Skipulagsnefnd

198. fundur 25. febrúar 2015 kl. 08:00 - 13:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Eva Reykjalín Elvarsdóttir
  • Edward Hákon Huijbens
  • Sigurjón Jóhannesson
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson verkefnisstjóri
Dagskrá
Ólína Freysteinsdóttir S-lista boðaði forföll á fundinn og varamaður mætti ekki í hennar stað.

1.Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018, breyting fyrir frístundahús við Búðargil

Málsnúmer 2015020045Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd heimilaði skipulagsstjóra þann 15. október 2014 að gera tillögu að breytingu á aðalskipulagi og verður deiliskipulagsbreyting unnin samhliða (mál nr. 2014090264).

Skipulagsstjóri lagði fram skipulagslýsingu fyrir aðalskipulagsbreytinguna sem unnin er af Árna Ólafssyni, frá Teiknistofu arkitekta Gylfa Guðjónssonar og félaga ehf., dagsetta 25. febrúar 2015.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði kynnt almenningi og leitað verði umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um hana.

2.Tjaldsvæðisreitur við Þórunnarstræti - tillaga að breytingu á deiliskipulagi Þingvallastrætis 23

Málsnúmer 2015010118Vakta málsnúmer

Erindið var grenndarkynnt frá 18. febrúar og lauk 20. febrúar 2015 þegar sá sem grenndarkynninguna fékk samþykkti tillöguna að breytingunni.
Skipulagsnefnd samþykkir deiliskipulagsbreytinguna á grundvelli 4. gr.-e "Samþykktar um skipulagsnefnd" og felur skipulagsstjóra að annast gildistöku hennar.

3.Aðalstræti 12b - umsókn um breytingu á deiliskipulagi, fjölgun íbúða

Málsnúmer 2012030262Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd samþykkti að grenndarkynna beiðni um breytingu á deiliskipulagi þar sem gert var ráð fyrir að íbúðum á lóðinni fjölgaði úr tveimur í fjórar. Tillagan var grenndarkynnt 19. janúar til 16. febrúar 2015.

Fimm athugasemdir bárust:

1) Ólafur Sigurðsson, Aðalstræti 12, dagsett 22. janúar 2015.

Hann er andsnúinn fyrirhugaðri fjölgun íbúða vegna bílastæðamála þar sem gera má ráð fyrir að húsinu fylgi minnst átta bílar. Einnig bendir hann á að brekkan syðst á lóðinni sé að síga fram og að þar sé skriðuhætta.

2) Anney Alfa Jóhannsdóttir, Aðalstræti 12, dagsett 3. febrúar 2015.

Hún er ekki hlynnt breytingum á deiliskipulagi lóðarinnar þannig að hægt verði að byggja fjölbýlishús með fjórum íbúðum. Hún gerir hinsvegar ekki athugasemd við að byggt verði tveggja íbúða hús á tveimur hæðum á lóðinni eins og heimilt er í dag.

3) Júlía Margrét Guðbjargardóttir og Skarphéðinn Reynisson, Aðalstræti 14, dagsett 12. febrúar 2015.

Óskað er eftir því að grenndarkynningin verði felld úr gildi þar sem tölvugerð mynd af húsinu sé röng. Þau eru mótfallin fyrirhugðu húsi vegna bílastæðamála og benda á að mikil umferð sé nú þegar við götuna.

4) Birgitta Ásgrímsdóttir og Alexander Schepsky, Aðalstræti 14, dagsett 15. febrúar 2015.

Þau mótmæla því að gerð verði breyting á deiliskipulagi lóðarinnar og að þar verði byggt fjögurra íbúða fjölbýlishús. Einnig eru þau mótfallin fyrirhuguðu húsi vegna bílastæðamála. Fyrirhugað er að opna safn í Gamla spítalanum og við það aukast þrengslin enn meir. Þau benda á ósamræmi á milli tölvugerðrar myndar og afstöðumyndar.

5) Undirskriftarlisti með 15 undirskriftum frá íbúum við Aðalstræti 7-16, dagsett 16. febrúar 2015.

Áformum um fjögurra íbúða byggingu er harðlega mótmælt vegna bílastæðamála. Frekar er hvatt til þess að þar verði byggt fyrir fjölskyldufólk í stað minni íbúða. Þau telja að tillagan rýri lífsgæði þeirra sem búa í nágrenninu og verðgildi eigna þeirra og fara fram á að tillögunni um byggingu fjögurra íbúða húss verði hafnað.
Skipulagsnefnd tekur undir athugasemdir íbúa varðandi aukna umferð með tilkomu fjölgunar íbúða á lóðinni. Einnig er tekið undir áhyggjur íbúa vegna bílastæðaþarfa hússins þar sem ekki er hægt að koma fyrir nema tveimur bílastæðum innan lóðarinnar. Ef miðað er við stærð fyrirhugaðra íbúða er gerð krafa um a.m.k. 4 bílastæði innan lóðarinnar með vísun í ákvæði gr. 5.2.1 greinargerðar Aðalskipulags Akureyrar 2005 - 2018.

Skipulagsnefnd getur því ekki orðið við beiðni umsækjanda um breytingu á deiliskipulagi.

4.Miðbær suðurhluti - breyting á deiliskipulagi Drottningarbrautarreits, Hafnarstræti 80

Málsnúmer 2015020122Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 18. febrúar 2015 þar sem Sverrir Gestsson f.h. Norðurbrúar ehf., kt. 620113-0420, sækir um breytingar á deiliskipulagi Drottningarbrautarreits vegna Hafnarstrætis 80.

Sótt er um breytingu á kvöð um bílakjallara og bílastæði, hæð húss og leyfilegu byggingarmagni.

Á fundinn komu Halldór Jóhannsson og Sverrir Gestsson fulltrúar eigenda og kynntu hugmyndir þeirra.
Skipulagsnefnd þakkar fulltrúum Norðurbrúar ehf. fyrir kynninguna.

Afgreiðslu erindisins er frestað.

5.Undirhlíð 1 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2014020154Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 20. febrúar 2014 frá Ingólfi Frey Guðmundssyni þar sem hann f.h. SS Byggis ehf., kt. 620687-2519, óskar eftir breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Undirhlíð 1 - 3 þannig að hægt verði að byggja allt að 49 íbúðir undir 80 m² í húsinu nr. 1 við Undirhlíð og að ekki verði skilyrt að íbúðirnar séu fyrir 55 ára og eldri.

Á fundinn komu Sigurður Sigurðsson og Helgi Örn Eyþórsson fulltrúar SS Byggis ehf. og kynntu hugmyndir fyrirtækisins vegna óska um breytingu á deiliskipulaginu.
Skipulagsnefnd þakkar fulltrúum SS Byggis ehf. fyrir kynninguna.

Afgreiðslu erindisins er frestað.

6.Kortlagning hávaða - aðgerðaráætlun

Málsnúmer 2010010129Vakta málsnúmer

Að ósk Umhverfisstofnunar hefur farið fram vinna um kortlagningu hávaða og gerð aðgerðaráætlunar skv. reglugerð nr. 1000/2005. Umhverfisstofnun hefur móttekið hávaðakort frá Akureyrarbæ sem unnið var 2012 og niðurstöður kortlagningarinnar gefa til kynna að hávaði er yfir umhverfismörkum á afmörkuðum svæðum. Ber því Akureyrarbæ að vinna áætlun um aðgerðir með það að markmiði að draga úr áhrifum hávaða, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 1000/2005.

Verkfræðistofan Efla ehf. hefur unnið tvær aðgerðaráætlanir sem byggja á kortlagningu hávaða á Akureyri sem fulltrúi Eflu kynnti.
Skipulagsnefnd þakkar fulltrúa Eflu fyrir kynninguna og samþykkir fyrir sitt leyti aðgerðaráætlun skv. tilskipun Evrópusambandsins og vísar henni til afgreiðslu bæjarstjórnar.

7.Hamarstígur 36 - umsókn um breytingar innan- og utanhúss

Málsnúmer 2014120138Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 22. desember 2014 þar sem Benedikt Björnsson f.h. Þorgerðar Sævarsdóttur sækir um breytingar innan- og utanhúss við Hamarstíg 36, var sent í grenndarkynningu þann 21. janúar 2015 og lauk 18. febrúar 2015.

Engar athugasemdir bárust.
Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið.

Skipulagsstjóra er falið að afgreiða umsókn um byggingarleyfi.

8.Hafnarstræti 69 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2015020075Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. febrúar 2014 þar sem Arnar Birgisson f.h. Fasteignasölunnar Rex ehf., kt. 460612-1280, sækir um lóðina nr. 69 við Hafnarstræti. Meðfylgjandi er staðfesting viðskiptabanka.
Skipulagsnefnd samþykkir erindið. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

9.Eyrarlandsvegur 28 - ólögleg bílastæði við MA

Málsnúmer 2013110165Vakta málsnúmer

Tekið fyrir að nýju erindi dagsett 19. nóvember 2013 þar sem Pétur Bolli Jóhannesson og Rut Indriðadóttir fara fram á að Akureyrarbær krefji stjórn Menntaskólans á Akureyri um úrbætur og viðeigandi lagfæringar á útfærslu bílastæða skólans austan Þórunnarstrætis til samræmis við teikningar sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa 1. september 2004. Ástæða beiðninnar er mikið ónæði á kvöldin og um nætur vegna spólandi bíla sem þar geta athafnað sig vegna núverandi útfærslu á bílastæðinu og þar sem forráðamenn skólans hafa ekki gert úrbætur þrátt fyrir margar ítrekanir. Meðfylgjandi fylgdu afrit af samþykktum teikningum.


Þann 27. nóvember 2013 fór skipulagsnefnd fram á við eiganda bílastæðisins að gengið yrði frá bílastæðum og gönguleiðum innan lóðar skólans í samræmi við samþykktan uppdrátt frá 1. september 2004. Einnig var farið fram á að verkinu skyldi lokið eigi síðar en 1. júní 2014.

Óskað var eftir andmælum frá Fasteignum ríkissjóðs vegna afgreiðslu skipulagsnefndar og bárust þau 5. nóvember 2014 og 12. febrúar 2015 frá Snævari Guðmundssyni f.h. Fasteigna ríkissjóðs, þar sem óskað er eftir að fallið verði frá kröfu um kantsteina og gróður á syðsta hluta bílastæðis Menntaskólans á Akureyri, Eyrarlandsvegi 28 og þau fái að vera eins og þau nú eru.

Meðfylgjandi er uppdráttur frá AVH teiknistofu dagsettur 9. febrúar 2015 ásamt bréfum frá Eddu hótelum, SBA Norðurleið og Menntaskólanum á Akureyri.

Pétur Bolli Jóhannesson vék af fundi við umfjöllun og afgreiðslu málsins.
Skipulagsnefnd felur skipulagsdeild að vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar þar sem skýrt verði kveðið á um frágang bílastæða og gönguleiða í samráði við hagsmunaaðila.

10.Ársskýrslur skipulagsdeildar

Málsnúmer 2015020123Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram til kynningar ársskýrslu skipulagsdeildar fyrir árið 2014 ásamt yfirliti yfir byggingaframkvæmdir.
Lagt fram til kynningar.

11.Hafnarstræti 106 - umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2014090236Vakta málsnúmer

Umræður um afgreiðslu byggingarleyfis vegna breytinga á útliti og innra skipulagi Hafnarstrætis 106.

Skipulagsnefnd gerir athugasemd við að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir verulegum breytingum á Hafnarstræti 106 án umfjöllunar nefndarinnar. Nefndin telur að breytingarnar vinni gegn samþykktu skipulagi bæjarins og séu til þess fallnar að festa húsið í sessi. Skipulagsnefnd mun í framhaldi skerpa á verklagsreglum gagnvart framkvæmd stefnu bæjarins í skipulagi miðbæjar Akureyrar.

Sjá nánar meðfylgjandi greinargerð um málið merkt "Braunshús - greinargerð skipulagsnefndar".


Skipulagsstjóri lagði fram eftirfarandi bókun í framhaldi af bókun skipulagsnefndar:

Skipulagsstjóri vinnur og hefur fullnaðarheimild til að afgreiða öll byggingarmál er falla undir Mannvirkjalög, nr. 160/2010. Skal í þessu samhengi bent á 2.3.4. gr. byggingarreglugerðar en það segir:

"Varði breyting á mannvirki útlit þess og form skal leita samþykkis hlutaðeigandi skipulagsnefndar áður en byggingarleyfi er veitt enda liggi ekki fyrir samþykkt deiliskipulag sem heimilar breytinguna. Ekki þarf að leita slíks samþykkis sé breytingin óveruleg."

Sjá nánar meðfylgjandi greinargerð um málið merkt "Braunshús - greinargerð skipulagsstjóra".

12.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2015

Málsnúmer 2015010005Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 12. febrúar 2015. Lögð var fram fundargerð 527. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 13 liðum.
Lagt fram til kynningar.

13.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2015

Málsnúmer 2015010005Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 19. febrúar 2015. Lögð var fram fundargerð 528. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 10 liðum.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 13:00.