Notendaráð fatlaðs fólks

10. fundur 23. október 2018 kl. 16:00 Glerárgata 26
Mættir: Karólína Gunnarsdóttir, sviðsstjóri á fjölskyldusviði, Friðrik Einarsson, Sif Sigurðardóttir, Róbert Freyr Jónsson, Kristín Sigfúsdóttir. Auk stjórnarfólks i notendaráði sátu gestir fundinn, þau Jón Hrói Finnsson sviðsstjóri á búsetusviði, Laufey Þórðardóttir, forstöðumaður búsetusviði, Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri og Helgi Þ. Svavarsson verkefnastjóri hjá SÍMEY.
 
Dagskrá:
1. Fundarefni var að ræða stöðu náms á framhaldsstigi fyrir fólk með fötlun og eða
þroskaskerðingar.
2. Önnur mál

Þeir Eyjólfur og Helgi fluttu stuttan inngang og lýstu hvor fyrir sig hvernig staðið væri að fræðslu og hvaða nám væri í boði á þessum vettvangi hjá sínum skólum eða stofnunum.
Lög um fullorðinsfræðslu er það sem stuðst er við í fræðslu fyrir fólk með þroskaskerðingar. Þau eru komin til ára sinna og eru í endurskoðun.
Helgi sagði frá því að hann væri í hlutastarfi þar sem mjög hefði dregið úr fjárveitingum til starfsins, því engar hækkanir hafi orðið á fjárframlögum frá því árið 2005. Veittar eru rúmlega 12 milljónir í fræðsluna og á það að duga fyrir húsaleigu, launum og öllum rekstri. Árið 2005 var verkefnastjórnin fullt starf. SÍMEY (Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar) tók við fræðslunni af Fjölmennt sem hafði aðsetur á Hvannavöllum. Helgi sagði að fjölbreytt framboð námskeiða væri í boði. Námskeiðin eru mislöng og allt upp í 80- 120 stundir. Fræðslusjóður atvinnulífsins hefur greitt fyrir fólk sem er í atvinnu með stuðningi. Hefur reynst vel að bjóða upp á námskeið sem gerir þátttakanda að sterkari starfsmanni og eins námskeið fyrir ófaglærða starfsmenn til að vinna í skólakerfinu. Hagnýt fræðsla sem skilar sér vel er svo sem að kenna matargerð og efla sjálfstæði einstaklinga til að bjarga sér betur bæði í einkalífi og á vinnustað. Margt væri hægt að bæta og vinna betur með öðrum skólum eða íþróttafélögum eða tómstundaklúbbum ef fjármagn og fagmenntaðir kennarar væru til staðar. Hið fjölbreytta nám má skoða á heimasíðu SÍMEYJAR. Mjög áhugavert var fyrir notendaráð að hlýða á upplýsingar Helga og ljóst að veruleg þörf er fyrir eflingu þess góða starfs sem unnið er á vegum SÍMEYJAR fyrir fólk með þroskaskerðingu.
 
Eyjólfur fór yfir hvað í boði væri hjá HA. Þar er ekki framboð á fræðslu fyrir fólk með þroskaskerðingu, en aðrir fatlaðir sækja skólann á sömu forsendum og allir nemendur gera. Aðeins Háskóli Íslands hefur boðið upp á nám fyrir fólk með þroskaskerðingu. Það er undir formerkjum diplomanáms, sem byggir á því að ná ákveðnu settu markmiði sem sett er í hverju tilviki. Diplomanámið getur verið fáir tugir eininga upp í 30-60 eininga nám.
Góðar umræður urðu um nám fyrir fólk með þroskaskerðingu og hvernig mætti efla enn frekar tengingu fólks með þroskaskerðingu við atvinnulíf og skóla. Lífsgæði fólks með þroskaskerðingu batna við aukna fræðslu og þátttaka allra í samfélaginu bætir andann á vinnustöðum, bæði í leik og
starfi. Enda er alltaf þörf fyrir vinnufúsar hendur þegar rétt er að málum staðið. Notendaráð hefur ríkan vilja til að fá upplýsingar um hversu margir gætu haft not af diplomanámi ef það yrði sett á laggirnar við Háskólann á Akureyri. Er það næsta verkefni að kanna þarfir fyrir slíkt nám, hver er væntanlegur nemendafjöldi, á hvaða forsendum ætti slíkt nám að vera og hvernig ætti að forgangsraða í slíku námi. Karólínu er falið að hefja söfnun gagna og vinna uppkast að greinargerð, sem notendaráð færi yfir og sendi til Háskólans á Akureyi. Síðan yrði boðað til fundar í Háskólanum til að ræða stöðuna og ef til vill vinna sem fyrst að því að koma á diplomanámi við HA.
Menntamálaráðuneytið keyrir nú á slagorðinu „Menntun fyrir alla fyrir árið 2030 „ Notendaráð þarf að fylgja eftir fræðslumálum fyrir fólk með fötlun.
 

Önnur mál:

1. Brýnt er að fara yfir ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og
breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fundarefni næsta fundar.
2. Skipað var í notendaráð til tveggja ára og er sá tími á enda runninn. Skipa þarf aftur í ráðið til
tveggja ára og verður sent bréf þar að lútandi til viðkomandi félaga. Átak er félag fólks með
þroskaskerðingar sem stofnað hefur verið í Reykjavík og stendur til að stofna hér á Akureyri
og þarf að bjóða aðgang að notendaráði. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um starfsemina í
Reykjavík á fund hér.
3. Friðrik kom með upplýsingar um aðgerðir í sundlaugarmálum. Breytingar eru hafnar og
fróðlegt verður að fylgjast með hvernig þær ganga. Engin lausn ennþá varðandi tíma.
 
 

Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 17.50