Náttúruverndarnefnd

5101. fundur 16. júní 2004
47. fundur
16.06.2004 kl. 15:00 - 17:00
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi/Akureyri


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Ingimar Eydal formaður
Mínerva Sverrisdóttir
Iris Dröfn Jónsdóttir
Jóhannes Árnason
Guðmundur Sigvaldason ritaði fundargerð


1 Friðlýsing Krossanesborga
2002030113
Tekið fyrir að nýju samþykkt nefndarinnar frá 13. maí sl. um breytta skilgreiningu á friðlýsingu Krossanesborga, eftir afgreiðslu bæjarstjórnar 1. júní 2004, sem vísaði málinu aftur til umfjöllunar í nefndinni.
Náttúruverndanefnd telur að vegna líffræðilegrar og jarðfræðilegrar fjölbreytni í Krossanesborgum verðskuldi svæðið fyllilega skilgreiningu "friðland", sbr. t.d. það að á svæðinu verpir um 35% fuglategunda á Íslandi og 40% allra blómplöntu- og byrkningategunda landsins vex þar. Sá gæðastimpill sem fælist í lögformlegu "friðlandi" fast við bæinn er auðlind sem ferðaþjónustan í héraðinu gæti notið, yrði vel að málum staðið.
Á hinn bóginn telur nefndin að markmið friðunar á Krossanesborgum og reglur um svæðið sem fólkvang tryggi þá auðlind sem það er og séu mikilvægari en skilgreiningin á svæðinu. Aðalatriði er að þess sé vandlega gætt að skammtímasjónarmið skerði ekki þau lífsgæði fyrir bæjarbúa í framtíðinni, sem felst í auðveldum aðgangi að þeirri náttúrufarslegu fjölbreytni sem er í Krossanesborgum. Nefndin væntir þess að friðlýsing svæðisins sem fólkvangs taki gildi sem fyrst, sbr. bókun nefndarinnnar 10. apríl 2003, staðfest í bæjarstjórn 20. maí 2003.2 Starfsáætlun fyrir árið 2005
2004060015
Kynntur var undirbúningur að starfsáætlunum nefnda fyrir árið 2005. Í því efni er unnið eftir aðferðafræði sem nefnist "stefnumiðað árangursmat".
Fyrir á fundinum lá stefnukort bæjarstjórnar Akureyrar (útg. 1.0). Þar er ekki að finna markmið um "sjálfbært samfélag", þó að slíkt markmið sé undirstaða staðfests aðalskipulags bæjarins, sé meginefni Ólafsvíkuryfirlýsingarinnar, sem bæjarstjórn hefur staðfest og sé forsenda fyrir framkvæmdaáætlun Staðardagskrár 21 fyrir Akureyri.
Náttúruverndarnefnd beinir því til bæjarstjórnar að á stefnukorti bæjarstjórnar verði markmiðið "Sjálfbært samfélag".


3 Staðardagskrá 21 - hugmyndahefti
2004060047
Lagt fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 8. júní 2004 um norrænt hugmyndahefti um verkefni í anda Staðardagskrár 21. Í bréfinu kemur fram að í framhaldi af útgáfunni verði haldin málþing um Staðardagskrá 21 á 6-8 stöðum á Norðurlöndunum í haust. Eitt málþinganna verður haldið á Akureyri 10. september nk.


Fundi slitið.