Notendaráð fatlaðs fólks

9. fundur 29. maí 2018 kl. 16:00 - 17:50 Glerárgata 26

Mættir: Karólína Gunnarsdóttir,forstöðumaður Fjölskyldusviði, Friðrik Einarsson, Jón Hlöðver Áskelsson, Kristín Sigfúsdóttir, Sif Sigurðardóttir, Róbert Freyr Jónsson

 

Dagskrá:

Velferðarstefna Akureyrarbæjar – beiðni um umsögn

Önnur mál

 

Velferðarstefna Akureyrarbæjar.

Farið var yfir velferðarstefnu Akureyrarbæjar sem send var frá velferðarráði   til umsagnar  í  notendaráði fatlaðra fyrr í vetur.  Fundarmenn fóru  yfir stefnuna, en voru búnir að fá hana áður á fundi og senda í tölvupósti og eins gátu þeir lesið hana á heimasíðu bæjarins. Almennt eru fundarmenn ánægðir með stefnuna. Helst var rætt um að nauðsynlegt væri að tengja við þá alþjóðlegu sáttmála sem bæst hafa við á undanförnum árum, svo sem samning SÞ  um þjónustu við fatlaða og barnasáttmála SÞ.  Kom fram að mikilvægast af öllu væri þó að í velfeðarstefnunni fælist að vinna ætti af virðingu og fagmennsku fyrir fólk og með fólki. Mörg hugtök í nýju velferðarstefnunni fá mikið vægi miðað við gömlu fjölskyldustefnu Akureyrar og er það vel, svo dæmi sé tekið má nefna  ofbeldi, mismunun og einelti.  Mikilvægt er að fjármagn fylgi aðgerðaráætlun svo vel verði ýtt úr vör með nýja stefnu. Notendaráð lítur á stefnuna sem lifandi plagg sem endurskoða eigi reglulega og uppfæra eftir því sem lög og reglugerðir segja til um.

Talsverðar breytingar fylgja nú nýjum lögum um málefni fatlaðs fólks er varðar notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) en ríkið hyggst gera áttatíu  styrktarsamninga við sveitarfélögin þar sem ríkið leggi til 25% af kostnaði við hvern samning. Karólína var innt eftir því hversu marga samninga hún teldi að sótt yrði um til Akureyrarbæjar. Hún kvað ómögulegt að slá nákvæmri tölu á það en ekki væri ólíklegt að samningarir yrðu 3-5 í fyrstunni. Mjög fatlað fólk getur sótt um að gera NPA samning þar sem notandi gerir samning við þá sem aðstoða hann.  Verið er að semja reglugerð um þjónustuna og ætlar Velferðarráðuneytið í samvinnu við hagsmunasamtök að gefa út handbók um þjónustuna. Nú eftir hálfan mánuð kemur fólk frá miðstöð NPA í Reykjavík og heldur fund hér með fólki sem ætlar að setja sig inn í þessi mál hér á Akureyri. Fundarmenn voru sammála um að best væri að hér yrði ákveðinn fulltrúi eða útibúsþjónusta frá miðstöðinni í Reykjavík. Nauðsynlegt væri að einhver talsmaður yrði hér að minnsta kosti. Lögin um NPA  taka gildi í október 2018.

 

Önnur mál.

 1. Fyrirspurn vegna kjara fatlaðra á vinnumarkaði voru rædd og hvort vinnustaðasamningar við fatlaða svo sem atvinna með stuðningi gæfu réttindi í lífeyrissjóði eða hvort þeir væru á verktakagreiðslum. Hver er munurinn á þeim sem eru lausráðnir og fastráðnir?  Fólk sem er fastráðið kemur  betur út t.d. við húsnæðiskaup.  Málið verður tekið fyrir síðar á fundi og meiri upplýsinga aflað í millitíðinni.

2. Rætt var um að ný lög um málefni fatlaðs fólks og félagsþjónustu sveitarfélaga og sex nýjar reglugerðir sem fylgja lögunum. Þær eru væntanlegar á þessu ári og ljóst að þjónustan er í sífelldri þróun. Í raun verður þá að endurskoða allar reglur um þjónustu við fatlað fólk. Þá breytast reglur um skammtímaþjónustu fatlaðra og tekur þá mið af nýjum lögum þar sem gert er ráð fyrir að skammtímaþjónusta sé aðallega fyrir börn. Það ákvæði sem fundarmönnum þykir ósanngjarnt í núverandi reglum þ.e. að útiloka fólk frá skammtímavistun hafi það hafnað húsnæði sem því er boðið af hálfu bæjarins hefur aldrei verið notað á Akureyri og verður endurskoðað.

3. Á fundinum kom fram að hægt verður að nota frístundastyrk barna til sumardvalar fyrir börn til dæmis í Reykjadal. Upplýst var að Akureyrarbær borgar með þeim börnum sem fara frá bæjarfélaginu í Reykjadal.

4. Fjallað var um að erfitt væri fyrir fatlaða einstaklinga sem iðka einhverja sérstaka listgrein að taka þátt í viðburðum eða fundum sem fara fram á höfuðborgarsvæðinu vegna kostnaðar sem er oft meiri hjá fötluðum en ófötluðum. Jón Hlöðver gat til dæmis ekki fengið styrk í vetur til að sækja fund Tónskáldafélagsins sem fór fram í Reykjavík. Það er bagalegt og sýnir mismunun ef fatlaðir komast ekki með til að vera virkir og viðurkenndir í sinni listgrein. Ræða mætti hvort áhugamannafélög og stéttarfélög gætu ekki veitt tiltekna styrki til fatlaðra listamanna til að auka virkni og þátttöku.

5. Sundlaugartímar fyrir fatlaða voru teknir til umræðu og upplýsti Jón Hlöðver hvernig staðan væri að ekki yrði hægt að halda þessum tveimur tímum í Kristnesi sem verið hefðu árum saman. Þeim sem dveljast á Kristnesi býðst þó að mæta í sundlaugina þar í 5 vikur eftir að dvöl lýkur. Samþykkt var að ræða við nýtt Frístudaráð um að fá ákveðna tíma í sundlaug Akureyrar í gömlu innilauginni  tvisvar í viku fyrir fólk sem þarf að vera í heitri laug og að kaupa þurfi lyftu við sundlaugina svo hreyfihamlaðir komist í laugina.  Samkeppni er um tímana í sundlauginni og að fatlaðir þurfa að eiga rétt á tímum fyrir sig. Eins þarf að bæta við handriðum og laga ýmislegt smálegt í sundlauginni til hagræðis fyrir fatlaða.

6. Sú hugmynd kom upp hvort kanna þyrfti hvort skólaliði eða fylgdarmaður þyrfti að vera í strætó svo börn notuðu vagninn meira til að skjótast eða skutlast milli staða. Eins gæti slíkur fylgdarmaður eða vörður verið fötluðum til aðstoðar. Mikilvægt er að börn treysti sér að taka strætó og læri ung að nota hann. Athuga mætti hvort þetta ætti við hluta árs og á vissum tíma dags.

7. Næsti fundur ákveðinn í lok ágúst. Starfsmaður fjölskyldusviðs mun setja sig í samband við háskólarektor og Jóhannes Árnason í VMA og óska eftir umræðum um diplómanám á háskólastigi og mögulegar útfærslur á því.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 17.50

Fundargerð ritaði Kristín Sigfúsdóttir