag liggur ekki fyrir.
Skipulagsráð samþykkir að grenndakynna umsóknina í samræmi við 44. gr. skipulagslaga.

16.Spónsgerði 1, 3 og 5 - hljóðvist við íbúðarhús

Málsnúmer 2018100116Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. september 2018 þar sem Lilja Filippusdóttir fyrir hönd eigenda íbúðarhúsa í Spónsgerði 1, 3 og 5 óskar eftir að gerð verði umferðarmæling við götuna og samstarfi við Akureyrarbæ um uppsetningu hljóðvarna ef mælingar gefa tilefni til. Í umsókninni er vitnað í skýrslu Akureyrarbæjar frá 2015, aðgerðaráætlun gegn hávaða 2015-2020.


Í kjölfar erindisins var ákveðið að fara í umferðarmælingu á svæðinu og var hún gerð á tímabilinu 8. janúar til 4. febrúar 2019.
Helgi Sveinbjörn Jóhannsson M-lista bar upp vanhæfi sitt og var það samþykkt. Vék hann af fundi við umræður og afgreiðslu málsins.

Niðurstöður umferðarmælingar sem farið var í nú í byrjun árs 2019 gefa til kynna að fjöldi bíla sem aka um Þingvallastræti séu aðeins færri en skýrslan gerði ráð fyrir, meðalhraði töluvert lægri auk þess sem hlutfall stórra bíla er einnig lægra. Því má gera ráð fyrir að hávaði sé minni en skýrsla um aðgerðaráætlun gegn hávaða gerir ráð fyrir.

Að mati skipulagsráðs gefa niðurstöður mælinga því ekki tilefni til aðkomu Akureyrarbæjar að hljóðvörnum en felur sviðsstjóra skipulagssviðs að ræða við lóðarhafa um möguleika þeirra til hljóðvarna.

17.Úrlausn misræmis á skráningu milli fasteignaskrár og húsaskrár þjóðskrár

Málsnúmer 2018090058Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Þjóðskrár Íslands dagsett 31. janúar 2019 varðandi misræmi milli fasteignaskrár og húsaskrár í þjóðskrá.

Fundi slitið - kl. 11:05.