Skipulagsnefnd

206. fundur 24. júní 2015 kl. 08:00 - 11:02 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Helgi Snæbjarnarson
  • Ólína Freysteinsdóttir
  • Stefán Friðrik Stefánsson
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson verkefnisstjóri
Dagskrá
Edward H. Huijbens V-lista boðaði forföll og einnig varamaður hans Vilberg Helgason.

Formaður bar upp ósk um að fá að taka fyrir lið nr. 8, Bílastæði - sérmerking fyrir bíla á innlendu eldsneyti, lið nr. 18, Skipulagsstjóri - uppsögn úr starfi og lið nr. 20 - Afgreiðslur skipulagsstjóra 2015 sem ekki voru í útsendri dagskrá og var það samþykkt.

1.Gatnagerðargjöld - endurskoðun 2015

Málsnúmer 2015030040Vakta málsnúmer

Formaður skipulagsnefndar lagði fram tillögu að breytingu á gjaldskrá gatnagerðargjalda sem tekur m.a. mið af gjaldflokkum sem fram koma í lögum um gatnagerðargjöld nr. 153/2006.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu á gjaldskrá gatnagerðargjalda verði samþykkt og bæjarlögmanni falið að annast gildistöku hennar með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

2.Kortlagning hávaða - aðgerðaráætlun

Málsnúmer 2010010129Vakta málsnúmer

Aðgerðaráætlun gegn hávaða, Akureyrarbær 2015-2020, var auglýst í Dagskránni 6. maí með athugasemdafresti til 10. júní 2015. Gögnin voru aðgengileg á heimasíðu skipulagsdeildar Akureyrarbæjar og í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar, Geislagötu 9.

Ein athugasemd barst frá Oddi Ólafssyni, dagsett 8. júní 2015.

Hann er eigandi Strandgötu 19B og upplýsir að mesta truflunin og hávaðamengunin sé vegna hröðunar bíla sem taka af stað á gatnamótum Strandgötu og Glerárgötu til norðurs. Í athugasemdinni, sem er í 11 liðum, eru tilgreindar lausnir sem gætu dregið úr hraða og hávaðamengun.
Skipulagsnefnd þakkar innsenda athugasemd og vísar henni áfram til nánari skoðunar þegar tekin verður ákvörðun um framkvæmdir við úrbætur á Glerárgötunni sem vinna þarf í samráði við Vegagerðina.


Skipulagsnefnd samþykkir fyrir sitt leyti aðgerðaráætlunina og vísar henni til afgreiðslu bæjarstjórnar.

3.Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018, breyting vegna frístundabyggðar við Búðargil

Málsnúmer 2015020045Vakta málsnúmer

Skipulagslýsing var auglýst 5. mars 2015 í Akureyri Vikublaði. Drög að aðalskipulagsbreytingunni voru kynnt 25. mars 2015.

Skipulagsstofnun heimilaði auglýsingu á aðalskipulagsbreytingunni í bréfi dagsettu 15. apríl 2015.

Tillagan var auglýst í Lögbirtingarblaðinu, Dagskránni og Fréttablaðinu þann 29. apríl með athugasemdafresti til 10. júní 2015. Gögnin voru aðgengileg á heimasíðu skipulagsdeildar Akureyrarbæjar, í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og hjá Skipulagsstofnun. Samhliða voru auglýstar deiliskipulagsbreytingar fyrir Búðargil og fyrir Innbæ.

Engin athugasemd var gerð.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.

4.Búðargil, Sunnutröð 2 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2014090264Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Búðargils og deiliskipulagi Innbæjar var auglýst í Lögbirtingarblaðinu og Dagskránni þann 29. apríl með athugasemdafresti til 10. júní 2015. Gögnin voru aðgengileg á heimasíðu skipulagsdeildar Akureyrarbæjar, í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og hjá Skipulagsstofnun. Samhliða var auglýst aðalskipulagsbreyting fyrir frístundabyggðina við Búðargil. Engin athugasemd barst.

Þrjár umsagnir bárust:

1) Norðurorka, dagsett 13. maí 2015.

Væntanlegar nýbyggingar virðast vera þétt við regnvatnslögn á suðurenda svæðisins. Þurfi að færa lögnina ber sá kostnaðinn er óskar eftir breytingunni. Einnig er bent á að komi til þess að styrkja verði lagnir á svæðinu, lendir sá kostnaður á lóðarhafa.

2) Sjúkrahúsið á Akureyri, dagsett 20. maí 2015.

Engin athugasemd er gerð.

3) Minjastofnun Íslands, dagsett 15. júní 2015.

Engin athugasemd er gerð en athygli er vakin á lögum um menningarminjar.
Skipulagsnefnd tekur undir ábendingu Norðurorku varðandi hugsanlega færslu á lögnum og að afleiddur kostnaður skuli greiddur af lóðarhafa.

Aðrar umsagnir gefa ekki tilefni til svars.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillögurnar verði samþykktar og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku þeirra.

5.Lögmannshlíð - skipulagslýsing

Málsnúmer 2015040106Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að skipulagslýsingu "Lögmannshlíð - kirkjugarður".

Lýsingin dagsett 24. júní 2015 er unnin af Ómari Ívarssyni skipulagsfræðingi hjá Landslagi ehf., sem kom á fundinn og kynnti tillöguna.

Í bókun skipulagsnefndar 29. apríl 2015 var veitt heimild til að gera deiliskipulag af svæðinu eins og það er skilgreint í aðalskipulagi.

Í samræmi við bókun nefndarinnar frá 10. júní var gerð breyting á aðalskipulagi sem samþykkt var í bæjarstjórn 16. júní 2015.
Skipulagsnefnd þakkar Ómari Ívarssyni fyrir kynninguna.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði kynnt almenningi og leitað verði umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um hana.

6.Melgerðisás - skipulagslýsing

Málsnúmer 2015050023Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram skipulagslýsingu vegna vinnslu deiliskipulags af svæði sem afmarkast af Hörgárbraut, Skarðshlíð og Melgerðisás. Lýsingin er dagsett 24. júní 2015 og unnin af Gísla Kristinssyni arkitekt sem kom á fundinn og kynnti hana.
Skipulagsnefnd þakkar Gísla fyrir kynninguna.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði kynnt almenningi og leitað verði umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um hana.

Einnig felur skipulagsnefnd skipulagsstjóra að láta vinna breytingu á aðalskipulagi í samræmi við áherslur er fram koma í skipulagslýsingu.

7.Vestursíða 20-24 - hljóðmön

Málsnúmer 2015060056Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 4. júní 2015 þar sem Einar Logi Vilhjálmsson f.h. íbúa í Vestursíðu 20-24 óskar eftir því að mön sunnan húsa nr. 20-24 í Vestursíðu verði framlengd.
Samkvæmt hljóðskýrslu sem unnin var samhliða deiliskipulagi svæðisins er ekki þörf á lengri mön en þeirri sem nú þegar er komin og hafnar því skipulagsnefnd beiðninni.

8.Bílastæði - sérmerking fyrir bíla á innlendu eldsneyti

Málsnúmer 2015060174Vakta málsnúmer

Erindi ódagsett, móttekið 22. júní 2015, þar sem Guðmundur Haukur Sigurðarson f.h. Vistorku ehf., kt. 670515-0950, óskar eftir að skipulagsdeild og framkvæmdadeild Akureyrarbæjar í samráði við Akureyrarstofu merki með áberandi hætti nokkur bílastæði í og við miðbæinn sem yrðu þannig frátekin fyrir bíla sem aðeins nota innlent eldsneyti.

Í framhaldi verður óskað eftir því að Norðurorka setji upp rafhleðslutengla við þessi stæði.

Meðfylgjandi er kort sem sýnir hugmynd að staðsetningu stæðanna.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu erindisins og óskar eftir frekari kynningu.

9.Gleráreyrar 1 og Strandgata 12 - umsókn um hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla

Málsnúmer 2015060160Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 16. júní 2015 þar sem Baldur Dýrfjörð f.h. Norðurorku hf., kt. 550978-0169, sækir um uppsetningu á hraðhleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla á lóðum nr. 1 við Gleráreyrar og nr. 12 við Strandgötu. Meðfylgjandi eru myndir.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu erindisins og óskar eftir frekari kynningu.

10.Sandgerðisbót - umsókn um breytingar á deiliskipulagi

Málsnúmer 2015060121Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 12. júní 2015 þar sem Helgi Jóhannesson f.h. Norðurorku hf., kt. 550978-0169, sækir um breytingu á deiliskipulagi Sandgerðisbótar vegna lóðar skolphreinsistöðvar.
Skipulagsnefnd felur skipulagsstjóra að láta vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar.

11.Óseyri 1a - umsókn um lóðarstækkun

Málsnúmer 2015060132Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 12. júní 2015 þar sem Böðvar Kristjánsson f.h. Lækjarsels ehf., kt. 481214-0680, sækir um að stækka lóð nr. 1a við Óseyri.
Skipulagsnefnd frestar erindinu og felur skipulagsstjóra að óska eftir frekari upplýsingum og gögnum frá umsækjanda.

12.Langamýri 1 - umsókn um lyftingu þaks

Málsnúmer 2015060159Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 18. júní 2015 þar sem Haraldur Árnason f.h. Hjördísar Blöndal sækir um að fá að lyfta þaki húss nr. 1 við Löngumýri.
Skipulagsnefnd samþykkir að grenndarkynna erindið skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

13.Ráðhústorg 5 - umsókn um breytingar innanhúss

Málsnúmer 2015060152Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 16. júní 2015 þar sem Ingólfur Guðmundsson f.h. R353 ehf., kt. 510412-0360, sækir um byggingarleyfi fyrir breytingum innanhúss á húsi nr. 5 við Ráðhústorg.

Um er að ræða breytingu á notkun 1. hæðar hússins úr verslun í veitingahús í flokki III lið f. krá. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Loga Má Einarsson.
Skipulagsnefnd óskar eftir að unnin verði hljóðskýrsla af hljóðvistarhönnuði vegna breyttrar notkunar hússins.

Skipulagsnefnd hefur yfirfarið fyrirliggjandi uppdrætti og gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við innra skipulag, form eða útlit hússins. Skipulagsstjóra er falið að afgreiða umsókn um byggingarleyfi.

14.Listagilið - Listasumar - takmörkun umferðar

Málsnúmer 2015060127Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 12. júní 2015 þar sem Hlynur Hallsson f.h. Listasafnsins á Akureyri, Guðrún Þórsdóttir f.h. Listasumars, Þóra Karlsdóttir f.h. Gilfélagsins og Klængur Gunnarsson f.h. Myndlistarfélagsins sækja um að bílaumferð um Kaupvagnsstræti (Listagilið) verði bönnuð á fimm vikna tímabili í sumar. Til vara er sótt um að gatan verði gerð að einstefnugötu á sama tímabili.
Um þessar mundir mælist umferðar um Kaupvangsstræti 6500 - 7000 bílar á sólarhring. Með því að loka mjög mikilvægri tengingu við Brekkuna og önnur hverfi bæjarins má gera ráð fyrir að umferð færist á Oddeyrargötu og Þórunnarstræti sem ekki er ásættanleg lausn.

Skipulagsnefnd hafnar því beiðninni en bendir á að skipulagsstjóra er heimilt að takmarka eða loka umferð um Kaupvangsstræti tímabundið eða þegar stakir viðburðir eiga sér stað á svæðinu.

15.Hverfisnefnd Lunda- og Gerðahverfis - fundargerðir 2015

Málsnúmer 2015020006Vakta málsnúmer

Á fundi sínum þann 4. júní 2015, vísaði bæjarráð fyrri hluta 4. liðar b. til skipulagsdeildar:


4. Önnur mál

b. Nefndin telur mikilvægt að ráðist verði í gerð hringtorgs við gatnamót Þingvallastrætis og Miðhúsabrautar til að greiða fyrir umferð á þessu svæði. Þá lýsum við yfir að snyrta þurfi svæðið í kring þar sem mikil órækt er meðfram götum við núverandi gatnamót.
Skipulagsnefnd tekur undir áhyggjur íbúa af aukinni umferð við gatnamótin en samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdadeild er gert ráð fyrir að ráðist verði í framkvæmdir við hringtorg 2016.

16.Lög um mat á umhverfisáhrifum

Málsnúmer 2015060043Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. júní 2015 þar sem Rut Kristinsdóttir f.h. Skipulagsstofnunar fer fram á að sveitastjórnir kynni sér breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum sem varða sveitarfélög og tóku gildi 1. júní 2015.
Lagt fram til kynningar.

17.Stefna í minjavernd - athugasemdir

Málsnúmer 2015060047Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 4. júní 2015 þar sem Minjastofnun Íslands vekur athygli á nýjum drögum að stefnu í minjavernd og gefur hagsmunaaðilum tækifæri til að gera athugasemdir til 22. júní 2015.
Lagt fram til kynningar.

18.Skipulagsstjóri - uppsögn úr starfi

Málsnúmer 2015060186Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri Akureyrarbæjar, Pétur Bolli Jóhannesson, hefur með bréfi dagsettu 18. júní 2015 sagt upp starfi sínu með þriggja mánaða fyrirvara.
Skipulagsnefnd þakkar Pétri Bolla fyrir vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Jafnframt óskar skipulagsnefnd eftir því að starfið verði auglýst sem fyrst og felur bæjarstjóra og formanni skipulagsnefndar að fylgja málinu eftir.

19.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2015

Málsnúmer 2015010005Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 11. júní 2015. Lögð var fram fundargerð 544. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 15 liðum.
Lagt fram til kynningar.

20.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2015

Málsnúmer 2015010005Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 18. júní 2015. Lögð var fram fundargerð 545. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 10 liðum.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:02.