Skipulagsnefnd

147. fundur 14. nóvember 2012 kl. 08:00 - 12:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Helgi Snæbjarnarson formaður
  • Árni Páll Jóhannsson
  • Eva Reykjalín Elvarsdóttir
  • Andrea Sigrún Hjálmsdóttir
  • Sigurður Guðmundsson
  • Ragnar Sverrisson áheyrnarfulltrúi
  • Svava Þórhildur Hjaltalín áheyrnarfulltrúi
  • Tryggvi Már Ingvarsson áheyrnarfulltrúi
  • Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson verkefnastjóri
Dagskrá

1.Hlíðahverfi suðurhluti - deiliskipulag

Málsnúmer 2011120040Vakta málsnúmer

Deiliskipulag Hlíðahverfis, suðurhluta, var auglýst frá 19. september 2012 með athugasemdarfresti til 31. október 2012.
Sex athugasemdir bárust. Útdráttur úr innsendum athugasemdum er í meðfylgjandi skjali merktu "Hlíðahverfi suðurhluti - athugasemdir og svör, dags. 14.11. 2012".
Óskað var eftir umsögn frá Vegagerðinni sem barst þ. 28. september 2012. Vegagerðin gerir ekki athugasemd við deiliskipulagið. Hverfisnefnd Holta- og Hlíðahverfis var tilkynnt um auglýsingu á deiliskipulaginu.

Skipulagsnefnd tekur tillit til hluta athugasemdanna. Sjá nánar í meðfylgjandi skjali merktu "Hlíðahverfi suðurhluti - athugasemdir og svör, dags. 14.11. 2012".

Niðurstaða:

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan þannig breytt verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.

 

2.KA svæði - Lundarskóli - Lundarsel - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2011100022Vakta málsnúmer

Tillaga að deiliskipulagsbreytingu var auglýst frá 27. september til 7. nóvember 2012. Auglýsingar birtust í Lögbirtingarblaðinu og Dagskránni. Gögnin voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu skipulagsdeildar.
Þrjár athugasemdir bárust. Útdráttur úr innsendum athugasemdum er í meðfylgjandi skjali merktu "KA svæði, Lundarskóli og Lundarsel - athugasemdir og svör, dags. 14.11.2012"
Óskað var eftir umsögnum frá KSÍ og ISAVIA um deiliskipulagsbreytingu. Hverfisnefnd Lunda- og Gerðahverfis var tilkynnt um auglýsingu á deiliskipulagsbreytingunni en nefndin gerði ekki athugasemd við tillöguna.

Afgreiðslu frestað.

3.Reiðveganefnd 2008 (sjá SN080052)

Málsnúmer 2008060057Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd tilnefndi 13. maí 2008 og að nýju 7. september 2010 fulltrúa í vinnuhóp um breytta legu reiðleiða frá Hlíðarholti að suður- og norðurbæjarmörkum. Auk fulltrúa skipulagsnefndar voru tilnefndir fulltrúar frá Hestamannafélaginu Létti.
Vinnuhópurinn skilaði af sér tillögu um breytta legu reiðvega sem tekin var fyrir á fundi skipulagsnefndar 14. mars 2012. Stjórn Léttis er ekki sammála framlagðri tillögu að öllu leyti (sjá nánar í innkomnu bréfi).
Skipulagsnefnd óskaði í framhaldinu eftir umsögnum um tillöguna frá eftirtöldum aðilum:
1) Vegagerðinni sem gerir athugasemd við að reiðleið þveri Hringveginn. Vegagerðin setur þau skilyrði að reiðleiðin fari um reiðgöng undir veginn. Til bráðabirgða, þar til fjárveiting fyrir undirgöng fæst, fellst Vegagerðin á þverunina með svipaðri útfærslu og gerð var við Brunná á Eyjafjarðarbraut vestri.
2) Hörgársveit sem samþykkir að tenging reiðleiða milli sveitarfélaganna verði á Lögmannshlíðarvegi (Lónsvegi).
3) Eyjafjarðarsveit. Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir reiðvegi í Eyjafjarðarsveit vestan Eyjafjarðarbrautar vestri. Óskað er eftir að gert verði ráð fyrir tengingu frá Akureyri inn á umræddan reiðveg.
4) Umhverfisnefnd Akureyrarbæjar sem gerir ekki athugasemd við tillöguna.
5) Skógræktarfélagi Eyjafjarðar. Umsögn barst ekki.

Vinnuhópurinn hefur nú lokið störfum og óskar eftir umfjöllun skipulagsnefndar um tillöguna og að gerð verði aðalskipulagsbreyting á legu reiðleiða í samræmi við niðurstöðu hennar.

Skipulagsnefnd þakkar vinnuhópnum fyrir hans framlag vegna endurskoðunar reiðleiða í sveitarfélaginu.

Skipulagsnefnd leggur til að fallið verði frá reiðleið niður með Lónsá austan Hringvegar vegna óvissu um endanlega legu og útfærslu á þjóðvegi 1 í grennd við sveitarfélagsmörk Akureyrar og Hörgársveitar.

Samþykktar eru tengingar við Hörgársveit og Eyjafjarðarsveit. Ekki er fallist á varanlega blandaða leið gangandi og ríðandi fólks við golfvöll og í gegnum Naustaborgir (bláar slitnar línur á uppdrætti).

Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna þannig breytta og felur skipulagsstjóra að vinna aðalskipulagsbreytingu á legu reiðleiða í samræmi við ofangreint.

4.Búðargil - fyrirspurn um stækkun lóðar

Málsnúmer 2012100184Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 30. október 2012 þar sem Sæluhús Akureyrar, kt. 591200-3130, senda inn fyrirspurn um stækkun lóðar til suðurs og norðurs vegna byggingar frístundahúsa við orlofsbyggðina við Búðargil. Meðfylgjandi er afstöðumynd dagsett 25. október 2012.

Skipulagsnefnd getur fallist á stækkun svæðisins til suðurs en hafnar stækkun svæðisins til norðurs m.a. þar sem hluti svæðisins er innan lóðar Sjúkrahússins á Akureyri.

Skipulagsnefnd heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Breytingin verði unnin í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sigurður Guðmundsson A-lista vék af fundi við umfjöllun og afgreiðslu málsins.

5.Landsskipulagsstefna 2013-2024 - skipulagslýsing og matslýsing vegna umhverfismats

Málsnúmer 2012030117Vakta málsnúmer

Innkomið bréf dagsett 24. september 2012 frá Skipulagsstofnun.
Í samræmi við 6. mgr. 11. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 er óskað eftir umsögn um tillögu að landsskipulagsstefnu 2013 - 2024 og umhverfisskýrslu. Gögnin er hægt að nálgast á www.landsskipulag.is.

Skipulagsnefnd leggur áherslu á að í landsskipulagsstefnu 2013 - 2024 verði gert ráð fyrir heilsárs stofnvegum um miðhálendið en að öðru leyti er tekið undir athugasemdir Sambands ísl. sveitarfélaga.

6.Breyting á hámarkshraða á Drottningarbraut

Málsnúmer 2012110018Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 5. nóvember 2012 þar sem Helgi Már Pálsson f.h. framkvæmdadeildar leggur til að hámarkshraði verði lækkaður úr 70 í 60 km/klst á Drottningarbraut/Eyjafjarðarbraut vestri til að bæta öryggi gangandi vegfarenda. Einnig er lagt til að gerð verði miðeyja vegna þverunar götunnar með göngubraut norðan Miðhúsabrautar.

Skipulagsnefnd samþykkir breytingu á hámarkshraða á Drottningarbraut/Eyjafjarðarbraut vestri þannig að hámarkshraði frá Leiruvegi og 200 m suður fyrir gatnamót Miðhúsabrautar verði 50 km og einnig að gerð verði miðeyja á Drottningarbraut vegna göngubrautar við Miðhúsabraut.

7.Hólabraut 16, Gránufélagsgata 1-3 og 5 - umsókn um sameiningu lóða

Málsnúmer 2012100194Vakta málsnúmer

Erindi í tölvupósti dagsettum 29. október 2012 frá Jónasi V. Karlessyni þar sem hann f.h. Áfengis-/tóbaksverslunar ríkisins, kt. 410169-4369, sækir um sameiningu lóðanna Gránufélagsgötu 1-3 og Gránufélagsgötu 5 við lóðina nr. 16 við Hólabraut sbr. gildandi deiliskipulag.

Skipulagsnefnd samþykkir erindið þar sem afmörkun lóðarinnar er í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.

8.Rauðamýri 11 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2012110021Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 6. október 2012 þar sem Þröstur Sigurðsson f.h. Þorsteins H. Vignissonar sækir um breytingar á deiliskipulagi vegna stækkunar á bílageymslu á lóð nr. 11 við Rauðumýri. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Þröst Sigurðsson.

Skipulagsnefnd heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Breytingin verði unnin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

9.Jörvabyggð 10 - umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2012090233Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 25. september 2012 þar sem Logi Már Einarsson f.h. Þórhalls Arnórssonar leggur inn fyrirspurn um stækkun á á húsinu sunnan bílgeymslu að Jörvabyggð 10 til að innrétta herbergi. Erindið var grenndarkynnt frá 16. október til 13. nóvember 2012. Engar athugasemdir bárust.

Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið og felur skipulagsstjóra að afgreiða umsókn um byggingarleyfi þegar hún berst.

10.Baldursnes 3 - Atlantsolía - uppsetning á skilti

Málsnúmer BN090188Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 28. október 2012 þar sem Atlantsolía, kt. 590602-3610, sækir um undanþágu fyrir uppsetningu á skilti. Erindinu var frestað 28. október 2009 vegna endurskoðunar á "Samþykkt um skilti og auglýsingar í lögsögu Akureyrarkaupstaðar". Meðfylgjandi er mynd af skilti og afstöðumyndir.

Skipulagsnefnd getur ekki fallist uppsetningu á auglýsingaskilti eins og óskað er eftir þar sem skiltið er ekki í samræmi við samþykkt um skilti og auglýsingar en bendir á að heimilt er að setja upp umferðarmerki um þjónustuna við afreinina.

11.Kirkjugarðar Akureyrar, Naustaborgir - grafreitir 21. aldar

Málsnúmer SN080114Vakta málsnúmer

Smári Sigurðsson framkvæmdastjóri mætti f.h. Kirkjugarða Akureyrar í viðtalstíma bæjarfulltrúa 11. október 2012.
Varðar hugmynd um kirkjugarð (grafreit) í Naustaborgum. Smári vill að málið fái farveg innan bæjarkerfisins. Hefur verið í kerfinu í 5 ár en engin niðurstaða enn og við það er Smári ósáttur. Kom fyrst inn til skipulagsnefndar árið 2007. Árið 2009 kemur svar um að málinu sé frestað. Árið 2011 kemur svo inn beiðni um að taka málið aftur upp. Að sögn Smára má reikna með að núverandi garður verði orðinn fullur eftir 15-20 ár en það tekur u.þ.b. 7 ár að undirbúa nýjan kirkjugarð.

Skipulagsnefnd bendir á að í aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 er gert ráð fyrir nýjum kirkjugarði norðan Síðubrautar og auk þess er gert ráð fyrir stækkun kirkjugarðs við Lögmannshlíð. Gert er ráð fyrir að við endurskoðun Aðalskipulags Akureyrar 2005 - 2018 verði stefna málaflokksins endurskoðuð.

Erindinu er því frestað.

12.Naustahverfi - umferðarmál

Málsnúmer 2011020055Vakta málsnúmer

Kristján B. Garðarsson, Helga Alfreðsdóttir, Kristján Ólafsson og Hjördís Jónsdóttir mættu í viðtalstíma bæjarfulltrúa 11. október 2012.
Þau vilja fjölga leiðum inn og út úr Naustahverfinu. Þau spyrja hvers vegna Ásatúnið endi skyndilega nánast úti í móa, hvort ætlunin sé að fara með það lengra.
Íbúar Tjarnatúns 9 óska eftir afnotum af 20-25 cm af gangstéttinni við eigin garð til að setja niður steina til að verja gróður í garðinum.
Óska eftir opnum íbúafundi í hverfinu um þessi mál til heyra viðhorf annarra íbúa.

Uppbyggingu Naustahverfis er að mestu lokið og er gatnakerfi í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Ekki eru fyrirhugaðar breytingar á gatnakerfinu. Austurhluti Ásatúns endar í innkeyrslu á lóð sem ekki hafa verið hafnar framkvæmdir á. 

Ekki er hægt að verða við beiðni um afnot af hluta gangstéttar vestan húss nr. 9 við Tjarnartún þar sem gangstéttar á þessu svæði eru einungis 2.25 m að breidd.

Bent er á að hverfisnefnd Naustahverfis heldur opna íbúafundi þar sem kjörnir fulltrúar og embættismenn sitja reglulega fyrir svörum um málefni hverfisins.

13.Arnarsíða og Bugðusíða - umferðarþungi á gatnamótum

Málsnúmer 2012100110Vakta málsnúmer

Anna R. Árnadóttir og Benedikt Ármannsson mættu í viðtalstíma bæjarfulltrúa 11. október 2012.
Varðar gatnamótin Arnarsíðu og Bugðusíðu sem eru afar hættuleg. Fyrirspurn um það hvort ekki sé tímabært að setja þarna hringtorg. Hér er um að ræða T gatnamót en virka sem X gatnamót. Sjá nánar í greinargerð.

Skipulagsnefnd frestar erindinu og óskar eftir umsögn og tillögum um úrbætur frá framkvæmdadeild.

14.Aðalstræti 12b - fyrirspurn úr viðtalstíma

Málsnúmer 2012030262Vakta málsnúmer

Hjörleifur Hallgríms Herbertsson mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa 11. október 2012.
Hjörleifur vildi ræða um lóð sína Aðalstræti 12b þar sem að hann vill byggja hús af stærðinni 10x14 metrar en skipulagsnefnd heimilar aðeins 9x13 m.
Einnig vill hann að yfirlýsing frá íbúum í Aðalstræti 9 um að hann fái svæði fyrir bílastæði sunnan lóðarinnar nr. 9 við Aðalstræti verði tekin til greina. Yfirlýsingin fylgir með í gögnum sem Hjörleifur lét fylgja.

Í nýsamþykktu deiliskipulagi Fjörunnar og Innbæjarins er skilgreindur byggingarreitur fyrir nýbyggingu og bílastæði eins og skipulagsnefnd/bæjarstjórn taldi að gæti rúmast innan skilgreindrar lóðar. Þinglýstur eigandi lóðarinnar gerði ekki athugasemd við stærð og afmörkun byggingareitsins á auglýsingatíma. Gera má því ráð fyrir ekki sé ágreiningur um umfang nýbyggingar. Fallin er úr gildi yfirlýsing frá íbúum Aðalstrætis 9 um afnot af svæði fyrir bílastæði skv. meðfylgjandi kaupsamningi þinglýstum 11. maí 2011. 

Skipulagsnefnd hafnar því erindinu um breytingu á deiliskipulagi og vísar að öðru leyti til fyrri svara við fyrirspurninni.

15.Kjarnagata - óbyggðar lóðir

Málsnúmer 2011030154Vakta málsnúmer

Eiður Guðni Mattíasson mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa 25. október 2012.
Eftirfarandi lið var vísað til afgreiðslu skipulagsnefndar:
c) Er óánægður með frágang á húsagrunnum milli Mýrartúns og Kjarnagötu sunnan Naustaskóla. Vill vita hvað á að gera við þá.

Komnir eru nýir eigendur að flestum lóðunum milli Mýrartúns og Kjarnagötu og má því ætla að framkvæmdir fari af stað á ný. Ef ekki, verður hægt að gera kröfu til nýrra eigenda um úrbætur ef í ljós kemur að öryggismálum sé ábótavant. Ekki er mælt með að hróflað verði við jarðvegshaugum á lóðunum nema að framkvæmdir hefjist á ný, því slíkt kallar á moldarfok með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa við Mýrartún og Kjarnagötu.

16.Leiruvöllur við Hafnarstræti - endurreisn

Málsnúmer 2012070064Vakta málsnúmer

Kristján Helgason, Inga Vala Birgisdóttir, Sigurbjörg Pálsdóttir og Fríður Leósdóttir úr stjórn Innbæjarsamtakanna mættu í viðtalstíma bæjarfulltrúa 25. október 2012.
Eftirfarandi liðum var vísað til afgreiðslu skipulagsnefndar:
b) Þau hafa áhyggjur af efri hluta Lækjargils og vilja vita hvað á að gera við hann og hvort og hvenær megi búast við að gatan verði malbikuð. Þau vilja benda á að vegna einstefnu Spítalavegar hefur umferð um gilið aukist til muna og þörf er á þungatakmörkunum í gilinu vegna umferðar stórra vöruflutningabíla.
d) Einnig er gerð athugasemd vegna akstursstefnu Spítalavegar.

b) Í nýsamþykktu deiliskipulagi Fjörunnar og Innbæjarins er Lækjargata skilgreind sem íbúðargata á milli Aðalstrætis og Höfðagötu. Gert er ráð fyrir þéttingu byggðar á neðra svæði Búðargilsins en óbyggðu svæði á efra hluta þess. Samkvæmt upplýsingum frá  framkvæmdadeild er endurbygging Lækjargötu ráðgerð 2016 með fyrirvara um samþykki bæjarráðs í 3ja ára áætlun.

d) Þann 22. ágúst 2012 gerði skipulagsnefnd eftirfarandi bókun um málið:

"Við vinnslu deiliskipulags Spítalavegar og Tónatraðar var núverandi aksturstefna ákveðin í samráði við íbúa hverfisins.

Skipulagsnefnd hafnar beiðninni þar sem íbúar við Spítalaveg eru mótfallnir breytingunni."

17.Brekkuskóli og nágrenni - fyrirspurn úr viðtalstíma

Málsnúmer 2012050138Vakta málsnúmer

Pétur Halldórsson mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa 25. október 2012.
Skipulag bílastæðamála við Brekkuskóla. Pétur lagði fram hugmynd/tillögu um breytingu á skipulagi á bílastæðum neðan Íþróttahallarinnar og ofan Brekkuskóla við Skólastíg. Vill hann að tillögurnar verði skoðaðar en nú stendur til að breyta innakstri á bílastæðið. Vill einnig að skoðað verði hvort hægt sé að koma með innkeyrslu frá Eyrarlandsvegi að Rósenborg og draga þannig úr og jafnvel loka fyrir umferð um Skólastíg við Möðruvallastræti.

Heildarendurskoðun á deiliskipulagi svæðis Brekkuskóla, Sundlaugar, Íþróttahallar og Vaxtarræktar var auglýst frá 12. september til 24. október 2012. Erindinu er vísað til afgreiðslu deiliskipulagsins sem nú stendur yfir.

18.Kjarnagata - uppgröftur

Málsnúmer 2009050004Vakta málsnúmer

Sævar Ingi Jónsson mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa 25. október 2012.
Lóðir milli Mýrartúns og Kjarnagötu.
Vill fá upplýsingar um hvað standi til með þessar lóðir, hver eigi þær og hvaða kröfur séu gerðar til eigenda um uppbyggingu. Kvartar yfir drasli, njólum og frágangi á lóðinni og vill vita hvernig verður gengið frá svæðinu ef ekki á að byggja þarna á næstunni.

Komnir eru nýir eigendur að flestum lóðunum milli Mýrartúns og Kjarnagötu og má því ætla að framkvæmdir fari af stað á ný. Ef ekki, verður hægt að gera kröfu til nýrra eigenda um úrbætur ef í ljós kemur að öryggismálum sé ábótavant. Ekki er mælt með að hróflað verði við jarðvegshaugum á lóðunum nema að framkvæmdir hefjist á ný, því slíkt kallar á moldarfok með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa við Mýrartún og Kjarnagötu. Að öðru leyti er vísað til bréfa dagsettra 8. júlí 2009 og 9. maí 2012 sem svars við fyrirspurninni.

19.Ránargata - ósk um breikkun á götu

Málsnúmer 2012040154Vakta málsnúmer

Jón Einar Jóhannsson mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa 25. október 2012.
Breidd á Ránargötu, suðurhluta. Telur götuna vera of þrönga og stærri bifreiðar eigi í erfiðleikum með akstur um götuna (sjá meðfylgjandi gögn). Vill sjá götuna breikkaða með því að mjókka gangstétt.

Skipulagsnefnd frestar erindinu og óskar eftir umsögn og tillögum um úrbætur frá framkvæmdadeild.

20.Aðalstræti 24b - umsókn um breytingar og viðbyggingu

Málsnúmer 2011050030Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. maí 2011 þar sem Magnús Guðlaugsson óskar eftir leyfi til að breyta og byggja við inngang íbúðar sinnar að Aðalstræti 24b. Nánari skýringar eru í meðfylgjandi bréfi og á ljósmynd.

Í nýsamþykktu deiliskipulagi Fjörunnar og Innbæjarins var tekið tillit til erindisins og sýndur byggingarreitur sem fyrirhuguð viðbygging getur rúmast innan. Sækja þarf um byggingarleyfi í samræmi við skilmála deiliskipulagsins.

21.Aðalstræti 30 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2012030235Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 27. mars 2012 þar sem Stefán Jóhannesson eigandi Aðalstrætis 30 óskar eftir að stækka byggingarreit á lóð sinni til vesturs og að hluta til suðurs. Meðfylgjandi er afstöðumynd.

Skipulagsnefnd samþykkir stækkun á byggingarreit að hluta sem er í samræmi við endurskoðað deiliskipulag Fjörunnar og Innbæjarins.

22.Duggufjara 12 - lóðarstækkun

Málsnúmer SN100056Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 20. maí 2010 þar sem Björk Þorsteinsdóttir sækir um lóðarstækkun við hús sitt númer 12 við Duggufjöru skv. meðfylgjandi teikningu. Einnig er óskað eftir breytingu á eyju í enda götunnar til að stoppa umferð sem fer þarna um.

Skipulagsnefnd samþykkir lóðarstækkunina sem er í samræmi við endurskoðað deiliskipulag Fjörunnar og Innbæjarins. Seinni lið fyrirspurnarinnar hefur þegar verið svarað.

23.Duggufjara 8 - lóðarstækkun

Málsnúmer SN100057Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 20. maí 2010 þar sem Bessi Skírnisson og Eiríksína Þorsteinsdóttir sækja um lóðarstækkun við hús sitt númer 8 við Duggufjöru í samræmi við það svæði sem þau nú þegar nýta utan tilgreindra lóðarmarka að austan.

Skipulagsnefnd samþykkir lóðarstækkunina sem er í samræmi við endurskoðað deiliskipulag Fjörunnar og Innbæjarins.

24.Hafnarstræti 45 - umsókn um lóðarstækkun

Málsnúmer SN090079Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 4. ágúst 2009 þar sem Sigurður Karl Jóhannsson sækir um stækkun til suðurs á lóð sinni að Hafnarstræti 45. Meðfylgjandi er afstöðumynd.

Skipulagsnefnd samþykkir lóðarstækkunina sem er í samræmi við endurskoðað deiliskipulag Fjörunnar og Innbæjarins.

25.Lækjargata 22a - lóðarstækkun

Málsnúmer SN100105Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 8. október 2010 þar sem Inga Vala Birgisdóttir sækir um lóðarstækkun við hús sitt nr. 22a við Lækjargötu til austurs og norðurs.

Skipulagsnefnd samþykkir lóðarstækkun að hluta sem er í samræmi við endurskoðað deiliskipulag Fjörunnar og Innbæjarins.

26.Hafnarstræti - Leiruvöllur - 147988

Málsnúmer 2011060034Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 8. júní 2011 þar sem Sigurbjörg Pálsdóttir, Jón Karlsson og Herdís Gunnlaugsdóttir óska eftir því að hugmynd um gámasvæði á lóðinni nr. 14 við Hafnarstræti, austan leiksvæðis, verði hafnað og leiksvæðið klárað eins og tillaga framkvæmdadeildar frá september 2008 gerði ráð fyrir. Sjá meðfylgjandi teikningu.

Í nýsamþykktu deiliskipulagi Fjörunnar og Innbæjarins var tekið tillit til erindisins og hætt við gámasvæði á lóðinni. Á lóðinni er skilgreint leiksvæði en gerð leiksvæða er á verksviði framkvæmdadeildar.

27.Lækjargata 4 - deiliskipulag Innbæjar, breytingar á lóðarstærð

Málsnúmer 2012010158Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 13. janúar 2012 þar sem Þröstur Sigurðsson, f.h. Tómasar Þórs Ágústssonar og Timothy Mark Richardson óskar eftir að við deiliskiplagsvinnu fyrir Fjöruna og Innbæinn verði gert ráð fyrir breytingum á lóð nr. 4 við Lækjargötu. Nánari skýringar í meðfylgjandi bréfi og afstöðumynd.

Í nýsamþykktu deiliskipulagi Fjörunnar og Innbæjarins var tekið tillit til erindisins að hluta.

28.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2012

Málsnúmer 2012010231Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 31. október 2012. Lögð var fram fundargerð 419. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 14 liðum.

Lagt fram til kynningar.

29.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2012

Málsnúmer 2012010231Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 7. nóvember 2012. Lögð var fram fundargerð 420. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 13 liðum.

Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 12:00.