Skipulagsnefnd

148. fundur 28. nóvember 2012 kl. 08:00 - 12:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Helgi Snæbjarnarson formaður
  • Árni Páll Jóhannsson
  • Eva Reykjalín Elvarsdóttir
  • Edward Hákon Huijbens
  • Pálmi Gunnarsson
  • Ragnar Sverrisson áheyrnarfulltrúi
  • Svava Þórhildur Hjaltalín áheyrnarfulltrúi
  • Tryggvi Már Ingvarsson áheyrnarfulltrúi
  • Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson verkefnisstjóri
Dagskrá

1.Hverfaskipting og nafngiftir

Málsnúmer 2010120067Vakta málsnúmer

Tekin fyrir að nýju tillaga nafnanefndar um nöfn á hverfum nr. 32-39 innan lögsögu Akureyrarkaupstaðar ásamt nýjum tillögum að nafni á hverfi 36 sbr. bókun nefndarinnar 30. mars 2011.

Skipulagsnefnd samþykkir að eftirtalin hverfi fái neðangreind nöfn:

Hverfi 32 - Hagar

Hverfi 33 - Krókeyri

Hverfi 34 - Hvammur

Hverfi 35 - Fálkafell

Hverfi 36 - Hlíðarlönd

Hverfi 37 - Hálönd

Hverfi 38 - Hesjuvellir

Hverfi 39 - Lónshverfi

Að öðru leyti gildir uppdráttur dagsettur 28. nóvember 2012 með nafngiftum á eldri hverfum bæjarins.

2.Naustahverfi 3. áfangi - Hagar, deiliskipulag, skipulagslýsing

Málsnúmer SN080099Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram skipulagslýsingu fyrir Naustahverfi 3. áfanga, Haga, dagsetta í nóvember 2012 og unna af Árna Ólafssyni arkitekt hjá Teiknistofu Arkitekta, Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði kynnt almenningi og leitað verði umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um skipulagslýsinguna.

3.KA svæði,- Lundarskóli og Lundarsel - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2011100022Vakta málsnúmer

Tillaga að deiliskipulagsbreytingu var auglýst frá 27. september til 7. nóvember 2012. Auglýsingar birtust í Lögbirtingarblaðinu og Dagskránni. Gögnin voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu skipulagsdeildar.
Þrjár athugasemdir bárust. Úrdráttur úr innsendum athugasemdum er í meðfylgjandi skjali merktu "KA svæði, Lundarskóli og Lundarsel - athugasemdir og svör, dags. 28.11.2012"
Óskað var eftir umsögnum frá KSÍ og ISAVIA um deiliskipulagsbreytingu. Hverfisnefnd Lunda- og Gerðahverfis var tilkynnt um auglýsingu á deiliskipulagsbreytingunni en nefndin gerði ekki athugasemd við tillöguna.

Skipulagsnefnd hefur yfirfarið innsendar ahugasemdir og eru svör við þeim í meðfylgjandi skjali merktu "KA svæði, Lundarskóli og Lundarsel - athugasemdir og svör, dags. 28.11.2012".

Umsögn dagsett 8. nóv. 2012 barst frá KSÍ þar sem kemur fram að ekki sé hægt að minnka kröfur um öryggissvæði ef völlurinn eigi að falla í flokk C.

Umsögn dagsett 17. október 2012 barst frá ISAVIA sem gerir ekki athugasemd við deiliskipulagið en bendir á að þrjú hindranaljós þurfi að loga allan sólarhringinn á ljósamöstrum. Ljósin skulu vera tengd þannig að ekki verði hægt að slökkva á þeim af vangá. Einnig er óskað eftir að hvítt leiðsöguljós verði á einu mastranna.

Niðurstaða:

Deiliskipulagstillagan gerir ekki ráð fyrir að völlurinn falli í flokk C og því ekki þörf á stærra öryggissvæði umhverfis völlinn en fram kemur á uppdrætti. Tekið er tillit til athugasemda ISAVIA og viðeigandi lagfæringar gerðar á skipulagsgögnum. Svör við athugasemdum koma fram í skjali merktu "KA svæði, Lundarskóli og Lundarsel - athugasemdir og svör, dags. 28.11.2012"

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan þannig breytt verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.

Edward H. Huijbens V-lista sat hjá við afgreiðsluna.

4.Íbúðarsvæði við Mýrarveg - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2012100157Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi íbúðarsvæðis við Mýrarveg dagsetta 28. nóvember 2012, og unna af Ágústi Hafsteinssyni frá Form ehf.

Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að tillagan verði grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5.Stórholt og Lyngholt - deiliskipulag

Málsnúmer 2012020150Vakta málsnúmer

Innkomið bréf frá Skipulagsstofnun dagsett 1. nóvember 2012, þar sem fram kemur að stofnunin geti ekki tekið afstöðu til efnis deiliskipulagsins fyrr en gerð hefur verið grein fyrir hvernig starfsemi gistiheimilis samræmis aðalskipulagi varðandi íbúðabyggð.

Samkvæmt grein 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 "....skal fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Þar má þó einnig gera ráð fyrir starfsemi sem eðlilegt er að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum, eða annarri starfsemi sem hvorki verður ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar..."

Ennfremur segir að "Í deiliskipulagi íbúðarsvæða skal gera grein fyrir fjölda íbúða, húsagerð og notkun einstakra bygginga og byggingarhluta sem ekki eru ætluð til íbúðar. ... Atvinnustarfsemi í íbúðarhverfi skal valinn staður þannig að hún valdi hvorki hættu né óþægindum í íbúðarbyggð vegna umferðar eða annars ónæðis."

Samkvæmt aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarsvæði. Allt frá 1970 hefur gistiheimili verið starfrækt á lóðinni við Stórholt 1 í sátt við íbúa hverfisins. Gistiheimilið er staðsett í jaðri svæðisins auk þess að vera í góðum tengslum við stofnbraut. Engar athugasemdir bárust við deiliskipulagstillöguna er snéru að stækkun gistiheimilisins.

Samkvæmt ofangreindu er ekkert sem mælir á móti því að gistiheimilið geti verið á skilgreindu íbúðarsvæði í aðalskipulagi. Er það mat skipulagsnefndar að starfsemi gistiheimilisins samræmist gildandi aðalskipulagi varðandi íbúðarbyggð eins og deiliskipulagstillagan byggir á og gerir ráð fyrir.

6.Aðalskipulagsbreyting Eyjafjarðarsveit - skipulagslýsing, göngu- og reiðleiðir

Málsnúmer 2012110170Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 22. nóvember 2012 frá Eyjafjarðarsveit þar sem fram kemur að sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hafi samþykkt skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi og deiliskipulagi varðandi stíga frá Hrafnagilshverfi til Akureyrar. Bent er á að þeir sem vilja koma á framfæri ábendingum vegna skipulagslýsingarinnar séu beðnir um að senda þær skriflega til Eyjafjarðarsveitar fyrir 30. nóvember nk.

Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna.

7.Holtagata 1 - umsókn um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu

Málsnúmer 2012110092Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 14. nóvember 2012 þar sem Haraldur S. Árnason f.h. Sigmundar Kristbergs Magnússonar sækir um byggingu bílgeymslu við lóð nr. 1 við Holtagötu. Meðfylgjandi er samþykki nágranna og teikningar eftir Harald Árnason.

Skipulagsnefnd samþykkir að grenndarkynna erindið skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

8.Fjölnisgata 6b-d - umsókn um byggingarleyfi og breytingar

Málsnúmer 2012110118Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 16. nóvember 2012 þar sem Gunnar B. Þórhallsson f.h. Bjarkaness ehf, kt. 671107-0710, sækir um breytingar á húsnæði á lóðum 6b, 6c og 6d við Fjölnisgötu ásamt byggingarleyfi vegna viðbyggingar. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Árna Gunnar Kristjánsson.

Skipulagsnefnd tekur jákvætt í umsóknina og vísar erindinu til vinnslu deiliskipulags svæðisins sem nú er í vinnslu.

9.Bugðusíða - beiðni um gangbraut

Málsnúmer 2011080081Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 23. ágúst 2011 frá Ómari Torfasyni þar sem óskað er eftir að sett verði upplýst gangbraut á mótum Bugðusíðu og Ekrusíðu.

Skipulagnefnd hefur óskað eftir tillögum frá framkvæmdadeild um úrbætur á umferð akandi sem gangandi vegfarenda sem fara þurfa um Bugðusíðu að Síðuskóla.

Erindinu er frestað þangað til þær tillögur liggja fyrir.

10.Hjalteyrargata - Gránufélagsgata, gangbraut

Málsnúmer 2012110120Vakta málsnúmer

Jón Sigurðsson mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa 15. nóvember 2012. Hann telur að setja þurfi gangbraut á Hjalteyrargötu þar sem ferðamenn frá skemmtiferðaskipum við Tangabryggju gangi oft Gránufélagsgötu.

Skipulagsnefnd þakkar ábendinguna og leggur til við framkvæmdadeild að gerð verði tillaga um gangbraut við gatnamót Gránufélagsgötu og Hjalteyrargötu þannig að öryggi gangandi vegfarenda verði tryggt.

11.Dalsbraut vestan við Akurgerði - hljóðmön

Málsnúmer 2012110119Vakta málsnúmer

Sigþór Bjarnason mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa 15. nóvember 2012 og lýsti áhyggjum sínum af að engin hljóðmön sé skipulögð í deiliskipulagi fyrir Dalsbraut vestan megin við Akurgerði. Sjá meðfylgjandi bréf.

Umrætt svæði er utan deiliskipulags Dalsbrautar sem nýbúið er að samþykkja. Samkvæmt hljóðkorti sem unnið var 3. nóvember 2006 af verkfræðistofunni Línuhönnun (EFLU) kemur fram að ekki sé þörf á hljóðvörnum á svæðinu.

Skipulagsnefnd getur því ekki orðið við erindinu.

12.Hálönd, orlofshúsabyggð - ósk um framkvæmdaleyfi fyrir rotþró

Málsnúmer 2012110168Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 20. nóvember 2012 þar sem Helgi Már Pálsson f.h. framkvæmdadeildar óskar eftir tímabundnu leyfi fyrir rotþró við orlofshúsabyggðina í Hálöndum. Stefnt er að því að tengja svæðið við fráveitukerfi bæjarins á næstu árum.

Skipulagsnefnd samþykkir leyfi fyrir rotþró við orlofsbyggðina í Hálöndum til þriggja ára.

Edward H. Huijbens V-lista sat hjá við afgreiðsluna og ítrekar mikilvægi þess að hverfið verði tengt veitumannvirkjum bæjarins samhliða uppbyggingu þess.

13.Landssamband hestamannafélaga - skráning reiðleiða, kortasjá - styrkbeiðni

Málsnúmer 2012100076Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. október 2012 frá Haraldi Þórarinssyni, formanni f.h. Landssambands hestamannafélaga þar sem fram kemur að unnið hafi verið að skráningu reiðleiða á öllu landinu frá árinu 2007 í samvinnu við Vegagerðina. Félagið óskar eftir fjárstuðningi sveitarfélagsins til þessa verkefnis.

Skipulagsnefnd fagnar framtaki Landssambands hestamannafélaga vegna skráningar reiðleiða á öllu landinu en vísar erindinu að öðru leyti til afgreiðslu bæjarráðs.

14.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2012

Málsnúmer 2012010231Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 14. nóvember 2012. Lögð var fram fundargerð 421. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 16 liðum.

Lagt fram til kynningar.

15.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2012

Málsnúmer 2012010231Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 21. nóvember 2012. Lögð var fram fundargerð 422. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 8 liðum.

Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 12:00.